Stjórnarandstæðingur ársins er einn sá fjölhæfasti í þingliðinu enda getur hún leyst flestar stöður á vellinum.

Af öllum stjórnarandstæðingum ársins var Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra aðsópsmest á árinu. Sem kunnugt er reyndi hún að koma í veg fyrir Íslandsbanki yrði seldur í lokuðu útboði á vettvangi ráðherranefndar um efnahagsmál, talaði líkt og sumir þingmenn Samfylkingarinnar fyrir hvalrekaskatti á útgerðina og fjármálafyrirtæki og var einna háværust þegar kom að gagnrýni á verðhækkanir skráðra félaga sem hafa greitt út arð.

Lilja menningarráðherra réð einnig Hörpu Þórsdóttur í stöðu þjóðminjavarðar án þess að auglýsa starfið. Lilja rökstuddi þá ákvörðun með því að segja efnislega að hún hafi ekki þurft að auglýsa starfið því að manneskjan sem var ráðin í starfið væri bara svo frábær!

Huginn og Muninn gera upp árið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta lesið blaðið hér.