*

miðvikudagur, 20. október 2021
Óðinn
5. nóvember 2019 19:03

Stjörnuleikur refsivandanna

Kostnaður við námsstyrk Seðlabankans til forstöðumans deildar sem hefur þurft að skila 99% sektargreiðslna vekur athygli.

Birgir Ísl. Gunnarsson

Sífellt meira ber nú á umræðu um mikinn vöxt hins opinbera á öllum sviðum. Að minnsta kosti tveir stjórnmálaflokkar hafa dustað rykið af slagorðinu „Báknið burt“. Óðinn fagnar mjög þessari umræðu og gleðst yfir því að tveir ráðherrar hafi komið fram og fækkað reglugerðum, enda óviðunandi að Ísland skuli vera það ríki innan OECD þar sem borgararnir búa við flóknasta regluverkið – flestar reglugerðirnar. 

                                          ***

Eftir því sem rykið hefur sest í hrunmálunum svokölluðu má segja að athyglin sé nú að einhverju leyti farin að beinast að stjórnsýslunni og meðferð opinbers fjármagns og valds. Það vekur sérstaka athygli Óðins að til séu embættismenn sem geta gegnt mörgum störfum á sama tíma hjá ríkinu og haft gott upp úr því. Nefna má að framkvæmdastjóri hjá Íbúðalánasjóði fáist við rannsóknir fyrir Samkeppniseftirlitið á kvöldin og sendi því verktakareikninga fyrir milljónir króna. 18 milljóna króna kostnaður við settan ríkislögmann í Guðmundar-og Geirfinnsmálunum vekur einnig athygli. Að ekki sé minnst á 18 milljóna króna námsstyrk Seðlabankans til forstöðumanns Gjaldeyriseftirlitsins en öll stjórnsýslan í kringum þann samning er með ólíkindum. Margt bendir til þess að lög hafi verið brotin og innri reglur sniðgengnar. 

                                           ***

Leyndarmál og opinberanir Seðlabankans

Með dómi héraðsdóms Reykjaness hinn 18. október var Seðlabankanum gert að afhenda þennan samning við Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Gjaldeyriseftirlitsins, sem bankinn hafði áður synjað blaðamanni Fréttablaðsins um en úrskurðarnefnd um upplýsingamál mælt fyrir um að bæri að afhenda, en bankinn enn þybbast við og bar undir dómstóla. Rökstuddi Seðlabankinn kröfu sína meðal annars með þeim hætti að birting samningsins kynni „að skerða með óbætanlegum hætti annars vegar orðspor bankans og hins vegar starfsmannsins“. 

                                           ***

Nú þegar samningurinn hefur hins vegar verið birtur kveður við annan tón frá fyrrverandi seðlabankastjóra. Í viðtali við Vísi kvaðst Már Guðmundsson ekki sjá eftir neinu. Ingibjörg hafi leikið algjöran „stjörnuleik“ í störfum sínum og að margir slíkir samningar væru gerðir í Seðlabankanum. Hann hafi sjálfur fengið slíkan samning forðum daga. Því hafi ekkert verið óeðlilegt við samningsgerðina. 

                                           ***

Annað sagði Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs, sem kvað samninginn vera „sérstakan gjörning“ og einsdæmi innan bankans, en Sigurður Kári Kristjánsson, lögmaður og bankaráðsmaður, sagði að samningurinn væri „mjög óeðlilegur“ og að hann hefði „miklar efasemdir um að seðlabankastjóri hafi á þessum tíma haft heimild samkvæmt lögum til að gera þennan samning“. 

                                           ***

En um hvaða stjörnuleik var seðlabankastjórinn fyrrverandi eiginlega að tala? Árangurinn af störfum stjörnuleikarans í Seðlabankanum er nefnilega einstaklega rýr. Bankanum hefur til dæmis verið gert af dómstólum að endurgreiða 99% af sektarfjárhæðum, sem hann lagði á lögaðila með sjö stjórnvaldsákvörðunum, samtals að fjárhæð 116 milljónir króna. Seðlabankinn hefur því endurgreitt nær hverja krónu sem gjaldeyriseftirlit bankans hafði lagt á með stjórnvaldsákvörðunum. Það er ótrúleg niðurstaða. 

                                           ***

Þá liggur og fyrir að allar þessar sektarákvarðanir Seðlabankans reyndust afar kostnaðarsamar. Bankanum hefur verið gert að greiða háan málskostnað auk þess sem ríkisvaldið bar tugi milljóna króna í dráttarvexti vegna ákvarðana hans. Sömuleiðis hefur bankinn upplýst að honum hafi verið stefnt vegna stjórnsýslumeðferðar í fjórum málum til greiðslu skaðabóta samtals að fjárhæð 568 milljóna króna. Þetta er ekkert klink, ekki einu sinni í Seðlabankanum. 

