Menntadagur atvinnulífsins verður haldinn í Hörpu 25. apríl næstkomandi. Þar verður fjallað um íslenskt atvinnulíf og menntakerfi á tímum stafrænnar þróunar. Þar er af nógu að taka og brýnt að stilla saman strengi í mikilvægum verkefnum sem okkar bíða á þessu sviði eins og sjá má á því sem hér fer á eftir.

Stafræn þróun í atvinnulífi og menntakerfi felur í sér fjölda tækifæra ef rétt er á málum haldið. Tækifæri til að auka fjölbreytileika í námi og starfsháttum. Mörg störf þróast, auðgast og skapa tækifæri til aukins þroska og eflingar á hæfni og getu starfsmanna. Í skólum verður unnt að miðla efni og þjálfa færni með fjölbreyttari og áhrifaríkari leiðum en áður hafa þekkst. Aukin geta einstaklinga leiðir meðal annars til aukins hreyfileika á vinnumarkaði og á milli starfa, verkefna og skapar fjölbreytt tækifæri til þróunar.

Þó tækifærin séu mýmörg og eftirsóknarverð eru töfralausnirnar vandfundnar. Stafræn þróun er ekki leyst með kaupum á stafrænum lausnum eða öflugra netsambandi. Þvert á móti felst hún í að endurskoða alla verkferla sem unnið er með. Aðlaga þarf starfshætti í fyrirtækjum og kennslufræði í skólum. Það er varasamt að draga þá ályktun að stafræn þróun sé einhverskonar lag sem bætist við önnur kerfi í starfsemi fyrirtækja og skóla. Þvert á móti þarf hún að hríslast niður í allar einingar og anga og verður í raun forsenda í hönnun og nálgun starfseminnar.

Þannig skapast ótal áskoranir samhliða stafrænni þróun. Fjöldi starfsmanna þróast í starfi og tekst á við ný verkefni sem krefjast annars konar þekkingar eða færni en áður hafði verið aflað. Aukin sveigjanleiki um staðsetningu starfa veldur því að aukin samkeppni verður um starfsmenn og áskoranir geta verið miklar í tengslum við aukna fjarvinnu og fjarfundi. Hvernig tryggjum við nauðsynleg félagsleg tengsl og samskipti sem eru órjúfanlegur hluti af því að tilheyra vinnustað eða hópi nemenda?

Við miklar tækniframfarir og stafræna þróun bætist hækkandi lífaldur og lengri starfsævi einstaklinga. Að öllu þessu samanlögðu má ljóst vera að þörfin fyrir nýja nálgun í menntamálum er bráðnauðsynleg.

Í umræðu um menntamál má ekki gleyma því að hið formlega skólakerfi sem við þekkjum er aðeins hlutmengi í íslensku menntakerfi. Skólarnir eru sannarlega afar mikilvæg burðarstoð en það kemur fleira til.

Markhópur fullorðinsfræðslunnar hefur verið skilgreindur sem sá hópur einstaklinga sem ekki hefur lokið formlegri menntun eftir grunnskólanám. Blessunarlega hefur verið lögð mikil áhersla á menntun þessa hóps um árabil en því miður höfum við ekki komið okkur saman um leiðir til að meta formlega þá þekkingu eða færni sem aflað hefur verið. Aukin þörf fyrir endurmenntun og fræðslu eftir að formlegri skólagöngu lýkur krefst þess að markhópur fullorðinsfræðslunnar sé endurskilgreindur. Innleiða þarf nýjar leiðir og koma á formlegu kerfi varðandi viðurkenningu á menntun og færni. Aukið samspil skólakerfisins og framhaldsfræðslunnar þarf að verða þar sem tvístefna er í flæði á milli þessara kerfa. Það er mikilvægt að viðurkenna þekkingu og færni sama hvernig hennar hefur verið aflað og til þess þarf fjölbreytt verkfæri og leiðir. Allt yrði þetta í þágu aukinnar skilvirkni, hagræðingar og aukinna lífsgæða þeirra sem afla sér þekkingar við nám eða störf.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.