*

þriðjudagur, 21. september 2021
Óðinn
9. júní 2021 07:04

Steingrímur tekur af sér grímuna

Óðinn skrifar um Lindarhvol ehf. og skýrsludrög setts ríkisendurskoðanda sem enginn fær að sjá.

Haraldur Guðjónsson

Nú eru aðeins nokkrir mánuðir þar til Steingrímur J. Sigfússon lætur af þingmennsku eftir 38 ára setu á Alþingi. Það verður lítil eftirsjá að Steingrími og segja má að fáir þingmenn hafi gert eins mikið ógagn og er þó keppnin sæmilega hörð.

* * *

Vitanlega er stærsta og versta illvirki sem Steingrímur reyndi að þröngva upp á þjóðina Icesavesamningarnir þrír. Sá þriðji og skásti, kenndur við Lee Buchheit, hefði kostað ríkissjóð jafnvirði 65 milljarða króna í erlendri mynt. En sá óskapnaður, eða hinir tveir, eru ekki erindi Óðins í dag.

* * *

Viðskiptablaðið hefur í meira en ár reynt að fá afhenta greinargerð setts ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols ehf. Lindarhvoll var stofnaður í apríl 2016 og var tilgangur félagsins að annast umsýslu, fullnustu og sölu á eignum sem ríkissjóður fékk afhentar frá slitabúum föllnu bankanna. Samtals námu þessar eignir um 160 milljörðum króna samkvæmt ársreikningi félagsins vegna ársins 2016.

* * *

Óðinn hefur aldrei skilið leyndina sem hefur umlukið Lindahvol. Reyndar segir á heimasíðu félagsins að „við umsýslu, fullnustu og sölu eignanna mun félagið leggja áherslu á gagnsæi, hlutlægni, jafnræði og hagkvæmni."

* * *

Hinn setti ríkisendurskoðandi var Sigurður Þórðarson sem gegndi embætti ríkisendurskoðanda í 16 ár. Því var ekki fenginn neinn nýgræðingur til starfans - að kanna starfsemi Lindarhvols.

* * *

Ríkisendurskoðun er ein af undirstofnunum Alþingis og hefur það hlutverk að að hafa eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins, að fjármunum sé ráðstafað á hagkvæman og réttmætan hátt og í samræmi við ákvarðanir Alþingis. Upplýsingalögin gilda ekki nema að takmörkuðu leyti um starfsemi embættisins. Slíkt kynni að vekja upp spurningar um hvernig eftirliti með eftirlitinu er háttað en látum það liggja milli hluta.

Pottur brotinn í forsætisnefnd

Af þeim sökum afréð Viðskiptablaðið að leita til skrifstofu þingsins eftir greinargerðinni, sem hafnaði beiðninni og var það kært til forsætisnefndar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem er stjórnvald, fær nefnilega ekki að endurskoða ákvarðanir löggjafans. Þess í stað eru það þingmenn sjálfir - sömu þingmönnum er á tyllidögum tíðrætt um gagnsæi hins opinbera og mikilvægi fjölmiðla - sem fá að ákveða hvað má koma fyrir augu almennings og hvað ekki.

* * *

Forsætisnefnd féllst ekki á að veita blaðinu aðgang að greinargerðinni en samþykkti síðar að taka málið upp að nýju þar sem allar málsmeðferðarreglur hefðu verið krossbrotnar. Það er auðvitað vel þegar ríkisstofnanir viðurkenna mistök en Óðinn er ekki trúaður á að niðurstaðan verði önnur því allt kapp virðist vera á það lagt að leyna þessari skýrslu um félagið sem ætlaði að leggja svo mikla áherslu á gagnsæi.

* * *

Ein raka úrskurðar forsætisnefndar eru athugasemdir frá ríkisendurskoðanda, ekki þessum fyrrverandi og setta, heldur núverandi. Í þeirri umsögn segir að „því miður staðreyndavillur auk upplýsinga um trúnaðarmál" og ef aðgangur yrði veittur að henni, ýmist í heild eða að hluta, myndu „standa eftir ýmsar missagnir sem gætu, ef birtar yrðu opinberlega, valdið íslenska ríkinu bótaskyldu og skaðað hagsmuni þess með öðrum hætti".

* * *

Nú ætlar Óðinn ekki að segja til um hvor ríkisendurskoðendanna tveggja, þess setta og fyrrverandi eða núverandi, hafi rétt fyrir sér.

* * *

Svo er hitt. Ástæða þess að ríkisendurskoðandi sjálfur fjallaði ekki um þetta mál er að þriðji ríkisendurskoðandinn, Sveinn Arason - sá sem var á árunum 2008-2018, var bróðir eins af stjórnarmönnum í Lindarhvoli.