                                           ***

Erjur við Samherja

Átök Samherja og Seðlabankans hafa undið upp á sig síðustu vikur og er brátt komið efni í framhaldsbók um Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits?, sem Björn Jón Bragason ritaði um árið. Í vikunni var upplýst að Ingibjörg Guðbjartsdóttir, fyrrum forstöðumaður Gjaldeyriseftirlitsins, hafi átt í tölvupóstsamskiptum við Helga Seljan, fréttamann RÚV, í rúman mánuð fyrir húsleitirnar hjá Samherja. Í bréfi til forsætisráðuneytisins tóku forsvarsmenn Seðlabankans hins vegar skýrt fram að ekkert kæmi fram í þeim samskiptum um að trúnaðarupplýsingar hefðu farið frá framkvæmdastjóranum til fréttamannsins. Einkennilegt þó eigi að síður að sjá fyrirvarann í bréfinu um að ef framkvæmdastjórinn hefði veitt fyrirfram upplýsingar um húsleitina þá hefði slíkt aðeins verið mistök! Þar með var það afgreitt. 

                                           ***

Hlutur Helga og RÚV í málinu er annað sem Óðinn skilur ekki en Helgi virðist hafa vakið upp málið og stýrt rannsókn og fjölmiðlaumfjöllun um það í samráði við sitt fólk í stjórnsýslunni. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, hefur bent á að þarna virðist Helgi og RÚV vera í skýrri pólitík, sem hann færði sérstaklega í tal í Kastljósviðtali eftir innrás í Samherja og rangar ásakanir á hendur Vinnslustöðinni. Viðtalið var hins vegar afkynnt með þessum orðum: „Vegna orða framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar vill Kastljós taka fram að þátturinn stendur í einu og öllu við umfjöllun sína“. 

                                           ***

Stendur Kastljós enn við umfjöllun sína? Hvar eru Helgi Seljan og Sigmar Guðmundsson núna, þessir sem vörðu sig í blaðagreinum í Morgunblaðinu í vetur? Hvar er Páll Magnússon fyrrverandi útvarpsstjóri, sem sagði ekkert athugavert við vinnubrögð Kastljóss í þessu máli í Morgunblaðsgrein síðastliðinn vetur? 

                                           ***

Orð Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, í útvarpsþættinum „Í bítið“ á Bylgjunni nú mánudag, vöktu athygli Óðins sem fleiri. Þar hélt Þorsteinn Már því fram að yfirmaður hjá Seðlabankanum hefði litið svo á, þegar árið 2014, að ekki hefði verið refsigrundvöllur fyrir neinum reglnanna sem Seðlabankinn vann út frá í gjaldeyriseftirliti sínu. 

                                           ***

Af því tilefni rifjaði Óðinn upp fréttatilkynningu frá Seðlabankanum þann 19. febrúar í ár en þar rökstuddi bankinn að hann hefði talið refsiheimildir fullnægjandi og því hefði hann haldið ótrauður áfram að sekta. Vegna gagnrýni umboðsmanns um að Seðlabankinn hefði ekki upplýst hann um afstöðu ríkissaksóknara til refsiheimilda sagði í yfirlýsingunni:

[V]ar það mat Seðlabankans að umfjöllun ríkissaksóknara um gildi reglna um gjaldeyrismál yrði ekki skilin svo að í henni fælist endanleg úrlausn ákæruvaldsins um gildi allra reglna um gjaldeyrismál og kom því ekki til álita af hálfu Seðlabankans að upplýsa umboðsmann sérstaklega um umfjöllun í umræddum bréfum, frekar en önnur gögn varðandi meðferð einstakra mála. 

                                           ***

Fyrir tveimur mánuðum sendi Seðlabankinn Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra bréf, sem ekki hefur þó ratað í fjölmiðla þrátt fyrir að það sé öllum aðgengilegt á heimasíðu ráðuneytisins. Það kemur ef til vill ekki á óvart þar sem bréfið er vel á sjötta tug blaðsíðna. En þó að Óðinn sé eineygður kom hann samt auga á litla neðanmálsgrein sem verðskuldar meiri athygli. Í neðanmálsgrein 17 er nefnilega fjallað um tölvupóst frá forstöðumanni rannsókna til yfirstjórnar (lesist: seðlabankastjóra), en þar segir meðal annars:

Við getum ekki betur séð en að niðurstaðan sé ótvíræð og að mati Ríkissaksóknara skortir heimild til að refsa á grundvelli reglna um gjaldeyrismál. Tímabilið sem um ræðir er því 28. nóvember 2008 til 30. september 2011. 

