*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Týr
25. maí 2019 14:05

Stjórnarskrárbrot

Hvernig ætla Katrín, Svandís og Steingrímur að axla ábyrgð á þessu stjórnarskrárbroti sínu?

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Hæstiréttur dæmdi í liðinni viku að valdframsal Alþingis til innanríkisráðherra árið 2012 hefði verið brot á 78. grein stjórnarskrár, þar sem segir að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum en ekki með ákvörðun ráðherra. Nokkur sveitarfélög bentu innanríkisráðherra og meirihluta Alþingis á þeim tíma á að breyting á lögum um tekjustofna sveitar- félaga væri í bága við stjórnarskrá að þessu leyti. Á þau viðvörunarorð hlustuðu hvorki ráðherra né þingið í nokkru.

                                                                                               * * *

Ráðherrann, sem um ræðir, var Ögmundur Jónasson og í þingmeirihlutanum, sem greiddi atkvæði með stjórnarskrárbrotinu, voru þingmenn Samfylkingarinnar, Vinstrihreyfingarinnar — græns framboðs og Hreyfingarinnar. Þeirra á meðal voru ráðherrarnir núverandi, Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, auk forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar, sem aldrei myndi vanvirða stjórnsýsluhefðir eða villa um fyrir Alþingi. Nema honum þætti mikið liggja við.

                                                                                               * * *

Það var Grímsnes- og Grafningshreppur sem fór með málið fyrir dóm og niðurstaða Hæstaréttar er sem fyrr segir, að lagasetningin fari gegn stjórnarskrá og íslenska ríkið skuli greiða Grímnes- og Grafningshreppi 234 milljónir króna auk vaxta. Í frétt Ríkisútvarpsins kom fram það mat óskars Sigurðssonar, lögmanns Grímsnes- og Grafningshrepps, að heildarútgjöld ríkissjóðs vegna þessara stjórnarskrárbrota verði um milljarður króna.

                                                                                               * * *

Hvernig ætla Katrín, Svandís og Steingrímur að axla ábyrgð á þessu stjórnarskrárbroti sínu og því þúsund milljóna króna tjóni, sem það hefur nú í för með sér?

                                                                                               * * *

Ætla þau ekki að taka niðurstöðu Hæstaréttar Íslands alvarlega?

                                                                                               * * *

Eða verða viðbrögðin á sama veg og þegar Hæstiréttur úrskurðaði stjórnlagaþingskosninguna þeirra ógilda? Þá var niðurstöðu Hæstaréttar gefið langt nef með því að skipa bara hina ólögmætu stjórnlagaþingsmenn í stjórnlagaráð. Eða finnst þeim þetta bara ekki koma sér við?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.