* * *

Þá veltir Óðinn þeirri spurningu fyrir sér hvort starfsmenn Ríkisendurskoðunar séu hæfir til að veita forsætisnefnd athugasemdir í ljósi þess að þetta voru allt, eða hvað, undirmenn vanhæfa ríkisendurskoðandans. Í það minnsta færi betur á því að setti ríkisendurskoðandinn færi með málið allt til loka og leitað væri til hans um athugasemdir. Þetta er auðvitað lagatæknilegt aukaatriði.

Leyndarhvoll ehf.

Aðalatriðið er leyndin yfir greinargerðinni. Helsta áhyggjuefnið í slitastjórn eins og Lindarhvoll var, er hvort ríkissjóður hafi fengið hæsta verð fyrir eignirnar. Verulegar líkur eru á því að bókfært verð þeirra hafi ekki endurspeglað rétt verð og verið lægra. Jafnvel mun lægra enda eignaverð almennt hækkað á síðustu árum. Um þetta verður auðvitað ekkert fullyrt enda engin gögn fyrir Óðin né aðra að byggja á.

* * *

En neitun forsætisnefndar gefur grunsemdum um að eitthvað hafi verið óeðlilegt í starfsemi Lindarhvols byr undir báða vængi.

* * *

Ef einhverjar rangfærslur eru í greinargerðinni er ekkert því til fyrirstöðu að núverandi ríkisendurskoðandi leggi fram athugasemdir sínar og menn ræði þær einfaldlega. Ef það ætti að vera regla hjá hinu opinbera að aðeins villulausar skýrslur og greinargerðir séu birtar væru líklega engin slík gögn nokkurn tímann birt.

* * *

Hitt sem hefur vakið upp spurningar eru greiðslur til Steinars Þórs Guðgeirssonar og lögmannsstofu hans og konu hans, Íslaga. Lindarhvoll greiddi lögmannsstofunni 80 milljónir króna fyrir umsjón með rekstri félagsins fyrir utan virðisaukaskatt. Íslög fengu greiddar fjórar milljónir króna á mánuði, án virðisaukaskatts, að jafnaði á meðan félagið var í rekstri.

Íslög og ríkisspeninn

Ef til vill var þetta allt saman eðlilegt byggt á tímaskýrslum lögmannsstofunnar sem hefur fjölda starfsmanna í vinnu. En ef þetta voru árangurstengdar greiðslur þá er lágmark að almenningur fái upplýsingar um hver árangurinn var og fjárhæðir árangurstengdu greiðslnanna.

* * *

Í svari fjármálaráðuneytisins fyrir hönd Lindarhvols við fyrirspurn Viðskiptablaðsins haustið 2019 sagði að Steinar Þór hefði verið vel til þess fallinn að vinna fyrir Lindarhvol. Hann hefði séð um gerð stöðugleikasamninganna við öll þau átta slitabú sem inntu stöðugleikagreiðslur af hendi til ríkisins og þess að hafa haft umsjón með móttöku og daglegum rekstri eignanna frá afhendingu þeirra til ríkisins. Orðrétt sagði:

„Hann þekkti því vel forsögu málsins og einstakar eignir. Þá hafði Steinar Þór verið tilnefndur sem áheyrnaraðili („observer") í stöðugleikasamningi við Kaupþing ehf. Stjórn Lindarhvols taldi einnig mikilvægt að gætt væri að samfellu við meðferð og rekstur þessara eigna, enda var ætlaður skammur tími til að leysa úr verkefninu."

* * *

Verður að segjast að þessi rök fjármálaráðuneytisins séu arfaslök, svo ekki sé meira sagt. Þó svo að Steinar hafi þekkt einstakar eignir kemur ekkert fram um reynslu og þekkingu hans á að verðmeta og selja eignir. Á starfsferilsskrá og námskrá Steinars á heimasíðu lögmannsstofunnar er ekkert sem gefur þá kunnáttu til kynna. En þrátt fyrir slök svör ráðuneytisins og námsog starfsferilsskrá Steinars vill Óðinn alls ekki fullyrða neitt um hversu heppilegur og óheppilegur hann var til starfans.

* * *

Einmitt þess vegna verður þessi greinargerð að koma fram. Það er lágmarksréttur almennings að vita hvernig ríkissjóður fór með þær eignir sem afhentar voru ríkinu vegna stöðugleikaframlaganna.

* * *

Leyndarhyggja Steingríms Sigfússonar og forsætisnefndar er að sama skapi óskiljanleg. Steingrímur hefur allt kjörtímabilið setið á friðarstóli sem forseti Alþingis og er það heiðarleg tilraun hans til fá almenning til að gleyma því hversu ömurlegur stjórnmálamaður hann er og var. Það er því viðeigandi ef hans síðasta verk í stjórnmálum verður að leyna því hvernig farið var með ríkiseigur.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.