Sjávarútvegur hefur orðið fyrir skakkaföllum vegna kórónuveirufaraldursins. Útflutningur til helstu viðskiptalanda hefur dregist saman um tugi prósenta frá fyrra ári, hvort sem litið er til magns eða verðmæta. Væntingar voru um að veiran væri á undanhaldi í upphafi sumars. Fréttir liðinna vikna um ris í útbreiðslu hennar, gefa hins vegar ekki tilefni til bjartsýni.

Það er ef til vill ekki augljóst þeim sem stendur utan við sjávarútveg, að koma auga á þær umbreytingar sem orðið hafa í atvinnugreininni á umliðnum árum. Þessar breytingar eru hins vegar svo mikilsverðar, að fullyrða má, að fjöldi aðila í sjávarútvegi hefði ólíklega staðið af sér viðlíka högg og kórónuveirufaraldurinn hefur í för með sér, ef það hefði skollið á fyrir einum áratug eða svo.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað frá árinu 2007 í okkar verðmætasta stofni; þorskinum. Lítil en stöðug aukning í veiðum ár hvert frá þeim tíma, aukin nýting og aukin fjölbreytni í afurðum, hafa skilað verulegri aukningu í verðmætum. Með áherslu á fleiri markaði hefur jafnframt tekist að dreifa betur áhættunni. Svo dæmi sé tekið, þá var vægi Bretlands um fjórðungur af útflutningsverðmætum sjávarafurða frá Íslandi á fyrsta áratugi þessarar aldar.

Í fyrra var vægi Bretlands komið í 17%. Í ljósi þess að einstökum ríkjum mun ganga misjafnlega að hefta útbreiðslu veirunnar, þá mun þessi áhættudreifing íslensks sjávarútvegs, bæði hvað varðar afurðir og viðskiptalönd, milda áhrifin af ástandinu. Þá hefur það ekki síður áhrif, að fjárhagleg staða er heilt yfir góð í íslenskum sjávarútvegi. Sterk staða eigin fjár sýnir að sjávarútvegur hefur sýnt fyrirhyggju. Atvinnugreinin þekkir það enda vel, að veiðar og sala á sjávarafurðum eru ekki án áhættu. Sjaldan er ein báran stök. Sterk eiginfjárstaða er einfaldlega nauðsynleg í áhættusömum rekstri og grunnatvinnuvegi þjóðar.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.