*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Leiðari
2. maí 2015 12:10

Stétt gegn stétt

Kröfugerð allra stéttarfélaga virðist snúast um að fá meiri launahækkanir en aðrir launamenn.

Haraldur Guðjónsson

Í gamla daga var stéttin afar mikilvægur þáttur í ákveðinni stjórnmálaheimspeki og mátti skýra nær alla samfélagslega hluti sem einhvers konar afsprengi stéttaátaka. Hér er því ekki haldið fram að stéttaskipting hafi ekki verið raunveruleg áður fyrr, þótt hennar gæti í mun minna mæli hér en annars staðar.Í grunninn snerist þessi heimssýn um að skipta samfélaginu upp eins og lagköku, þeir efnuðustu og valdamestu voru efst og svo minnkaði auðurinn og völdin eftir því sem neðar kom í kökuna. Átökin voru á milli verkalýðs og auðvalds, leiguliða og landeigenda, launafólks og launagreiðenda.

Sem betur fer hefur fremur dalað undan þessari samfélagssýn en hitt undanfarin ár, þótt reglulega stígi þeir fram sem vilja æsa upp almenning með gamalkunnum slagorðum. Þetta höfum við séð undanfarið í aðdraganda kjarasamninga og verkfalla þegar verkalýðsleiðtogar vilja miklu fremur tala um launakjör stjórnenda og stjórnarmanna en um þær kröfur sem þeir hafa lagt fram í viðræðunum.

Þegar í kröfugerðina er rýnt og lesið er á milli línanna í því sem leiðtogarnir hafa þó látið frá sér verður vart hjá annarri niðurstöðu komist en að stéttabaráttan sé hafin á ný en með öðrum formerkjum. Þvert á digurbarkalegar yfirlýsingar um vanhugsaðar launahækkanir í stjórnum skráðra fyrirtækja virðist kröfugerð allra stéttarfélaga snúast um að fá meiri launahækkanir en aðrir launamenn. BHM vill að „menntun sé metin til fjár“, sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en svo að þar á bæ vilja menn fá meiri hækkanir en þeir sem ekki hafa háskólamenntun. Mikið hefur verið rætt um lægstu launin, en þegar kröfugerðirnar eru skoðaðar er þar gert ráð fyrir jafnvel meiri prósentuhækkun hæstu launa en þeirra lægstu.

Læknar töldu sig eiga rétt á launaleiðréttingu og fengu í kjölfarið myndarlega launahækkun. Aðrar stéttir vilja ekki viðurkenna leiðréttingarþörfina, heldur vilja fá sambærilega, eða jafnvel enn meiri hækkun launa. Hið sorglega er að leiðtogar verkalýðsfélaganna eru vel meðvitaðir um óhjákvæmilegar afleiðingar þess ef laun hækka um of.

Verðbólga, vaxtahækkanir og gengisveiking krónunnar munu fylgja í kjölfarið ef laun hækka mikið umfram það sem grunnkennitölur hagkerfisins heimila. Þetta vita þeir, en vilja samt sem áður fara í hart vegna yfirdrifinna krafna um nafnlaunahækkun. Ætla má að í grunninn vilji verkalýðsleiðtogarnir, fyrir utan e.t.v. þá hörðustu á jaðrinum, taka upp það sem kallað hefur verið skandínavíska leiðin. Litlar, en stöðugar hækkanir launa í takt við hagvöxt og verðbólgu sem skila munu meiri uppsöfnuðum kaupmætti en gríðarlegar nafnlaunahækkanir. En þessi stéttametingur situr svo í þeim að þeir telja sig ekki geta farið með slíka samninga til sinna félagsmanna. Meira máli skipti hvað náunginn sé að fá í laun en það sem þeir sjálfir og þeirra félagsmenn fá. Mikilvægara virðist í þeirra huga að ná öðrum í einhverju ímynduðu kapphlaupi en að ná fram raunverulegum kjarabótum fyrir sitt fólk.

Þetta mætti kalla öfund, en óumdeilt má telja að þetta er óábyrgt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.