Sem kunnugt er þá áttu sér „mistök við áætlunargerð og skráningu" við stjórn Sorpu í fyrra. Mistökin fólu í sér vanmat á fjárfestingaáætlun félagsins. Þetta var vanmat upp á 1,4 milljarða króna sem er hærri upphæð en heildarskuldir félagsins námu við upphaf ársins 2019. Í raun og veru er fráleitt að tala um vanmat í þessu samhengi. Greinilegt er að ekkert upplýst mat var lagt á kostnað vegna fjárfestinga félagsins.

Í kjölfarið var framkvæmdastjórinn sendur í ótímabundið leyfi. Það sem vekur hins vegar furðu er að stjórn félagsins situr áfram og sýnir ekki á sér neitt fararsnið. Umræða um ábyrgð stjórnarinnar á því sem verður að teljast vera rekstrarmistök af nánast Biblíulegri stærðargráðu fer ekki hátt. Þetta vekur furðu. Ekki síst sökum þess að nákvæmlega er kveðið á um að stjórn félagsins eigi að hafa eftirlit með starfsemi félagsins og gæta sérstaklega að eftirliti með bókhaldi og fjárreiðum og þar með talið fjárfestingaáætlun.

Þess í stað hefur umræðan snúist um hvort samlagsformi á rekstri félagsins, sem er í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, kunni að vera um að kenna. Þetta er augljóst yfirklór sem útsvarsgreiðendur í þessum sveitarfélögum eiga ekki að sætta sig við. Augljóst er að þeir sem sitja í stjórn Sorpu hafa gjörsamlega brugðist skyldum sínum við eftirlit með rekstri fyrirtækisins.

Þörf er á umræðu um hvernig skipað er í stjórnir sambærilegra fyrirtækja sem eru í opinberri eigu. Áratuga reynsla af því að fara reglulega út með heimilissorpið og dósir í endurvinnslu gerir menn ekki hæfa til þess að sitja í stjórn sorp- og endurvinnslufyrirtækis. Ekki frekar en áratuga löng reynsla af viðskiptum við hraðbanka ásamt reglulegum heimsóknum í bankaútibú geri menn hæfa til að sitja í stjórn fjármálafyrirtækis.

Höfundur er sjálfstætt starfandi.