*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Örn Arnarson
26. apríl 2021 08:19

Stjórn RÚV íhugar sænsku leiðina

Margt einkennilegt er að finna í fundargerðum stjórna opinbera fyrirtækja, ekki síst fundargerðum stjórnar Ríkisútvarpsins.

Fundargerðirnar eru gerðar eftir dúk og disk og þær eru þunnar og skrifaðar með einhvers konar almannatengslasjónarmið í huga. Það var sagt að ef eitthvað færi í fundargerð myndi viðkomandi lesa um það í Fréttablaðinu.

Eftirfarandi ummæli lét Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, falla í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkru. Þetta eru alvarlegar ásakanir enda liggja fundargerðir til grundvallar stjórnun fyrirtækja og eru til staðfestingar sem fer fram á stjórnarfundum. Um þetta var fjallað á þessum vettvangi í vetur og lýst yfir undrun að fjölmiðlar skyldu ekki sýna þessum alvarlegu ásökunum meiri áhuga.

Í viðtalinu er enn fremur haft eftir Birgi: „Samkvæmt hlutafélagalögum eiga stjórnarhættir stjórnar og fundargerðir að stýra öllu í fyrirtækjum. En ef aðrir hagsmunir stýra stjórnunum en hagsmunir fyrirtækisins veit ég ekki hvaða orð er hægt að nota yfir það – einhver myndi segja umboðssvik – en það eru alla vega aðrir hagsmunir en hagsmunir fyrirtækisins. Það er því ekki hægt að verjast því sem stjórnandi ef stjórnin leikur þann leik að geta síðan sagt að eitthvað hafi ekki verið í fundargerðum.“

Birgir nefnir einnig að ef fundargerðir Póstsins hefðu endurspeglað fundarefnið hefðu þær verið margfalt lengri en fundargerðirnar sem rata í fjölmiðla. Þetta er rifjað upp hér vegna þess að Ríkisútvarpið birti á dögunum loks fundargerðir nýliðins vetrar. Forsaga málsins er að blaðamenn Viðskiptablaðsins höfðu barist fyrir aðgangi að fundargerðum Ríkisútvarpsins og höfðu loks erindi sem erfiði í fyrravor þegar úrskurðarnefnd um upplýsingamál féllst á sjónarmið þeirra. Í kjölfarið hét stjórn RÚV auknu gagnsæi og að fundargerðir ríkismiðilsins yrðu aðgengilegar á vef stofnunarinnar.

***

Reyndar hafa fundargerðir stjórnar RÚV ekki verið birtar í allan vetur. Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu sagði Stefán Eiríksson útvarpsstjóri ástæðuna vera að ekki hafi verið hægt að undirrita þær með rafrænum hætti en stjórnin hefur fundað með rafrænum hætti vegna plágunnar. Ljóst er að fregnir af nýmóðins tæknilausnum, sem flest fyrirtæki og stofnanir landsins hafa nýtt sér undanfarið ár, hafa borist í Efstaleiti á síðustu vikum því fundargerðir vetrarins voru á dögunum birtar á vefnum. Ekki verður sagt að maður verði fróðari um rekstur ríkisútvarpsins á nýliðnum vetri eftir lestur fundargerðanna.

Í raun vekur lesturinn upp áleitnar spurningar um erindi þeirra sem skipaðir eru í stjórnina og færni til að sinna því hlutverki.

***

Eins og fram kemur í fundargerðunum er töluvert mikið um að stjórnin færi til bókar hversu ánægð hún er með dagskrárgerð stofnunarinnar. Þannig er ritað í fundargerð í september í fyrra að stjórnin hafi rætt um að unga fólkið átti sig hugsanlega ekki á gæðum þess efnis sem Ríkisútvarpið framleiði fyrir það. Rætt er um hvort ríkismiðillinn ætti að koma að útgáfu vefrits til að unga fólkið átti sig betur á því gæðaefni sem boðið er upp á í útvarpinu.

Stjórn RÚV virðist þarna ekki átta sig á að dagskrá stofnunarinnar er öllum aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar. Enn fremur ræðir stjórnin um hvort ekki væri hægt að nota áhrifamátt útvarpsstjóra meðal ungmenna í þessum efnum: Að hann mæli með áhugaverðu efni fyrir unga fólkið að „sænskri fyrirmynd“. Orðrétt segir í fundargerð: „Umræða um hvort yngra fólk þurfi aðstoð við að átta sig á gæði dagskrár í útvarpi. Tillaga kom fram um gerð vefrits þar sem fram kæmi hver dagskráin framundan væri. Einnig rætt um hvort útvarpsstjóri gæti „mælt með“ tilteknum dagskrárliðum, að sænskri fyrirmynd“. Undarlegt verður að teljast að síðastnefndu hugmyndinni hafi ekki verið hrint í framkvæmd.

