Fyrir nokkru kom ég í fyrsta sinn í Haukadalsá í Dalasýslu.  Ekki laust við að ég væri spenntur, eins og oft er þegar nýjar veiðislóðir eru kannaðar, enda um að ræða á sem menn hafa ýmist lofað í hástert eða talað um sem lítilfjörlega í samanburði við systurána Laxá í Dölum.

Vel búinn með útprentaða veiðistaðalýsingu sem ég fann á netinu mætti ég einum og hálfum tíma of seint í veiðihúsið. Þá var veiðifélagi minn búinn að setja í nokkra laxa í heimahylnum og fullyrti að hann hefði aldrei lent í annarri eins töku.

Vinur minn Sigurður Pálsson, sem ég tek mikið mark á, var búinn að segja mér að Haukadalsá væri góð fluguveiðiá og að nokkrir veiðistaðir hennar væru með þeim fegurstu  sem fyrirfyndust á jarðríki.  Vægt til orðatekið steinlá ég fyrir þessari nettu átta kílómetra löngu á. Straumfarið og fallið hentar afar vel flotlínum og smáum flugum og nokkrir veiðistaðir hennar eru þannig að þar mætti hæglega  dunda sér daglangt án þess að láta sér leiðast.

Við félagarnir lentum í hörkuveiði, vorum hreinlega alltaf í fiski og hefur trúlega allt hjálpast að, toppveður, yfirskýjað og milt megnið af tímanum, og að auki nýr fiskur að hellast inn á hverju flóði. Ég veiddi allan tímann á smæstu míkró gárur og einkrækjur með gáruhnút og félagi minn með smáum flugum.  Alls staðar rákum við í fisk og sumir staðirnir hreinlega ólguðu af lífi þar sem nýir smálaxar ruddust inn í hylina og röskuðu ró laxa sem höfðu gengið fyrr um sumarið.  Auðvelt aðgengi er með ánni og fyrir þá sem eru hressir til gangs er stórkostlegt að ganga með Haukadalsá og skoða hvern streng og hyl.

Ég er svoddan nörd að ég myndi setja upp skilti við veiðihúsið þar sem stæði, bannað að nota Frigga og Snældu en það er nú bara ég.  Eitt blasir þó við. Haukadalsá er eins og teiknuð fyrir nettar græjur, litlar flugur og gárubragð og stenst allan samanburð við systurána nema ef skyldi vera lengd hennar.