                                           ***

Þetta var þó af einhverjum ástæðum ekki nógu skýrt fyrir forsvarsmenn Seðlabankans, sem óskuðu eftir álitsgerð frá Gizuri Bergsteinssyni lögmanni. Gizur taldi refsiheimildir bankans fullnægjandi, en gerði samt þann skýra fyrirvara að líklega kæmust dómstólar að annarri niðurstöðu! Með það í farteskinu héldu hæstráðendur Seðlabankans áfram og lögðu á sektir og gerðu sáttir fyrir á þriðja hundrað milljón króna. Eins og áður sagði hefur bankinn nú þurft að endurgreiða allar stjórnvaldssektir og um helming allra sátta sem gerðar voru. 

                                           ***

Samráð í Samkeppniseftirliti

Það vakti athygli Óðins hve hörð og skipulög viðbrögð margra „hagsmunaaðila“ voru við gagnrýni á nýtilkynntu frumvarpi frá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um nýja löggjöf um Samkeppniseftirlitið. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, fer þar fremstur í flokki og telur að með frumvarpinu séu tennurnar dregnar úr eftirlitinu og því gert ókleift að rannsaka mál, þótt einungis standi til að færa lagaumgjörðina um eftirlitið nær því sem gerist í nágrannalöndunum. Jú, eftirlitið þarf að hafa tennur, en ekki vígtennur. 

                                           ***

Engu er þó líkara en að Samkeppniseftirlitið hafi komið upp eigin skoðanaher, sem kemur fram í fjölmiðlum sem „álitsgjafar“ og skjóta á ráðherra og frumvarpsdrögin. Svo mikill samhljómur er þar, að engu er líkara en að þeir hafi haft samráð með sér. 

                                           ***

Á meðal þeirra sem talað hafa máli Samkeppniseftirlitsins eru þeir Gylfi Magnússon, fyrrum stjórnarformaður Samkeppniseftirlitisins, Eiríkur Ragnarsson hagfræðingur og Eggert B. Ólafsson, lögmaður og sérfræðingur í samkeppnisrétti. Það hlýtur að vera sjálfsagt að gera þá kröfu til þessara álitsgjafa að þeir geti þess, þegar þeir gagnrýna frumvarpsdrögin, hvort þeir hafi þegið verktakagreiðslur fyrir ráðgjöf frá Samkeppniseftirlitinu á undanförnum árum. Á vef Samkeppniseftirlitsins er sérstaklega tekið fram að Gylfi starfi þar sem ráðgjafi. 

                                           ***

Nýverið bárust fréttir úr dómsal þar sem Samkeppniseftirlitið fékk byr undir báða vængi og ætti niðurstaða þess máls að teljast sárabót fyrir lagabreytinguna. Eimskip hafði höfðað mál gegn eftirlitinu og krafist þess að því yrði gert að hætta rannsókn á félaginu. Niðurstaða dómstóla var að það úrræði sem Eimskip nýtti sér stæði lögaðilum ekki til boða í samkeppnismálum og því yrði Eimskip að bíða niðurstöðu í málinu. 

                                           ***

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Eimskip og Samskip hófst árið 2010 og fer því að nálgast tinbrúðkaup án þess að nokkur ákvörðun liggi fyrir. Málið á eftir að fara til áfrýjunarnefndar um samkeppnismál og væntanlega alla leið í dómskerfinu. Má því ætla að Páll Gunnar muni geta fagnað kristalsbrúðkaupi eða þaðan af meira áður en málinu lýkur. Með þessari dómsniðurstöðu var staðfest að lögaðilar verði einfaldlega að sætta sig við að vera til rannsóknar árum og jafnvel áratugum saman án þess að fá vita fyrir hvað þeir eru settir á sakamannabekk. Meðan svo er verður tæpast séð að refsivöndur Samkeppniseftirlitsins sé máttlaus. 

                                           ***

Lekamál

Að því sögðu fylgist Óðinn spenntur með boðaðri lögreglurannsókn á leka úr Seðlabankanum en veit sem er að ekki er kálið sopið þótt í ausuna sé komið. Nú eru fimm ár liðin frá því að rannsókn lögreglu hófst á svipuðum leka úr Samkeppniseftirlitinu vegna rannsóknar á samkeppnisbrotum Eimskips og Samskipa. Ekkert virðist hafa hvorki komið út úr þeirri rannsókn né nokkrum öðrum um lekamál, ef frá er talin ítarleg rannsókn á leka úr innanríkisráðuneytinu 2014. Það virðist vera eina málið sem lögreglan hefur haft áhuga á og leitt var til lykta. Líklega lék pólitíkin þó stórt hlutverk þar. Það er þó sérlega áhugavert að nær alltaf skuli Ríkisútvarpið leika aðalhlutverkið þegar lekar innan úr stjórnsýslunni — skýr hegningarlagabrot — eru annars vegar.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.