*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Óðinn
20. desember 2017 15:52

Staða kvenna í þróunarríkjum

Dýrmætasta gjöfin er sú að gefa fólki tækifæri til að stjórna sínu eigin lífi.

Óðinn hefur fylgst með konum í hverri stéttinni á fætur annarri rísa upp til að vekja athygli á og mótmæla kynbundnu ofbeldi og mismunun af ýmsu tagi. Framtaki kvennanna ber að fagna, enda á enginn einstaklingur að þurfa að þola ofbeldi, áreiti eða mismunun, á hverju sem sú mismunun byggir – kynþætti, kynferði, trúarbrögðum eða öðru. Vonandi er að þessi viðleitni leiði til varanlegra breytinga hér á landi sem annars staðar.

                                           ***

Umræðan minnti Óðinn hins vegar á tvær afar áhugaverð­ ar greinar um stöðu kvenna í fátækari ríkjum heims og hvað er hægt til að bæta hana. Hér ber að taka fram að Óðinn er á engan hátt að gera lítið úr vanda þeim sem Íslenskar konur takast greinileg á við, þótt hann veki máls á enn verri stöðu kvenna í öðrum heimshlutum.

                                           ***

Goðsögnin um valdeflingu kvenna

Fyrri greinin sem um ræðir er eftir Rafia Zakaria, bandaríska blaðakonu af pakistönskum ættum, og birtist í New York Times þann 5. október á þessu ári. Í greininni, sem ber fyrirsögnina „The Myth of Women’s Empowerment”, gagnrýnir hún harkalega margar hugmyndir vestrænna góðgerðasamtaka um það hvernig bæta megi efnahagslega stöðu kvenna í þriðja heiminum.

                                           ***

„Fyrir aðeins 100 dollara geturðu styrkt konu í Indlandi […] Þessi hóflega upphæð nægir til að að láta konu í té hennar eigin saumavél, sem gerir henni kleift að stíga sín fyrstu skref í átt til valdeflingar,” segir í grein Zakaria. Hún bendir einnig á að hægt sé að kaupa hænu fyrir konu í þriðja heiminum, eða borga 390 dali fyrir „valdeflingarkörfu” handa konu í Afríku. Í körfunni er að finna kanínur, fiskseyði og silkiorma.

                                           ***

Zakaria segir að undirliggjandi í öllum þessum tilboðum til efnaðra Vesturlandabúa sé sú hugmynd að valdefling kvenna sé efnahagslegt mál, sem hægt sé að skilja frá stjórnmálunum sjálfum. Þessi aðskilnaður geri það að verkum að auðvelt er fyrir vel meinandi Vesturlandabúa að bókstaflega kaupa sér sálarfrið í formi hænu, geitar eða saumavélar. Hins vegar sé lítið sem bendi til þess að þessi vestrænu aflátsbréf skili nokkrum varanlegum umbótum í lífi hinna fátæku kvenna.

                                           ***

Hagsmunagæslan

Zakaria bendir til dæmis á hænsnaræktina, sem er sérstakt áhugamál stjórnenda Gates Foundation, sjóðs sem stofnaður var af Bill og Melindu Gates. Sjóðurinn segir að vegna þess að hænsnfuglar eru lítil húsdýr, sem hægt sé að hafa á heimilinu, henti þeir vel til valdeflingar kvenna. Zakaria segir hins vegar að engin rannsókn sé til sem sýni fram á að hænsngjafir hafi leitt til betri efnahagsstöðu viðtakendanna til lengri tíma litið, hvað þá að það hafi leitt til árangurs í réttindabaráttu kvenna almennt.

                                           ***

Zakaria bítur fastast þegar hún fjallar, í stuttu máli þó, um hagsmuni þeirra sem stjórna góð­ gerðasamtökunum og -stofnunum. Samtökin hafa nefnilega fjárhagslegra hagsmuna að gæta og það er þeim í hag að ýta undir gjafmildi Vesturlandabúa og stofnanirnar þurfa að réttlæta fjárútlátin fyrir stjórnmálamönnum og skattgreiðendum. Þannig hampi Þróunarstofnun Bandaríkjanna, USAID, tölum um það hversu margar afganskar stelpur séu „skráðar” í skóla. Með því móti er hægt að skauta framhjá því hversu margar stelpnanna mæti ekki í tíma eða ná ekki að útskrifast. Þau samtök sem vilja ýta undir hænsngjafirnar mæla í gríð og erg skammtímaáhrifin af eggjasölu á heimilin, en ekki áhrifin til lengri tíma.

                                           ***

Hún segir að góðgerðasamtök eigi það til að gera konurnar sjálfar ósýnilegar til að búa til betri sögu fyrir þá sem gefa fé til reksturs þeirra. Nefnir hún dæmi um það þegar félagsskapur sem berst gegn mansali í Kambódíu fékk heimsókn frá vestrænum góðgerðasamtökum. Samtökin vildu taka upp myndband til að styðja við fjáröflun á Vesturlöndum og óskuðu eftir því að fá að taka viðtal við fórnarlamb mansals. „Þegar kona var fundin í viðtalið var henni hafnað af því að hún passaði ekki inn í ímyndina af hinu unga, hjálparlausa fórnarlambi sem góðgerðasamtökin vildu.”

