*

mánudagur, 13. júlí 2020
Steingrímur Birgisson
30. desember 2018 09:22

Staðan er viðkvæm og verkefnin mörg

Vegakerfi landsins er ekki búið undir það aukna álag sem fjölgun ferðamanna hefur haft í för með sér og stjórnvöld þurfa að bregðast við.

Haraldur Guðjónsson

Ferðaþjónustan hefur verið mikið rædd innan sem utan greinarinnar undanfarin ár og sitt sýnist hverjum. Sumum þykir nóg um hraðan vöxt greinarinnar meðan aðrir telja að við getum tekið á móti töluvert fleiri ferðamönnum. Flestir eru þó sammála um að ferðaþjónustan átti stóran þátt í að koma okkur upp úr öldudal hrunsins á skömmum tíma og hefur bætt lífsgæði okkar með auknu úrvali veitingastaða, afþreyingar og fjölbreyttari atvinnumöguleikum svo fátt sé nefnt. Vöxturinn hefur verið gríðarlegur og ferðaþjónustan er orðin okkar stærsta útflutningsatvinnugrein. Það væri óeðlilegt ef greinin héldi áfram að vaxa um tugi prósenta árlega. Það er því engin krísa þó ferðamönnum fjölgi „einungis“ um örfá prósent eins og stefnir í þetta árið. Nú gefst greininni tækifæri á að taka til í eigin ranni og vinna að því að bæta og styrkja innviði. Að mínu mati er margt vel gert og stjórnvöld hafa hægt og bítandi unnið að því í samstarfi við greinina að styrkja þá þætti sem þarf, en mun betur má ef duga skal.

Flestir ferðamenn koma til landsins til að njóta náttúrunnar og samkvæmt skýrslu Rannsóknar og ráðgjafar fyrir árið 2018 sem unnin var fyrir Vegagerðina, leigir um 61% af öllum ferðamönnum bílaleigubíla til að keyra um landið. Þessi tala hefur vaxið töluvert síðustu ár. Ferðamenn á bílaleigubílum skilja hvað mest eftir sig í íslenskri ferðaþjónustu og eru greininni afar mikilvægir því þeir „dreifa sér sjálfir“ vítt og breitt um landið. Þannig stuðla þeir að bættum rekstrarskilyrðum í gistingu og annarri þjónustu um allt land. Það er ákaflega mikilvægt þó ekki væri nema vegna þess að við verðum að dreifa álagi á viðkvæma náttúru landsins og tryggja þjónustu á landsvísu en ekki bara á afmörkuðum svæðum á suðvestur- horninu. 

Tekjur ríkisins af bílaleigum eru miklar, bæði beinar og óbeinar, og til gamans má geta að ferðamenn kaupa eldsneyti fyrir að lágmarki 10 ma.kr. á ári, og renna 6 ma.kr. beint í ríkiskassann. Eru þá ótaldar aðrar tekjur ríkisins, en t.a.m. eru bílaleigubílar einu atvinnutæki landsins sem bera vörugjöld og greiddu þær um 1.800 milljónir í slík gjöld á síðasta ári.

Tryggingakostnaður íslenskra bílaleiga er hlutfallslega mun hærri en gengur og gerist í nágrannalöndum okkur. Meginástæða þess er meingölluð skaðabótalöggjöf þar sem við tryggjum leigutaka okkar mun betur en við sjálf erum tryggð á ferðum okkar erlendis. Þá er vegakerfi landsins ekki beint vinsamlegt fyrir þessi atvinnutæki sem meðal annars eru notuð til að þjappa niður olíumöl á þjóðvegum landsins með tilheyrandi kostnaði vegna framrúðutjóna og annarra tjóna.

Ísland er í samkeppni við aðra áfangastaði þar sem vörugjöld af bifreiðum þekkjast ekki, virðisaukaskattur er víðast hvar mun lægri en hérlendis og tryggingar og annar rekstrarkostnaður bílaleigubíla er mun lægri en á Íslandi. Því er myndin orðin ansi skökk hvað samkeppnishæfni bílaleigugeirans varðar. Það er grafalvarlegt og skiptir miklu máli fyrir vaxtarmöguleika greinarinnar og dreifingu ferðamanna um landið. Ég hvet stjórnvöld til að gera það sem þau geta til að bæta samkeppnishæfni greinarinnar, t.a.m. með ívilnun vörugjalda, en sú ívilnun sem bílaleigubílar hafa haft síðustu ár mun að óbreyttu falla niður um næstu áramót.

Vegakerfi landsins er ekki búið undir það aukna álag sem fjölgun ferðamanna hefur haft í för með sér og stjórnvöld þurfa að nota meira af þeim tekjum sem þau hafa af bílaleigugreininni og öðrum afleiddum tekjum sbr. eldsneytissölu, til að bæta vegakerfið. Vegir eru margir hverjir alltof þröngir, of margar einbreiðar brýr, merkingum eða leiðbeiningum áfátt og útsýnisstaðir eða útskot alltof fá. Margt af þessu er lítið mál að laga og má sem dæmi nefna bættar merkingar og stýring á akstri um einbreiðar brýr.

Framtíðarhorfur íslenskrar ferðaþjónustu eru bjartar. Það er hins vegar mikilvægt að hagsmunaaðilar fái áheyrn og skilning hjá stjórnvöldum og að allir séu tilbúnir til að vinna saman að farsælum lausnum. Þar skiptir mestu máli að samkeppnishæfni sé tryggð og þar er staða krónunnar einn áhrifamesti þátturinn. Alltof sterk staða krónunnar fælir viðskiptavini frá og hefur því miður í mörgum tilfellum haft afar neikvæð áhrif á afkomu greinarinnar. Til að mæta því mætti velta fyrir sér möguleikum þess að fara sömu leið og Norðmenn fóru og stofna nokkurs konar „olíusjóð“ á Íslandi fyrir erlendar tekjur landsins til að minnka áhrif þeirra á gengi íslensku krónunnar.

Verðbólgustýring Seðlabankans er svo sérkapítuli útaf fyrir sig. Flestum er ljóst að hækkun stýrivaxta Seðlabankans kallar á verðhækkanir fyrirtækja sem á endanum leiðir til hækkunar verðbólgu. Þetta er hinn kaldi raunveruleiki sem sennilega finnst ekki í neinum fræðibókum þeirra sem lítið hafa migið í saltan sjó.

Ég tel mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir hagkerfið óumdeilt og staða greinarinnar er að mörgu leyti góð, en hún er viðkvæm og verkefnin framundan ærin. Við þurfum samstillt átak stjórnvalda og allra sem að greininni koma til að tryggja að ferðaþjónustan verði áfram ein af undirstoðum Íslands næstu áratugina þjóðinni allri til góða.

Höfundur er forstjóri Bílaleigu Akureyrar.

Greinin birtist í tímariti Frjálsrar verslunar en í því var ítarleg umfjöllun um ferðaþjónustuna. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst askrift@vb.is.

Stikkorð: ferðaþjónusta
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.