Eins og fram kemur í síðustu peningamálaskýrslu Seðlabankans hvílir helsti óvissuþátturinn um framgang baráttunnar gegn verðbólgunni á komandi kjarasamningum sem verða lausir innan fárra mánaða. Vissulega mun áframhaldandi umrót á alþjóðlegum hrávörumörkuðum og brestir í aðfangakeðjum samhliða vaxandi ólgu á vettvangi alþjóðamála ráða miklu um verðlagsþróunina hér á landi. En þetta eru þættir sem hvorki stjórnvöld hér á landi né aðilar vinnumarkaðarins fá neinu ráðið um. Ábyrgðin er að öllu leyti þeirra þegar kemur að gerð skynsamlegra kjarasamninga sem hafa þjónað hagsmunum bæði launafólks og atvinnurekanda með því að tryggja kaupmátt og samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Forsenda þess að það takist er að það ríki sæmileg sátt á vinnumarkaðnum og sameiginlegur skilningur á hvernig landið liggur í efnahagsmálum. Með öðrum orðum: Að aðilar vinnumarkaðarins tali sama tungumálið. Því miður hefur þetta ekki alltaf verið raunin og vísbendingar um að engar breytingar sé að vænta í þeim efnum. Þannig var haft eftir Drífu Snædal, forseta ASÍ, í Fréttablaðinu á miðvikudag að gerð kjarasamninga undanfarna þrjá áratugi hefði einkennst af hóflegum hækkunum að teknu tilliti til framleiðniaukningar í hagkerfinu. Orðrétt er haft eftir Drífu:

Ef við lítum 30 ár aftur í tímann þá hefur ekki verið samið um launahækkanir umfram framleiðniaukningu að undanskildum árunum 2009 og 2010 en það var bara til að ná upp kjaraskerðingunni."

Gott ef satt væri. Staðreynd málsins er því miður sú að hér á landi hafa laun hækkað langt umfram hefðbundna mælikvarða á framleiðni vinnuafls um áratugaskeið. Rætt hefur verið um norræna vinnumarkaðslíkanið hér á landi en það byggir á að kjarasamningar taki mið af framleiðniaukningu útflutningsatvinnuveganna til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Það er að segja að ekki sé samið um hækkun launa umfram það efnahagslega svigrúm sem framleiðniaukning skapar hverju sinni. Engin þörf hefði verið fyrir samtal aðila vinnumarkaðarins sem kennt er við SALEK ætti ofangreind fullyrðing forseta ASÍ við einhver rök að styðjast.

Samkvæmt tölum Samtaka atvinnulífsins hefur meðalhækkun lægstu launa umfram það svigrúm sem framleiðniaukning hefur skapað verið 3,4% sé horft til áranna 1990 til 2021. Hækkunin nemur 2,4% þegar kemur að launavísitölunni á sama tímabili. Heildarhækkun launavísitölunnar á tímabilinu umfram svigrúm til launahækkana nemur 108%.

Tortryggi menn af einhverjum ástæðum útreikninga Samtaka atvinnulífsins þarf ekki að leita lengra en í skrif Seðlabankans til að fá sömu niðurstöðu. Í áðurnefndri peningamálaskýrslu Seðlabankans er fjallað um hvaða svigrúm sé til launahækkana í núverandi efnahagsástandi ef ekki eigi að grafa frekar undan verðstöðugleika. Niðurstaðan er að svigrúmið sé lítið og miklar launahækkanir í kjarasamningum næsta vetur geti aukið hættuna á víxlverkun launa og verðlags sem gæti valdið því að mikil verðbólga festist enn frekar í sessi.

Í greiningu Seðlabankans kemur einnig fram að hækkun launa hér á landi er einnig töluvert umfram það sem raunhæft er að vænta að framleiðni vinnuafls vaxi að jafnaði um á ári. Þar kemur einnig fram að framleiðni hafi aukist um 1,3- 1,5% á ári undanfarin tíu ár eftir því hvort miðað er við verga landsframleiðslu á vinnustund út frá vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar eða vergar þáttatekjur á vinnustund út frá vinnumagnsmælingu þjóðhagsreikninga. Á þessu sama tímabili, segir í skýrslu Seðlabankans, hafa nafnlaun að jafnaði hækkað um 6,5- 7% á ári eftir því hvort miðað er við launavísitöluna eða vísitölu heildarlauna sem mælir öll laun á vinnustund en ekki einungis regluleg laun sem launavísitalan mælir.

Í yfirlýsingu sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir úttekt sérfræðinga hans á stöðu mála hér á landi er bent á mikilvægi þess fyrir efnahagslegan stöðugleika að kjaraviðræður á komandi vetri taki mið af framleiðniaukningu einstaka geira hagkerfisins.

Full ástæða er til þess að taka tillit til þessarar ábendingar. Forsenda þess er eðli málsins samkvæmt sú að viðsemjendur komi sér saman um hinar efnahagslegu staðreyndir og taki tillit til þeirra í leit sinni að niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir alla. Miðað við launaþróun undanfarinna ára og hækkanir einstakra geira er ljóst að svigrúmið er lítið og ættu því samningaviðræðurnar að snúast um að vernda þá kaupmáttaraukningu sem hefur náðst og verðstöðugleikann.  Enn sem komið er fátt sem bendir til þess að slík niðurstaða sé raunhæf. Og hún mun ekki raungerast meðan staðreyndir um framleiðni og launahækkanir eru afbakaðar og að verkalýðsforingjar segi að markmið kjarasamninganna verði að ná til baka „hverri krónu" sem vaxtahækkanir kosta launþega í aukin útgjöld og að uppræta það heimsins óréttlæti sem brennur á þeim, í hvert sinn sem þeir ræða við fjölmiðla.

En vonandi breytist tónninn það og aðilar vinnumarkaðarins fari að taka mark á varnaðarorðum Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á dögunum um að allir þurfi að leggjast á eitt til að koma í veg fyrir að efnahagslífið sigli ekki inn í verðbólgukreppu.