*

sunnudagur, 20. júní 2021
Leiðari
28. maí 2021 12:22

Stóra verkefnið er verðmætasköpun

Þessar kosningar eiga aðeins að snúast um eitt og það er hvernig reisa á þjóðarskútuna við.

Á síðari hluta árs 2018 og seinna um veturinn birtust spár sem gerðu ráð fyrir töluverðum samdrætti í hagkerfinu. Árin á undan hafði verið mikill uppgangur í atvinnulífinu en segja má að þegar fréttir birtust af erfiðri fjárhagsstöðu Wow air síðla sumars 2018 og gjaldþroti Primera um haustið hafi útlitið byrjað að dökkna. Spár um mikinn samdrátt raungerðust samt ekki heldur má frekar segja að ríkt hafi stöðnun í efnahagslífi þjóðarinnar. Að stórum hluta var það skynsamlegri lendingu í kjaramálum að þakka en vorið 2019 voru lífskjarasamningarnir undirritaðir. Þetta var inntakið í leiðara sem birtist á þessum vettvangi fyrir einu og hálfi ári.

Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan. Engin spálíkön hefðu getað náð utan um það sem skall á þjóðinni og heimsbyggðinni allri í mars í fyrra. Kórónuveirukreppan er einstök – vonandi. Það þarf ekki að fjölyrða sérstaklega um að hún hefur haft mest áhrif á fyrirtæki í ferðaþjónustu og greinum henni tengdri. En málið er samt ekki svo einfalt. Þessi kreppa hefur nefnilega áhrif á okkur öll. Hallinn á ríkissjóði á síðasta ári var yfir 300 milljarðar króna en til samanburðar var hann 38 árið 2019 og 2018 var 27 milljarða afgangur.

Stjórnmálaflokkarnir eru í óða önn að birta lista sína fyrir komandi kosningar en einungis fjórir mánuðir eru þar til Íslendingar ganga að kjörborðinu. Kosningaloforðin eru smám saman að seytla út og kemur það stórtækasta frá Sósíalistaflokknum, sem vill byggja 30 þúsund íbúðir á næstu tíu árum fyrir 650 milljarða króna. Það er að sjálfsögðu gott þegar flokkar leggja fram skýra stefnu í ákveðnum málaflokkum en þessi áform eru ekki raunhæf. Annars vegar væri verið að fjölga íbúðum í landinu um 20% og hins vegar er kostnaðurinn vanreiknaður því hann byggir á byggingarvísitölu Hagstofunnar. Í vísitölunni er t.a.m. ekki tekið tillit til fjármagnskostnaðar, lóðakostnaðar, hönnunarkostnaðar og svo er launakostnaður vanmetinn. Líklega mun þessi hugmynd sósíalista kosta vel yfir þúsund milljarða króna. Viðskiptablaðið óttast svona útspil og yfirboð í aðdraganda kosninganna. Það versta sem gæti gerst er að gefa út óútfylltan tékka í anda borgarlínunnar.

Þessar kosningar eiga aðeins að snúast um eitt og það er hvernig reisa á þjóðarskútuna við svo að skuldasöfnun ríkissjóðs muni ekki bitna á komandi kynslóð, svo ekki sé talað um kynslóðir. Þetta er vandasamt verk en lykilhugtakið er verðmætasköpun. Oft er verðmætasköpun spyrt við tækni og sprota en hún getur líka falist í uppbyggingu innviða, hvort sem það er vegagerð, veituframkvæmdir, hafnarframkvæmdir, flugvallarframkvæmdir og svo mætti áfram telja. Uppbygging innviða af þessu tagi skapar nefnilega verðmæti til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. Þetta eru framkvæmdir sem einkafyrirtæki eiga að sjá um. Það er líka verðmætasköpun fólgin í því að bæta rekstrarskilyrði meðalstórra og lítilla fyrirtækja en það eru fyrirtækin sem keyra efnahagslífið áfram að stórum hluta.

Sumir hafa talað fyrir því að fjölga þurfi opinberum störfum í þeim tilgangi að minnka atvinnuleysið. Það er vond hugmynd að blása báknið út, því mikill kostnaður er fólginn í því að fjölga slíkum störfum. Vonandi mun ferðaþjónustan taka við sér, en hvort sem fólki líkar betur eða verr þá er hún sú atvinnugrein sem skapað hefur mestu gjaldeyrisstekjurnar hér á síðustu árum. Meiri en sjávarútvegur og áliðnaður. Þegar hún tekur við sér þá munu fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfa á starfsfólki að halda og það er ekki auðvelt að sækja það til hins opinbera. Annað sem stjórnvöld þurfa að hafa í huga er spurningin um það hvort þjóðin sé orðin of háð ferðaþjónustunni og hvernig hægt sé að fjölga eggjunum í körfunni.

Þó að kreppan núna hafi haft mjög neikvæð áhrif á afkomu hins opinbera þá er líka ágætt að horfa stundum á jákvæðu hliðarnar. Þessi kreppa kom nefnilega á ágætum tíma fyrir okkur. Skuldastaða hins opinbera hafði batnað mjög hratt frá bankahruni. Í stað þess að vera stórskuldug gagnvart umheiminum þá námu eignir umfram skuldir þriðjungi af landsframleiðslu. Þá var efnahagur heimila og fyrirtækja almennt nokkuð sterkur áður en kreppan skall á. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.