*

þriðjudagur, 31. mars 2020
Leiðari
1. júní 2017 15:40

Stefnuleysi borgarinnar

Það vinnur allt með hinni íslensku þjóð nema litlum hluta á suðvesturhorni landsins – borgarfulltrúum meirihlutans í Reykjavík.

Haraldur Guðjónsson

Staðan í borgarmálunum er einstök. Við erum með meirihluta,sem hefur gjörsamlega tekist að mála sig út í horn með því að gera lítið sem ekkert. Það sem þó hefur verið gert hefur verið gert seint og illa. Allir vita hvernig uppbyggingu íbúða í borginni hefur verið háttað og í dag finna margir á sínu eigin skinni hvernig skipulag gatnaframkvæmda hefur verið.

Staðan er einstök þegar við skoðum hana í samhengi við það að allir helstu hagvísar þjóðarbúsins vísa upp. Það vinnur allt með hinni íslensku þjóð nema litlum hluta á suðvesturhorni landsins – borgarfulltrúum meirihlutans í Reykjavík.

Í borgarstjórastólnum situr Dagur B. Eggertsson með stuðningi Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata. Dagur er James Hacker okkar tíma. Stjórnmálamaður, sem virðist sveiflast eftir duttlungum embættismanna.

Hvernig má það til dæmis vera að farið sé í gatnaframkvæmdir á helstu stofnbraut borgarinnar án þess að athuga hvort mögulegt sé að vinna á kvöldin og um helgar og þannig lágmarka ónæðið sem borgarbúar verða fyrir vegna þessara framkvæmda? Eins og sagt var í fréttum fyrir ekki svo löngu þá var þetta ekki athugað. Þá kom í ljós að ástæðan fyrir því að ekki var unnið um helgar og á kvöldin var sú að tippurinn, þar sem tekið er við jarðvegsúrgangi, er ekki opinn á þessum tímum. Það hefði verið hægt að bæta úr þessu með einu símtali.

Síðan eru það íbúðamálin. Viðskiptablaðið hefur ítrekað bent á það hversu illa borgin hefur staðið sig í þeim málum. Afleiðingin af stefnuleysi borgarinnar hefur verið skelfileg fyrir borgarbúa og þá sérstaklega unga fólkið, sem þarf að koma sér þaki yfir höfuðið en hefur ekki efni á því. Það hefur ekki efni á því af því að borgin hefur dregið lappirnar í uppbyggingu svo um munar. Fasteignaverð hefur rokið upp og unga fólkið leitar í nágrannasveitarfélögin eftir íbúðum eða jafnvel út á land.

Oft geta stjórnmálamenn lært af atvinnulífinu og þeim stjórnendum fyrirtækja sem eru með puttann á púlsinum. Séðir viðskiptamenn þurftu ekki að liggja lengi yfir tölum til að sjá að einhverjir stærstu árgangar Íslandssögunnar væru fæddir á árunum 1992 til 1994. Þetta unga fólk þarf að búa einhvers staðar, kaupa sér húsbúnað, mat og þannig mætti lengi telja. Fjölmörg fyrirtæki tóku þessa staðreynd inn í sínar viðskiptaáætlanir en ekki borgaryfirvöld. Aukinn kaupmáttur hefur vissulega haft sitt að segja þegar kemur að húsnæðismarkaðnum. Fjölmörg fyrirtæki tóku efnahagsspár inn í sínar áætlanir en líklega hefur borgin ekki heldur gert það.

Ferðaþjónustan hefur einnig haft mikil áhrif á fasteignamarkaðinn og þá sérstaklega leigumarkaðinn. Á árunum 2010 til 2014 fjölgaði erlendum ferðamönnum hlutfallslega um 20 til 24% á milli ára. Strax á þessum árum hefðu viðvörunarljós átt að blikka. Í úttekt Viðskiptablaðsins í febrúar 2014 var greint frá því að hóteleigendur hygðust byggja fyrir næstum 50 milljarða króna á næstu fjórum árum og auka framboð á hótelherbergjum um 50% á sama tíma. Hóteleigendur voru búnir að sjá í hvað stefndi enda kom í ljós að ferðamönnum fjölgaði um 30% á milli áranna 2014 og 2015 og 40% á milli 2015 og 2016. Borgaryfirvöld, sem þó þurftu að gefa leyfi fyrir þessum framkvæmdum, ákváðu samt að sitja hjá og bíða með að skipuleggja íbúðabyggðir.

Leiðari Viðskiptablaðsins birtist 1. júní 2017. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.