Nú þegar rúmar tvær vikur eru til kosninga keppast stjórnmálamenn um að lofa upp í ermina á sér og öðrum. Vandinn við kosningaloforð stjórnmálamanna eru að fæst þeirra snúa að því sem mestu skiptir fyrir atvinnulífið og þar með landsmenn alla.

Það sem er mikilvægast fyrir atvinnulífið er stöðugleiki svo að ytra umhverfið sé sem allra fyrirsjáanlegast. Það á við um gjaldmiðilinn okkar, stjórnmálin og rekstrarumhverfið almennt, svo sem skattkerfið.

Það þarf sterk bein til að þola góða daga, en því miður hafa íslenskir stjórnmálamenn álíka sterk bein og tíræður maður með mjólkuróþol. Ágóðanum af góðæri síðustu ára hefur að stórum hluta verið varið í aukin ríkisútgjöld.

Aðhald í rekstri hins opinbera hefur ekki verið nægjanlegt og skuldir hafa ekki verið greiddar niður nægjanlega hratt. Þetta þýðir að næsta niðursveifla verður sársaukafullri en ella. Það verður erfitt fyrir alla þegar þarf að fara að rifa seglin. Lágar opinberar skuldir eru grundvöllur þess að hið opinbera hafi svigrúm til að tryggja velferð til framtíðar.

Í löndum eins og Þýskalandi og Svíþjóð ná þeir stjórnmálamenn mestum árangri sem tala af mestri ábyrgð og eru líklegastir til að gæta aðhalds. Á Íslandi er þessu öfugt farið. Stærstu sigrar síðustu ára hafa unnist með loforðum um gríðarleg ríkisútgjöld að vopni. Það verða alltaf áskoranir fólgnar í því að vera með fljótandi smámynt. Það mikilvægasta sem ríkið getur gert til að takast á við þær áskoranir er að gæta aðhalds í ríkisrekstri.

Það væri óskandi ef stjórnmálamenn kæmu fram á sviðið og lofuðu stöðugleika og aðhaldi, því það er það sem langmestu máli skiptir fyrir alla. Kjósendur eru ekki kjánar, það hlýtur að vera eftirspurn eftir þannig stjórnmálum.

Höfundur er lögfræðingur og MBA