*

föstudagur, 14. maí 2021
Týr
2. maí 2021 14:02

Starfsmaður mánaðarins

Það bendir allt til þess að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri verði valinn starfsmaður mánaðarins í Seðlabankanum.

Aðsend mynd

Það bendir allt til þess að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri verði valinn starfsmaður mánaðarins í Seðlabankanum. Í viðtali við Stundina í síðustu viku tók hann til varna fyrir þá starfsmenn Seðlabankans sem gengu hvað harðast fram í gjaldeyriseftirliti bankans eftir hrun. Már Guðmundsson, Arnór Sighvatsson, Ingibjörg Guðbjartsdóttir, Sigríður Logadóttir og Rannveig Júníusdóttir – sem nýlega fékk stöðuhækkun innan bankans – hljóta öll að vera himinlifandi. Stjórnmálamenn af vinstri kantinum og ritstjórar vefmiðla þeim hliðhollir ráða sér vart af gleði yfir ummælum Ásgeirs.

 

***

 

Allir þeir sem lesið hafa bókina Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits? eftir Björn Jón Bragason vita hvernig starfsmenn bankans fóru með vald sitt, réðust í húsleitir og ollu fólki og fyrirtækjum ómetanlegum skaða. Það sem fram kemur í bókinni hefur ekki verið hrakið. Týr veit ekki hversu mörg málin eru sem ekki var fjallað um þar eða hversu margir létu undan valdníðslunni án þess að hafa burði til verja sig eða sækja rétt sinn síðar. Eftir að bókin kom út hefur komið í ljós að Ingibjörg var í samkrulli við fréttamann RÚV um húsleit hjá útgerðarfélaginu Samherja áður en húsleitin sjálf fór fram. Týr veit ekki hvort önnur dæmi séu um slík vinnubrögð og sjálfsagt munum við aldrei komast að því.

 

***

 

Það er fyrir löngu komið í ljós að ekki stóð steinn yfir steini í málatilbúnaði Seðlabankans gegn Samherja. Ásgeir hefur eflaust gert sér grein fyrir því að Samherji á ekki marga vini í þjóðfélagsumræðunni og því látið ummælin falla. Hann hefur þó ekki svarað því af hverju Már, Arnór, Ingibjörg, Sigríður og Rannveig ættu að fá að beita sér með þessum hætti án þess að þurfa að bera á því nokkra ábyrgð.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.