*

föstudagur, 25. júní 2021
Týr
11. apríl 2021 17:05

Stofufangelsi ríkisins 2021

„Allt í einu, eftir að hafa glímt við kórónuveiru-faraldur í rúmt ár, þurfum við að loka fólk inni ..."

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tók á móti fyrsta skammtinum af bóluefni í lok síðasta árs.

Það væri hægt að fækka umferðaróhöppum töluvert með því að svipta alla karlmenn á aldrinum 17-19 ára ökuréttindum. Sá sem myndi mótmæla því þyrfti þá að svara því um leið hvort viðkomandi sé sama um að fólk látist í umferðinni. Við gætum líka útrýmt heimilisofbeldi með því að setja upp myndavél á hvert heimili. Okkur er ekki sama um þá eða þær sem verða fyrir ofbeldi og þannig væri vel hægt að réttlæta svo grófa aðför að friðhelgi heimilanna. Í framtíðinni væri líka hægt að banna sykur, salt, tóbak og hvað það er sem veldur okkur skaða með einum eða öðrum hætti. Allt í nafni lýðheilsu.

                                                                       ***

Það vakti óhug hjá Tý þegar Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti reglugerð rétt fyrir páska, um að öllum þeim sem kæmu erlendis frá yrði gert að sæta fimm daga stofufangelsi á svokölluðu sóttvarnarhóteli á vegum ríkisins. Allt í einu, eftir að hafa glímt við kórónuveiru-faraldur í rúmt ár, þurfum við að loka fólk inni til að koma í veg fyrir bylgju sem er ekki að eiga sér stað í nokkru formi. Bólusetningar ganga vissulega hægt en það er búið að bólusetja meginþorra sem eru viðkvæmastir fyrir veirunni og þau smit sem nú eru að greinast eru teljandi á fingrum annarrar handar.

                                                                       ***

Við höfum náð góðum árangri í því að halda veirunni niðri. Sá árangur eru hins vegar ekki ókeypis, hvorki í hagfræðilegu né félagslegu tilliti. Nú bætist við krafa stjórnvalda um frelsissviptingu og stjórnlyndir stjórnmálamenn og embættismenn færa umræðuna yfirleitt að lægsta samnefnaranum, annað hvort grípum við til þessara aðgerða eða hörmungar blasa við - sama hvað dómstólar segja.

                                                                       ***

Fórnarkostnaðurinn við það sem kalla má veirulaust samfélag mun þó fela í sér hörmungar til lengri tíma. Opinberir starfsmenn á borð við Þórólf þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af því - í bili.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.