*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Pétur Blöndal
8. desember 2016 17:02

Stærsti vandinn

„Evrópskur áliðnaður hefur þegar dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50% síðan 1990.“

Haraldur Guðjónsson

Engum blöðum er um það að fletta, að loftslagsmál eru stærsti umhverfisvandi sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir. Ríki Evrópu hafa tekið frumkvæði í því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að koma á samevrópsku kvótakerfi og undir það heyra iðnaður, flug og orkuver, sem bera ábyrgð á um helmingi allrar losunar í Evrópu. Þetta kerfi er nú þegar farið að virka og útlit fyrir að markmið náist um stórfelldan samdrátt í losun. Árið 2020 verður losun frá þessum greinum 21% minni en árið 2005 og árið 2030 er gert ráð fyrir að hún verði 43% minni.

Evrópskur áliðnaður hefur þegar dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um 50% síðan 1990. Enn betri árangur hefur náðst hér á landi, en þegar árið 2012 hafði verið dregið úr losun um 75% á hvert framleitt tonn frá 1990. Þegar horft er á heildarlosun við álframleiðslu munar hins vegar víðast hvar mest um orkuvinnsluna. Þannig getur heildarlosun frá álveri sem knúið er af kolaorkuveri numið allt að 17 tonnum á hvert framleitt tonn af áli. Á Íslandi er þetta hlutfall ekki nema 1,64 tonn eða tífalt minna!

Þetta skiptir máli þegar horft er á heildarmyndina. Áliðnaður hefur einkum byggst upp í Kína á síðustu árum og þar eru um 90% áls framleidd með raforku frá kolaorkuverum. Loftslagsmál eru hnattrænn vandi og til þess að ná árangri verður að koma upp kvótakerfi með losunarkvótum á hnattræna vísu. Annars skapast hætta á kolefnisleka, þ.e. að orkuiðnaður flytjist frá löndum sem íþyngja iðnaðinum með staðbundnum kolefnisgjöldum til landa sem axla enga ábyrgð og horfa ekkert til losunar við framleiðsluna.

Þá væri betur heima setið en af stað farið.

Höfundur er framkvæmdastjóri

Stikkorð: Ál umhverfismál
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.