                                           ***

Grein Zakaria er meira en lestursins virði, en hún fellur engu að síður í sömu gryfju og fólkið sem hún gagnrýnir. Hún gerir skýr greinarmörk á milli efnahagsmála og stjórnmála. Munurinn er sá að hún vill lágmarka áhersluna á efnahagsmálin, á meðan hún gagnrýnir fólk fyrir að lágmarka áhersluna á stjórnmálin.

                                           ***

Efnahagsmálin eru mikilvæg

Chelsea Follett, stjórnmálafræð­ingur og annar ritstjóra síðunnar Humanprogress.org, skrifaði svo aðra grein þann 10. október á þessu ári, sem lesa má á vefsíðu Cato-stofnunarinnar. Þar leggur hún út frá grein Zakaria og tekur hjartanlega undir þá gagnrýni hennar að nálgun margra vestrænna góðgerðarstofnana og -samtaka sé yfirlætisleg og geri lítið úr þeim sem hjálpa á.

                                           ***

Bendir hún á niðurstöður Williams Easterly í bókinni The Tyranny of Experts, þar sem hann lýsir því í ítarlegu máli hvernig skipulag þróunarað­ stoðar í heiminum geri það að verkum að það séu í mörgum tilvikum einkum vestrænir „sérfræðingar“ og einræðisherrar í fátækum ríkjum sem hagnist á þróunaraðstoðinni. Staðreyndin sé sú að þróunaraðstoð hafi ekki lyft einu einasta ríki upp úr fátækt og í sumum tilvikum hafi þróunaraðstoð hamlað nauðsynlegri uppbyggingu í fá­ tækum ríkjum. Þannig starfi um 10.000 hjálparsamtök í Haítí, en flæði þróunaraðstoðar til landsins hafi grafið undan þarlendum iðnaði og leitt til þess að fátækt hefur aukist í landinu.

                                           ***

Follett er hins vegar ósammála Zakaria hvað varðar mikilvægi efnahagsmála þegar kemur að því að bæta stöðu kvenna í þró­ unarríkjum. Baráttan gegn fá­ tækt og fyrir auknu jafnrétti kynjanna sé þvert á móti samofin. Það hafi margoft verið sýnt fram á að eftir því sem dregur úr fátækt í samfélögum þá minnki ójöfnuður á milli kynjanna – með öðrum orðum batni staða kvenna hraðar en karla með aukinni efnahagslegri velsæld. Staða kvenna sé einna verst í fátækustu ríkjunum.

                                           ***

Peningum fylgir vald

Félagsleg valdefling kvenna sé mjög nátengd efnahagslegri valdeflingu þeirra og að konur, sem hópur, hagnist mest á aukinni hagsæld.

                                           ***

Peningum fylgir vald – um það deilir enginn. Eftir því sem auð­ ur kvenna eykst í samfélaginu því meira verður pólitískt vald þeirra og geta til að berjast fyrir auknum formlegum völdum og réttindum.

                                           ***

Þar kemur loks að því hvernig hægt er raunverulega að bæta stöðu kvenna í þriðja heiminum. Það er ekki gert með því að borga vestrænum góð­ gerðasamtökum fyrir að koma saumavél til indverskrar konu, eða silkiorma til afrískrar. Það er gert með því að auka frelsi í viðskiptum, innan ríkja og á milli ríkja. Auka möguleika fá­ tækari ríkja til að stunda við­ skipti með vörur og þjónustu og safna auði með þeim hætti. Stórkostlegur árangur hefur náðst í baráttunni við fátækt í Kína og Indlandi og þar hefur hundruðum milljóna verið bjargað úr fátækt, þrátt fyrir að aðeins brot af þróunaraðstoð heimsins hafi verið veitt til þessara ríkja. Stefnubreytingar í átt að viðskiptafrelsi í ríkjunum tveimur eru ástæða þessarar auknu velmegunar.

                                           ***

Dýrmætasta gjöfin

Íbúar fátækra ríkja eru ekki fórnarlömb aðstæðna sem bíða aðgerðalaus eftir björgun. Þetta er hugsandi fólk sem getur lyft sér sjálft upp úr fátækt ef það aðeins fær tækifæri til þess.

                                           ***

Hugum aðeins að þeim fréttum sem reglulega berast frá Indlandi af skelfilegum kynferðisbrotum. Engum dettur í hug að þessi brot séu ný af nálinni. Þau hafa eflaust viðgengist um áratuga- eða jafnvel árhundraða skeið. Það sem hefur breyst er það að indverskar konur sætta sig ekki lengur við sinnuleysi lögregluyfirvalda og dómstóla og hafa krafist breytinga. Það sem meira er um vert er að þeim er að verða nokkuð ágengt í þeirri baráttu, þótt enn sé langt í land.

                                           ***

Þessi pistill mun eflaust fara öfugt ofan í marga, svona skömmu fyrir jólin, tíma gjafa og gjafmildi. En hvort skiptir meira máli – að friða eigin samvisku með því að eyða fé í eitthvað sem ekki skilar fátæku fólki neinum ábata, eða að berjast við hlið þessa sama fólks til að gera þeim kleift að hjálpa sér sjálft.

                                           ***

Dýrmætasta gjöfin er sú að gefa fólki tækifæri til að stjórna sínu eigin lífi.

Stikkorð: konur þróunarríki
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is