Á Íslandi árið 2012 er starfrækt ríkisstofnun sem heitir Fjölmiðlanefnd. Það er í tísku núna að láta ríkisstofnanir heita eitthvað allt annað en „stofnun" - sem er væntanlega gert í þeim tilgangi að láta fólk upplifa eitthvað allt annað en að hér sé að spretta upp hver ríkisstofnunin á fætur annarri til að fylgjast með og hafa vit fyrir borgurunum.

En hvað um það. Í vikunni úrskurðaði ríkisstofnunin um afar mikilvægt mál, reyndar tvö samskonar mál. Ríkisstofnunin úrskurðaði að 365 Miðlar hefðu brotið gegn lögum um fjölmiðla með því að sýna tvær unglingamyndir of snemma að kvöldi til, annars vegar á Stöð 2 og hins vegar á Stöð 2 Bíó.

© Getty Images (Getty)
Látum nú vera hversu lélegar kvikmyndir þetta voru, það er áskrifenda að hafa skoðun á því. En það er í alvöru til ríkisstofnun sem samkvæmt nýjum lögum hefur vald til að setja ofan í við sýningartíma einkaaðila á ákveðnum kvikmyndum. Stjórnendur í Skaftahlíðinni geta þó prísað sig sæla með þá ákvörðun ríkisstofnunarinnar að falla frá því að leggja stjórnvaldssekt á fyrirtækið. Það væri varla á það bætandi fyrir eigendur samstæðunnar og þeirra nánustu, sem nú dvelja löngum stundum í dómsölum.

Til gamans, þó það sé í raun ekkert mjög gaman að vita af þessu, þá fylgdi þriggja blaðsíðna greinargerð með hvorri ákvörðun. Nú þykir orðið mildi að sleppa með sektir frá ríkinu án þess þó að hafa skaðað nokkurn mann.

Það að starfrækja stofnanir á borð við Fjölmiðlastofu, Neytendastofu og fleiri óþarfa ríkisstofnanir felur í sér alvarlega hugsunarvillu. Fjölmiðlastofa fær um 40 milljónir króna samkvæmt fjárlögum næsta árs. Nú eru 40 milljónir króna ekki mikill peningur í sjálfu sér, svona í ljósi þess að uppsafnaður halli ríkissjóðs í tíð núverandi ríkisstjórnar er um 600 þúsund milljónir króna. En safnast þegar saman kemur. Ríkisstofnun hér og ríkisstofnun þar gerir heilmikil ríkisútgjöld sem tekin eru úr vösum vinnandi manna til að hafa ríkisstarfsmenn í vinnu án þess þó að skapa nokkur verðmæti í landinu. Allir fjármálaráðherrar síðustu ára hafa sagt að búið væri að skera við nögl, aðspurðir um það hvort ekki mætti skera frekar niður í ríkisrekstri. Einmitt það já.

Það finnst mörgum eflaust fyndið að einhver ríkisstofnun hafi skammað 365 fyrir að sýna vondar bíómyndir of snemma að kvöldi til, skv. einhverjum ríkisstöðlum. Væntanlega hrista margir hausinn yfir þessu bulli. En það eru líka margir sem hrista hausinn þegar lagt er til að svona stofnanir séu lagðar niður. Þegar búið er að koma á fót ríkisstofnun reynist nær ómögulegt að loka henni aftur. Menn tína til alls konar bullrök fyrir því að þessar stofnanir verði að starfa áfram, annars fari almenningur örugglega að haga sér eins og villtir bavíanar með tilheyrandi heimsendaspám.

Á meðan ríkisstarfsmenn halda áfram að vaka yfir okkur þurfum við hin að vera áfram dugleg í vinnunni. Þessar stofnanir borga sig ekki sjálfar.