En reyndar er áhugavert að rætt sé um að unga fólkið átti sig hreinlega ekki á að skrúfa frá RÚV í viðtækjunum. Það rímar ekki við það sem kemur fram í grein Kára Jónassonar, þáverandi stjórnarformann Ríkisútvarpsins, sem birtist tæpum tveimur vikum eftir umræddan stjórnarfund. Þar ræðir stjórnarformaðurinn um þá „byltingu“ sem RÚV hefur leitt í fjölmiðlanotkun barna og unglinga.

Í greininni segir: „Stofnunin hefur líka lagt sig fram um að fylgja þróun í miðlun efnis, og sinna öllum aldurshópum, ekki síst ungu kynslóðinni. Má þar bæði nefna KrakkaRÚV og Rúv Núll, sem segja má að hafi valdið byltingu í notkun þessara hópa á fjölmiðlum og haft veruleg áhrif á menningarlegt uppeldi þeirra.“

Það er sem sagt rætt á stjórnarfundum hvernig megi fá ungmenni til að fylgjast með dagskrárgerð RÚV og á sama tíma er fullyrt í opinberri umræðu að verkefni á borð við KrakkaRÚV og RÚV Núll hafi valdið straumhvörfum á fjölmiðlanotkun yngri kynslóðarinnar og markað djúp spor í „menningarlegu uppeldi þeirra“.

Þetta kemur auðvitað ekki heim og saman. Það væri áhugavert að fá upplýsingar um hversu miklu fé er varið til verkefna á borð við KrakkaRÚV og RÚV Núll og hvort þau hafi einhverju skilað – sá sem þetta skrifar hefur að minnsta kosti ekki orðið var við að RÚV hafi leitt til byltingar fjölmiðlaneyslu barna sinna og vina þeirra og hvað þá að stofnunin hafi markað djúp spor í lífi þeirra. Ljóst er að þeir sem sitja í stjórn Ríkisútvarpsins eru ekki að bera sig eftir slíkum upplýsingum.

***

Það er líka áhugavert að skoða hvaða tökum stjórn hins opinbera hlutafélags tekur á fyrirferðarmiklum málum í vetur. Eins og flestum er kunnugt hefur Ríkisútvarpið verið gagnlegt harðlega fyrir að standa ekki við skilyrði í þjónustusamningi sínum við ríkið um kaup á dagskrárefni af sjálfstæðum framleiðendum sem eru ekki í tengslum við stofnunina. Samtök iðnaðarins telja að íslensk framleiðslufyrirtæki hafi orðið af hundruðum milljóna króna vegna þessa framferði RÚV. Þjónustusamningurinn kveður á um að RÚV verji ákveðnu hlutfalli af heildartekjum í kaup á innlendu dagskrárefni af sjálfstæðum framleiðendum. En eins og kom fram í skýrslu Fjölmiðlanefndar sem birt var í nóvember síðastliðnum þá kom í ljós að RÚV hafði alls ekki staðið við gerðan samning þrátt fyrir að bókhaldið væri látið líta öðruvísi út.

Ríkisútvarpið flokkaði greiðslur til starfsmanna sinna og annarra þeirra sem eru viðloðnir Efstaleitið sem greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda dagskrárefnis. Þannig flokkast greiðslur til blaðamanns sem rabbar vikulega um pólitík og efnahagsmál í morgunþætti í Efstaleiti undir aðkeypta dagskrárframleiðslu í bókum ríkismiðilsins. Hið sama á við innslög sprellikarla í vikulegum sjónvarpsþáttum. Umtalsverð umræða varð um skýrslu Fjölmiðlanefndar og háværar raddir um að þörf væri á að aðskilja rekstur ákveðinna starfsmanna ríkismiðilsins frá rekstri Ríkisútvarpsins.

Sökum alvarleika málsins hefði mátt búast við að tekist væri á um það á vettvangi stjórnar RÚV og sá mikli mannauður sem þar er saman kominn virkjaður til þess að leita lausna. Það varð ekki raunin samkvæmt fundargerð stjórnarfundar 25. nóvember. Þar segir um málið: „Umræða um verktöku og vísað í frétt um að greitt hafi verið fyrir dagskrárgerð með fé sem hefði í raun átt að fara til verka utanhúss. Fjármálastjóri og útvarpsstjóri leiðréttu umræðuna og sögðu slíkt ekki vera gert.“

***

Vissulega kennir ýmissa grasa í fundargerðum. Þar má til að mynda finna frumspekilegar vangaveltur um hvenær stjórnarmaður Ríkisútvarpsins á að vera kynntur sem slíkur. Í fundargerð frá 28. október er ritað: „Umræða um viðtal við stjórnarmann í Kastljósinu, en í viðtalinu kom fram að viðkomandi ætti sæti í stjórn RÚV. Skiptar skoðanir voru á hvort svona ætti að koma fram en reglur gilda um svona upplýsingagjöf sérstaklega.“

Þjóðin bíður spennt eftir að stjórnin setji sér slíkar reglur. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.