Ertu feministi? Var spurning sem var reglulega borin upp fyrir ungar stelpur sem tóku þátt í fegurðarsamkeppnum í minni heimabyggð fyrir rúmum 5 árum síðan. Svarið var í langflestum tilfellum; Nei.

Gott og blessað, við viljum auðvitað öll búa í hinum fullkomna heimi þar sem konur og karlar eru jöfn, stelpur þora að taka af skarið og sýna stélfjaðrir sínar líkt og strákarnir oft gera. Það er þó ekki svo gott. Af 100 launahæstu forstjórum landsins eru aðeins 10 konur.

Af 500 stærstu fyrirtækjum Bandaríkjanna eru 15 konur forstjórar eða 3%. Þetta eru ekki margar konur en vissulega er þetta þó árangur. Nýverið tók ung kona, Marissa Mayer, við forstjórastóli Yahoo og um leið tilkynnti hún að hún ætti von á barni. Þetta voru gleðifréttir. Stór verkefni bíða Mayer, bjarga Yahoo og ala upp barn en er það virkilega hægt?

Reiðir bloggarar sögðu slæmt að fyrirmyndirnar væru "ofurkonur", eins og Mayer sem tekur lítið sem ekkert fæðingarorlof. Sjaldan kom þó fram hvort faðir barnsins hafði hugsað sér að sjá um barnið enda kannski ekki eitthvað sem varðar okkur. Umönnun barna verður þó aldrei talið sem neitt minna en fullt starf og margar konur gæddar þeim hæfileikum til að vera heimavinnandi húsmæður. Það þarf þolinmæði, skipulag og útsjónarsemi líkt og hjá öðru vinnandi fólki.

Hinsvegar eru ekki allir eins. Spurningin er því hvenær munum við upplifum jafnrétti þegar við vitum ekki hvernig við viljum ná því. Við erum stundum allt of fljót til að dæma. Við erum fljót að skammast en samt viljum við jafnrétti og meira en 10%.