Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eiga allt undir því að standast samkeppni á alþjóðlegum markaði, en um 98% af íslensku sjávarfangi eru flutt úr landi. Þrátt fyrir að ýmsum kunni að þykja sum íslensk sjávarútvegsfyrirtæki stór, ber að skoða stöðu þeirra í alþjóðlegri samkeppni þar sem baráttan um hylli kaupenda fer fram. Þar eru íslensku fyrirtækin smá.

Fréttaveitan Undercurrent News (UCN) tekur árlega saman tekjur 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtækja heims. UCN tekur mið af tekjum fyrirtækja af fiskeldi, fiskveiðum, fiskvinnslu, viðskiptum með sjávarfang (inn og útflutning) og heildsölu eða dreifingu á sjávarafurðum.

Samkvæmt nýjustu skýrslu UCN sem kom út í fyrra, og tekur mið af tekjum á árinu 2019, náðu tvö íslensk fyrirtæki inn á hann. Það er Samherji í 38. sæti og sölufyrirtækið Iceland Seafood International í 67. sæti. Hér ber að taka með í reikninginn að stór hluti af starfsemi beggja fyrirtækja er á erlendri grundu. Þótt þessi tvö fyrirtæki séu stór á íslenskan mælikvarða blikna þau í samanburði við stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims.

Stærsta sjávarútvegsfyrirtæki heims á árinu 2019 var japanska fyrirtækið Maruha Nichiro Corporation. Árstekjur fyrirtækisins á árinu 2019 námu rúmum 917 milljörðum króna.

Til þess að setja þessa stærð í samhengi, þá voru útflutningsverðmæti Íslendinga af sjávarafurðum og eldi á árinu 2019 um 285 milljarðar króna. Það þýðir að tekjur þessa eina japanska fyrirtækis voru rúmlega þrisvar sinnum hærri en samanlagðar útflutningstekjur allra sjávarútvegs og eldisfyrirtækja á Íslandi.

Ef öll íslensku fyrirtækin væru sameinuð í eitt fyrirtæki og útflutningsverðmæti þeirra endurspeglaði tekjur þess, þá myndi það einungis skila sér í 11. sæti á lista yfir 100 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims.

Það er gagnlegt að hafa þetta í huga þegar rætt er um stöðu og stærð íslenskra sjávarútvegfyrirtækja.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.