*

laugardagur, 4. desember 2021
Huginn og muninn
24. október 2021 10:12

Stjórnlaust grunnkerfi Gunnars Smára

Sósíalistaleiðtoginn vill að þáttastjórnendur á RÚV séu ráðnir eftir pólitískum flokkslínum.

Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gunnar Smári Egilsson, sósíalistaforingi utan þings, geystist enn á ný fram á Facebook-ritvöllinn í vikunni. Kveikjan að skrifum hans voru fréttir þess efnis að Fanney Birna Jónsdóttir væri hætt sem stjórnandi í umræðuþáttunum Silfrinu á RÚV. Egill Helgason leikur því sóló um stundir.

Gunnar Smári vandaði ekki Agli kveðjurnar. Á sinn hófstillta hátt skrifaði hann: „Þessar linnulausu messur um ágæti stjórnvalda og allra grunnkerfa samfélagsins eru orðnar stjórnlaust leiðinlegar. Fyrir nú utan innihaldsleysið og heimskuna.“ Sagði hann löngu kominn tíma á að einhver úr vinstri deild jarðar stýrði Silfrinu og stakk upp á Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, upplýsingafulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar. Þóra Kristín var einmitt fréttastjóri á Fréttatímanum þegar Gunnar Smári sigldi því blaði í þrot.

Annars eru þessar pælingar sósíalistaforingjans svo galnar og bera vott um slíka hugsanaskekkju og skrítna sýn á fjölmiðla að hrafnarnir eiga erfitt með að koma með verri hugmynd. Eða þó, afhverju ekki bara að taka þetta alla leið og leyfa hverjum stjórnmálaflokki að ráða sinn þáttastjórnanda á RÚV?

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.