Í kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar lofaði Samfylkingin hækkun barnabóta. Þetta var alveg sérstaklega vel heppnað kosningaloforð. Loforðið var skýrt og foreldrar áttu auðvelt með að reikna út bæturnar. Ekki nóg með að þetta var vel heppnað loforð, þá voru stjórnarflokkarnir sofandi og þeir brugðust ekki við þessu útspili Samfylkingarinnar. Því ekki var endilega allt sem sýndist.

Samfylkingin fór á flug, á þeirra mælikvarða, í skoðanakönnunum - ekki síst vegna loforða um barnabætur. En svo hrapaði flokkurinn. Það gerðist í kjölfar þess að verðandi fyrrverandi formaður flokksins, Logi Einarsson, neyddist til að koma úr felum og mæta í kappræður vikuna fyrir kjördag og Kristrún Frostadóttir neitaði að svara fjölmiðlun um happdrættisvinning sinn í Kviku banka - þrátt fyrir að verðandi fyrrverandi formaðurinn sagði ítrekað að hún myndi að sjálfsögðu svara blaða- og fréttamönnunum.

* * *

Frétt byggð á sandi

Ríkisútvarpið sló því upp á mánudag að barnafjölskyldur á Íslandi hljóti minni fjárhagslegan stuðning en í flestum vestrænum hagsældarríkjum og vitnaði í Stefán Ólafsson, sérfræðing í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum hjá stéttarfélaginu Eflingu.

Stefán segir að barnabætur séu ekki styrkur.

„Barnabætur eru ekki styrkur til barnafólks heldur tilfærsla milli tímabila á lífshlaupinu. Fólk fær barnabætur á fyrri hluta starfsferils þegar þörfin er mest en þegar börnin eru farin að heiman þá greiðir fólk hærri skatta til að fjármagna barnabætur til næstu kynslóðar á eftir," segir Stefán.

En hvað með þá sem geta ekki átt börn eða þá sem vilja ekki eignast börn? Auðvitað er þetta ekkert annað en styrkur. Það kann að vera að samfélagið vilji styðja við barnafjölskyldur í gegnum skattkerfið, það sé hluti af samfélagssáttmálanum - sem Óðinn hefur reyndar aldrei séð, en þetta er auðvitað ekkert annað en styrkur.

Reyndar hefur Óðinn aldrei skilið hvers vegna þessi styrkur nefnist bætur. Hvað er verið að bæta? Hver er skaðinn?

Ætli það sé ekki fátt, ef nokkuð, dásamlegra í veröldinni en að eignast barn?

En Stefán hélt áfram í ekki frétt Ríkisútvarpsins.

„Ísland býr því við mun lakara barnabótakerfi en frændþjóðirnar á hinum Norðurlöndunum og framfærslubyrði barnafólks er því að öðru jöfnu meiri á Íslandi."

Barnabótakerfið er ekki bara lakara en á hinum Norðurlöndunum, heldur er framfærslubyrði barnafólks að öðru jöfnu - hvað sem átt er við með því - meiri en á hinum Norðurlöndunum að sögn Stefáns.

* * *

Hinn ágæti Stefán vitnar þessu til stuðnings í tölur frá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). En við skulum skoða tölur frá OECD.

Stofnunin reiknar stuðning við barnafjölskyldur á tvo vegu. Í formi barnabóta eða í formi niðurgreiðslu á þjónustu. Það má alveg deila um hvor leiðin er skynsamlegri, hvort ekki sé skynsamlegt að láta fjölskyldunum sjálfum að ákveða hvernig þær ráðstafa fjármununum í stað þess að hið opinbera geri það. En það er ekki umfjöllunarefnið í dag.

* * *

Ísland í 3.-4. sæti í OECD

Þegar litið er til alls þess fjárstuðnings sem barnafjölskyldur í löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar fá, hvort sem það er í formi barnabóta, niðurgreiðslu á leikskólagjöldum og menntun, gjaldfrírri læknisþjónustu eða hvaða annarri þjónustu við börn, sést að Ísland er mjög framarlega meðal OECD-þjóðanna.

Ísland ver um 3,3% af vergri landsframleiðslu í stuðningi við fjölskyldur og er í 3.-4. sæti ásamt Lúxemborg. Aðeins Svíþjóð og Danmörk verja stærri hluta landsframleiðslunnar eða 3,4%. Munurinn er aðeins 0,1%. Þessar tölur eru frá árinu 2017 en stofnunin hefur ekki birt nýrri tölur.

Fullyrðing Stefáns Ólafssonar um að framfærslubyrði barnafólks sé að öðru jöfnu meiri á Íslandi er því einfaldlega röng. Raunar kolröng. Ísland er jafnoki Norðurlandanna, utan Finnlands sem ver 2,9% af landsframleiðslunni og er því eftirbátur frændþjóða sinna.

* * *

Ísland talað niður

Reglulega, nánast vikulega, flytur Ríkisútvarpið fréttir sem segja okkur að allt sé betra annars staðar en á Íslandi. En þegar betur er að gáð er svo ekki - heldur þvert á móti erum við annaðhvort best eða í fremstu röð.

Og alltaf eru það sömu mennirnir sem ríkisfjölmiðilinn hampar. Stefán Ólafsson var prófessor í Háskóla Íslands frá 1970 til 2020. Í áratugi hefur Stefán reynt að telja okkur trú um, með hjálp Ríkisútvarpsins, að lífið á Íslandi sé verra en annars staðar. Eitt af tækjunum sem hann beitir er öfundin en þó helst eru það rangfærslur, rangtúlkanir og röng meðferð gagna. Eins og í þessu tilviki sem Óðinn nefnir hérna á undan.

Það er svo sem gamalt og nýtt að vinstrimenn sjái heiminn á heljarþröm og þeir mega það Óðins vegna. En geta þeir aldrei gert það á annars kostnað en skattgreiðenda?

En Stefán er ekki hættur að reyna, með hjálp Ríkisútvarpsins, að telja okkur trú um að allt sé verra á Íslandi. Núna fær fólk sem er „neytt" til að greiða í verkalýðsfélagið Eflingu heiðurinn af því að greiða þessum „fræðimanni" laun.

* * *

Þögn Ríkisútvarpsins

Það er mjög gagnlegt fyrir þjóðfélagsumræðuna að fjölmiðlar fái sjónarmið um hin ýmsu mál og úr mörgum áttum. En þannig er það ekki á Ríkisútvarpinu. Það hefur þegar komið fram opinberlega gagnrýni á þennan málflutning Stefáns Ólafssonar og Ríkisútvarpsins.

En það bólar ekkert á frétt þar sem leitað er annarra sjónarmiða. Til dæmis sjónarmiða þeirra sem fara rétt með staðreyndir um stuðning við barnafjölskyldur á Íslandi. Ef marka má vef Ríkisútvarpsins var Ólöf Rún Erlendsdóttir fréttamaður í vinnu bæði á þriðjudag og eins í gær, miðvikudag.

Óðinn veit að Stefán Ólafsson vill að rangfærslur sínar standi og það er ekki hægt að skilja þögn Ríkisútvarpsins á annan veg en að stofnunin vilji það líka.

Hvar segja menn annars upp áskriftinni að Ríkisútvarpinu?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .