*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Týr
14. mars 2014 13:10

„Stærstu svik íslenskrar stjórnmálasögu“

Týr veltir fyrir sér hver séu hin raunverulegu svik í ESB málinu.

Haraldur Guðjónsson

Stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu hafa undanfarið reynt að hræða þingmenn stjórnarflokkanna frá því að afturkalla inngöngubeiðni Íslands í Evrópusambandið. Til þess hafa þeir notað stóryrði, dylgjur og brigsl, allt í þeirri von að þingmenn láti undan.

* * *

Meðal stóryrðanna sem slegið var upp í þessu skyni voru þau orð Þorsteins Pálssonar, fyrrverandi ritstjóra Fréttablaðsins, að ef Sjálfstæðisflokkurinn afturkallaði inngöngubeiðni Jóhönnu-stjórnarinnar í ESB væru það ein stærstu svik íslenskrar stjórnmálasögu.

* * *

Reyndar var það svo, að landsfundur Sjálfstæðisflokksins ákvað fyrir síðustu kosningar að einmitt það væri stefna Sjálfstæðisflokksins en hafnaði því að gert yrði „hlé“ á viðræðunum. Þannig hafnaði landsfundur þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðnanna. Þótt einhverjir geti borið því við að þeir skilji ekki að loforð landsfundar skipta miklu meira máli en hvað frambjóðendur kunna að segja á fundum, þá getur Þorsteinn Pálsson ekki borið slíka vanþekkingu fyrir sig.

* * *

Þrátt fyrir þetta, þá eru ein allra stærstu svik íslenskrar stjórnmálasögu tengd þessari aðildarumsókn og það var ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem framdi þau. Kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 2009 voru mjög afgerandi loforð gefin kjósendum, og þau loforð voru í samræmi við opinbera stefnu viðkomandi flokks.

 

Við skulum lesa þessi orðaskipti yfir.

Sigmar Guðmundsson: „Kemur það til greina Steingrímur bara svo ég spyrji þig – bíddu Ástþór – kemur það til greina að hefja undirbúning að því að sækja um, strax núna eftir kosningar...“

 

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG: „Nei!“

 

Sigmar Guðmundsson: „... vegna þess að þannig hefur Samfylkingarfólkið talað.“

 

Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“

 

Sigmar Guðmundsson: „Að þetta byrji í sumar?“

 

Steingrímur J. Sigfússon: „Nei!“

 

Sigmar Guðmundsson: „Hvenær getur þetta byrjað?“

 

Steingrímur J. Sigfússon: „Það samrýmist ekki okkar stefnu og við hefðum ekkert umboð til slíks. Og þó við reyndum að leggja það til, forystufólkið í flokknum, að það yrði farið strax í aðildarviðræður, gagnstætt okkar stefnu, í maí, þá yrði það fellt í flokksráði vinstrigrænna. Þannig að slíkt er ekki í boði.“

Skýrara gat það ekki verið. Þetta var kvöldið fyrir alþingiskosningarnar 25. apríl 2009. Nokkrum dögum síðar mynduðu Samfylkingin og VG ríkisstjórn og ákváðu strax að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þingsályktunartillaga um það var lögð fram strax í maí. Stjórnarflokkanir höfnuðu tillögu um að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla. Í framhaldi af samþykkt þingsályktunartillögunnar var aðildarumsókn send til Brussel. Síðan hófust aðlögunarviðræðurnar.

* * *

Kvöldið fyrir kosningar fullyrti Steingrímur J. Sigfússon sem sagt ítrekað að ekki yrði sótt um aðild. Það yrði ekki gert í maí. Þetta myndi ekki „byrja í sumar“. Þetta var allt svikið strax.

* * *

Það fólk sem nú gerir hróp að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hafði það eitthvað við þetta að athuga? Helgi Hjörvar? Össur Skarphéðinsson? Sigríður Ingibjörg Ingadóttir? Svo einhver séu nefnd.

* * *

Og hvernig brást Þorsteinn Pálsson við, sá mikli prinsippmaður? Talaði hann mikið um svik? Hvað sagði hann af kögunarhóli sínum?  

***

Hann settist nú bara í „samninganefndina“ fyrir Össur.

* * *

Fréttamennirnir? Voru þeir mikið að endurspila loforðin frá vinstrigrænum, loforð sem voru í fullu samræmi við landsfundarsamþykktir sama flokks? Voru haldnir margir útifundir? Hvernig var með prinsippmenn eins og Illuga Jökulsson, Guðmund Andra Thorsson og alla þá félaga sem nú telja sig mjög svikna af Sjálfstæðisflokknum, skrifuðu þeir ekki hástemmdar blaðagreinar um framgöngu Vinstrigrænna? Aðildarumsóknin að Evrópusambandinu var sjálf fengin fram með svikum og undirmálum.

* * *

Það er ótrúlegt að fylgjast með því, þegar reynt er í örvæntingarfullum æsingi að hræða þingmenn Sjálfstæðisflokksins frá því að draga aðildarumsóknina til baka. Ekki síst í ljósi þess hverjir það eru sem saka aðra um svik í ESB-málum!

Stikkorð: Týr
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.