Fjölmiðlarýnir las það á Facebook að Gunnar Smári Egilsson væri með nýtt tímarit í undirbúningi. Til forna skrifaði hann í K vikmyndablaðið, NT, Tímann, Helgarpóstinn fyrri og DV , ritstýrð i Pressunni , kom að stofnun Eintaks, Morgunpóstsins, Fókuss, Fjölnis og Fréttablaðsins , sem hann ritstýrði öllum; átti þátt í breytingum á DV , stofnun Nyhedsavisen og BostonNow og stóð löngu síðar að umbreytingu Fréttatímans .

Langflest eiga þessi blöð það sameiginlegt að hafa lognast út af, sum eftir veruleg rekstraráföll, svo það sé nú orðað kurteislega.

Af þeirri ástæðu er varla ástæða til bjartsýni, en ekki eykst hún þegar horft er yfir íslenskan tímaritamarkað. Íslensk tímarit hafa átt æ örðugra uppdráttar síðastliðin ár, en án þess að hafa nokkra tölfræði handbæra, grunar fjölmiðlarýni að þar muni mest um breytta neysluhegðun nýrra kynslóða, sem kaupi sér helst ekki lesefni lengur.

Án þess að með því sé lítið gert úr hæfileikum Gunnars Smára til þess að setja fjölmiðla á hausinn.

***

Fyrst minnst er á erfiðan rekstrargrundvöll fjölmiðla verður varla hjá því komist að tæpa á sölu úr eignasafni Vefpressunnar á dögunum, sem þótti sæta nokkrum tíðindum. Velþekkt er að rekstur þeirrar samstæðu var mjög þröngur síðasta misserið og sennilegast mátti ekki miklu muna að hún færi á hausinn með hvelli. Sumir segja að það hafi jafnvel verið fyrirætlan helstu eigenda.

Enn hefur ekki komið fyllilega á daginn hvernig atburðarásin var í þeim darraðardansi öllum og fram kom hörð gagnrýni á framgöngu Björns Inga Hrafnssonar, sem lengst af var potturinn og pannan í Vefpressunni. Fjölmiðlarýni hefur þó ekki skilist annað en að við kaupin á þessum eignum hafi tekist að greiða rimlagjöldin svonefndu og einnig skuldir við Blaðamannafélagið, lífeyrissjóð og þess háttar.

Óljósara mun hins vegar vera um einhver vörslugjöld önnur. Aftur mun prentskuld fyrirtækisins við Landsprent hafa verið gerð upp, sem bendir til þess að kaupendurnir ætli að halda útgáfu DV áfram. Sem hlýtur að vera gleðileg niðurstaða fyrir starfsmenn og áhugamenn um fjölbreytta fjölmiðlun hið minnsta.

Róbert Wessmann mun hins vegar ekki vera jafnhress, þó erfitt sé að sjá hvernig hann ætlaði að fara betur út úr fjárfestingum sínum í Vefpressunni.

***

Hins vegar minnist fjölmiðlarýnir þess ekki, að þeir sem mest hneyksluðust á Birni Inga vegna þessa hafi haft uppi sömu vandlætingu þegar Fréttatíminn var að falla og starfsfólkið í slíkri neyð að Blaðamannafélagið varð að hlaupa undir bagga með helstu nauðsynjar (og stofnaði raunar neyðarsjóð í framhaldinu).

Slík umræða kom ekki heldur upp þegar DV reri lífróðurinn undir stjórn Reynis Traustasonar hér um árið og skuldaði samt bæði skatta og vörslugjöld.

***

Sem rifjar upp að þegar tekist var á um DV 2014 kom í ljós að eigendaregistrið hjá Fjölmiðlanefnd var skáldskapur. Af skráningum um eignarhald Vefpressunnar og hinna burtseldu eigna hennar sýnist manni það ekkert hafa breyst. Það afhjúpar Fjölmiðlanefnd, stöðu hennar og tilgang. Samanlagt gerir það eitt stórt núll.

***

Þrátt fyrir að hafa reynt að fylgjast grannt með fréttum Ríkisútvarpsins hefur fjölmiðlarýnir ekki enn orðið þess var að fréttastofan hafi leiðrétt falsfrétt sína um mansal í veitingahúsi á Akureyri eða að hún hafi beðið eigendur þess, hvað þá eigendur Ríkisútvarpsins eða almenning afsökunar á að hafa látið ginnast til þess að fara fram með fréttina án þess að ganga úr skugga um áreiðanleika heimildanna.

Mistökin, frumhlaupið og óvarfærnin við vinnslu fréttarinnar eru nefnilega og þrátt fyrir allt ekki hið versta í málinu. Nei, hið versta er þessi afstaða eða kúltúr fréttastofunnar að gangast aldrei við mistökum, biðjast aldrei afsökunar og leiðrétta helst aldrei neitt. Eins og á við í þessu máli.

***

Það er sérstakt hlutverk fjölmiðla að ganga úr skugga um hvað sé hið sanna og rétta í hverju máli, sem þeir segja almenningi frá. Auðvitað getur komið á daginn að eitthvað reynist rangt, en þá leiðrétta fjölmiðlar sig. Það á að vera þeim sérstakt metnaðarmál.

Fréttastofa Ríkisútvarpsins virðist halda að því sé minnkun í sérhverri leiðréttingu, en það er hræðilegur misskilningur. Þvert á móti meta lesendur, áheyrendur og áhorfendur það við fjölmiðla þegar þeir birta leiðréttingar og traust þeirra á miðlunum eykst.