*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Týr
6. desember 2017 09:23

Stjórn og stjórnarandstaða

Það er ekki gott fyrir lýðræðið að stjórnarandstaðan er veikburða, margklofin og ekki yfirhlaðin af reynsluboltum.

Haraldur Guðjónsson

Þegar þessar línur eru lesnar er sennilega búið að ganga frá lausum endum í nýju ríkisstjórnarsamstarfi, úða síðustu froðunni í óhugsanlega löngum stjórnarsáttmála og umfram allt, að stilla upp ráðherraliðinu, sem mun hafa mikið að segja um hvernig stjórninni mun ganga. Því þrátt fyrir allt orðskrúðið blasir við að ríkisstjórnin hefur ekki sterkt umboð til víðtækra breytinga, það var ekki mikill samhljómur í kosningaloforðum ríkisstjórnarflokkanna, en hver þeirra um sig fékk ekki beinlínis glæsilega kosningu.

                                       ***

Það er ekki heldur þannig að flokkarnir hafi slíkt úrvalslið í sínum röðum að ráðherravalið sé einfalt eða sjálfgefið. Vinstri græn stilla upp tveimur konum úr Reykjavík, þannig að sá þriðji verður að vera öðru vísi til kyns og kjördæmis. Ari Trausti? Einhver utanþings?

Ekki þó maðurinn sem laug blákalt að þinginu um Icesave, hann verður auðvitað þingforseti með blessun Sjálfstæðisflokksins. Framsókn stillir upp Sigurði Inga og Lilju, en stóra spurningin er hvort maðurinn í grænu fötunum eða konan á peysufötunum verði þriðja hjólið. Þetta er einfaldara hjá Sjálfstæðisflokknum, þar verður mikið sama liðið, það er einfaldast. Nema Jón Gunn, sem vafalaust fær eitthvað fallegt í staðinn.

                                       ***

Þetta stjórnarsamstarf á því vel að geta orðið farsælt, það er vant fólk í forystu og á auðveldlega að geta siglt þessu fleyi út kjörtímabilið, þó það komi örugglega upp einhver vandræði á leiðinni.

                                       ***

Spurningin er kannski ekki síður um stjórnarandstöðuna. Hún er veikburða, margklofin og ekki yfirhlaðin af reynsluboltum. Jú, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í Viðreisn er vissulega gamall jaxl og þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson eru ekki reynslulausir. Það er hins vegar ekki gefið að Þorgerður Katrín finni sig með sama hætti í stjórnarandstöðu og í ráðherrastóli. Hvað má þá segja um Sigmund Davíð, er yfirhöfuð víst að hann mæti?

                                       ***

Burtséð frá helstu persónum og leikendum, er víst að Miðflokkurinn og Píratar geti unnið saman? Samfylking og Flokkur fólksins? Eða Viðreisn? Í stjórnarandstöðu er samstarfið nefnilega ekki síður mikilvægt en í stjórnarandstöðu. Ef það er í ólagi – eins og margt bendir til – þá er það þægilegt fyrir ríkisstjórnina. En ekki betra fyrir lýðræðið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.