*

föstudagur, 30. júlí 2021
Týr
31. janúar 2021 13:09

Stóra bóluefnaklúðrið

Á sama tíma og Ísraelsmenn hafa bólusett nærri helming þjóðarinnar gildir sama um 2% íbúa ESB sem Íslendingar treysta á.

Svandís Svavarsdóttir er heilbrigðisráðherra og þingmaður Vinstrihreyfingarinnar- Græns framboðs.
Haraldur Jónasson

Ísraelsmenn eru nú búnir að bólusetja tæplega fjórar milljónir þegna sinna við COVID-19 veirunni, um 45% þjóðarinnar. Engin þjóð hefur bólusett hlutfallslega fleiri í heiminum og enginn kemst nálægt því. Þar í landi hljóta menn að þakka fyrir að hugmyndir um viðskiptabann Reykjavíkurborgar á Ísrael varð aldrei að veruleika.

                                                              ***

Tæplega 70 milljónir einstaklinga hafa nú verið bólusettar í heiminum, langflest í Bandaríkjunum eða um 23,5 milljónir manna. Það er þó aðeins rétt rúmlega 7% þjóðarinnar. Í Bretlandi hafa um sjö milljónir verið bólusettar, tæplega 11%. Tæplega níu milljónir manna hafa verið bólusettar í ríkjum Evrópusambandsins, aðeins um 2% íbúa sambandsins.

Það liggur í augum uppi að Evrópusambandið hefur klúðrað sínum málum verulega þegar kemur að bólusetningum íbúa. Í Danmörku hafa um 4% íbúa fengið bólusetningu, á Spáni um 3%, í hinu vel skipulagða Þýskalandi hafa aðeins um 2% íbúa verið bólusett og í öðrum ríkjum ESB enn færri.

                                                              ***

Það þarf ekki að spyrja að því að í stað þess að tala við einhverja útlenska kapítalista hjá alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum töluðu embættismenn á Íslandi við kollega sína innan Evrópusambandsins til að semja um bóluefni fyrir Íslendinga. Segið svo að allar þessar ráðstefnur og utanlandsferðir opinberra starfsmanna hafi bara verið tímasóun og peningaeyðsla?

Á Íslandi hafa rúmlega 15 þúsund manns verið bólusettir, rétt rúmlega 4%. Þó svo að Íslendingar hafi gaman að því að bera sig saman við aðrar þjóðir miðað við höfðatölu, þá er staðreyndin sú að við erum í 51. sæti yfir fjölda þeirra sem hafa verið bólusettir samkvæmt vef Bloomberg fréttaveitunnar. Tjónið sem COVID-19 faraldurinn veldur íslensku hagkerfi er um milljarður króna - á dag.

                                                              ***

Týr fylgist vel með fréttum og leggur það á sig að fylgjast sérstaklega með stjórnmálum. Hann er samt engu nær um það hvenær mögulega verður hægt að bólusetja meginþorra þjóðarinnar. Það sem er þó verra er að svo virðist sem heilbrigðisráðherra og sóttvarnalæknir séu það ekki heldur.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.