*

föstudagur, 16. apríl 2021
Óðinn
1. janúar 2021 11:04

Stærsta ríkisvæðing Íslandssögunnar?

„Það má telja upp nokkurn fjölda ágætra mála sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og nokkurn fjölda vondra mála.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson.
Haraldur Guðjónsson

Ríkisstjórnin sem nú situr var frá fyrsta degi ríkisstjórn málamiðlana og stöðnunar. Stöðnun er í sjálfu sér ekki slæm ef þú ert á ágætum stað. Einmitt þannig var staðan í efnahagsmálunum og þjóðmálunum fyrstu rúm tvö ár stjórnarinnar. En svo tók COVID-19 hús á heiminum og þá vandaðist málið. Það má telja upp nokkurn fjölda ágætra mála sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir og nokkurn fjölda vondra mála.

* * *

Alversta stjórnarfrumvarpið hingað til er glórulaus hugmynd Vinstri grænna af sósíalisma (VGS) um hálendisþjóðgarð. Ein helstu rök umhverfisráðherrans fyrir þjóðgarðinum eru þau að hann verði sá stærsti í heimi. Eins og það skipti einhverju máli. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar og nú umhverfisráðherra, skrifaði grein í hið ágæta tímarit Frjálsa verslun jólin 2012. Þar sagði hann.

„Passionið“ mitt er að hálendi Íslands verði griðastaður þjóðarinnar, svæði sem við höldum utan frekari orkunýtingar og byggjum ferðaþjónustu upp án of mikilla áhrifa á náttúruna. Við eigum lítt snortin víðerni á hálendinu sem við verðum að bera gæfu til að standa vörð um. Þau eru einstök á evrópskan mælikvarða, ein af fáum sem eftir eru. Þá tel ég mikilvægt að vinna að endurheimt víðerna á hálendinu.“

* * *

Það er sem sagt ástríða núverandi umhverfisráðherra að á 40% af Íslandi verði ekki unnin umhverfisvænasta orka sem til er á jörðinni – hugsanlega þar til Bill Gates verður búinn að takast að byggja TerraPower kjarnorkuverin sín. Þetta yrðu líklega stærstu efnahagslegu afleiðingarnar af þessu vitleysisfrumvarpi.

* * *

En endatakmark Vinstra grænna er að allir Íslendingar séu á ríkisjötunni, annaðhvort starfandi hjá ríkinu eða flæktir í öryggisnetið sem atvinnulausir, öryrkjar eða á kaffihúsi í fæðingarorlofi. Það eru saklaus ákvæðin um ríkisreksturinn í frumvarpinu, aðeins sex þjóðgarðsverðir. En þetta verður fljótt að bákni í bákninu.

* * *

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, fjallaði um frumvarpið á heimasíðu sinni í um miðjan desember. Þar sagði hann.

Í frumvarpinu er ráðgert að 11 manns sitji í stjórn hálendisþjóðgarðs undir forsjá ríkisins. Að auki komi svo sex níu manna umdæmisráð, 54 fulltrúar, til að fara með málefni sex rekstrarsvæða innan þjóðgarðsins. Alls 65 manna hópur, tveimur fleiri en sitja á alþingi, á að sýsla með þetta svæði. Er nokkur furða að sett sé spurningarmerki við þessa skipan?

Í stað sjálfboðaliðastarfs heimamanna sem sjálfsagt er að stýra með reglum um friðun og skynsamlega landnýtingu boðar ríkið yfirtöku með 65 manns, bara í stjórn og ráðum, auk þess sem í farvatninu er þjóðgarðsstofnun til að negla miðstýringuna endanlega hjá ríkinu.

Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögum, að hrifsa það frá þeim á þennan hátt með nýju ríkisbákni er varhugavert stílbrot ef ekki stjórnarskrárbrot en í 78. gr. stjórnarskrárinnar segir: „Sveitarfélög skulu sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.“ Samrýmist þessu ákvæði að svipta sveitarfélög skipulagsvaldi á hálendinu?

* * *

Sumir telja enn að ríkisvaldið sé vel til þess fallið að sinna þjónustu og rekstri, jafnvel betri en einkaaðilar. Þessir sumir skilja reyndar ekki muninn á einkarekstri og einkavæðingu, en það er önnur og ekki síður vond saga.

* * *

Ein þeirra er Oddný Harðardóttir. Helsta afrek hennar var að koma þingflokki Samfylkingar í þrjá þingmenn og er mikill söknuður af henni í formannsstólnum. Nýverið setti Oddný færslu á Twitter og sagði:

Margt höfum við lært af COVID-19. Eitt er að ríki sem hafa útvistað heilbrigðisþjónustu til einkafyrirtækja ráða illa við veiruna. Ríki með sterkt opinbert heilbrigðiskerfi standa betur.

* * *

Oddnýju, og öðrum þeim sem misskilja lífið og tilveruna, til upplýsinga þá er búið að finna upp bóluefni við COVID-19. Það eru einkarekin lyfjafyrirtæki sem eru nú byrjuð að dreifa bóluefninu. Hið opinbera skapar engin verðmæti, heldur tekur verðmæti frá fólki og lætur aðra hafa, oftar en ekki með miklum tilkostnaði í formi sóunar.

* * *

Að endingu vill Óðinn benda Oddnýju kurteislega á að um það bil helmingur þeirra sem hafa látist vegna COVID-19 lá inni á Landakoti. Það liggur fyrir að mistök voru gerði á þessum ríkisrekna spítala og í ríkisreknu heilbrigðisráðuneytinu.

Spítalinn og ráðuneytið höfðu ekki fyrir því að svara einkaaðilum sem buðu fram húsnæði og þjónustu til þess einmitt að létta á byggingum eins og Landakoti. Það hefði ekki komið í veg fyrir smit á Landakoti, en það þá hefði verið hægt að fylgja sóttvarnareglum um svæðaskiptingu og nægilega loftræstingu. Og þá hefðu án nokkurs vafa færri látist.

Pistillinn birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.