Heimurinn stendur frammi fyrir risavöxnu viðfangsefni, sem er að fást við þær loftslagsbreytingar og þá röskun á veðrakerfum jarðarinnar sem orðið hafa á síðustu árum og áratugum. Það verður ekki öðruvísi gert en með því að hverfa frá notkun á jarðefnaeldsneyti, sem hefur í för með sér losun á gróðurhúsalofttegundum, og færast yfir í notkun á endurnýjanlegri orku. Loftslagsmál eru orkumál, enda má rekja um 65% af heildarlosun heimsins til orkunotkunar - að langmestu leyti notkunar á jarðefnaeldsneyti.

Þjóðir heims hafa áttað sig á þessum raunveruleika og árið 2015 gerðu þær með sér samkomulag í París, sem hefur það markmið að halda hlýnun jarðar á þessari öld innan tveggja gráða á Celsíus . Það þýðir í raun og veru að í heiminum verða að eiga sér stað orkuskipti. Það verkefni er tröllaukið og það verður ekki leyst nema í sameiningu allra þjóða, allra fyrirtækja og allra einstaklinga. Við verðum öll að leggja okkar af mörkum.

Sameiginlegt verkefni allra

Til þess að Ísland geti náð markmiðum sínum um minni losun þarf samfélagið að fara í orkuskipti á landi, lofti og sjó. Þess vegna er mikilvægt að atvinnulíf, sveitarfélög, orkufyrirtæki og yfirvöld eigi í samstarfi um að byggja upp þá innviði sem þarf fyrir orkuskipti. Slík uppbygging styður við atvinnuuppbyggingu og græna framtíð um allt land. Landsvirkjun, Strætó, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin efndu nýverið til samstarfs um greiningu á hentugasta orkugjafa fyrir Borgarlínu með það að markmiði að orkugjafinn verði bæði vistvænn og innlendur. Rafeldsneyti eins og vetni, rafhlöður og metan hafa mismunandi eiginleika og hefur framþróun í þessum orkugjöfum verið hröð undanfarið. Almenningsvagnar sem ganga fyrir vetni eru víða komnir í notkun og framleiðsla er þegar hafin á flutningabílum og fiskiskipum sem ganga fyrir vetni.

En hvernig á mannkynið að ná settum markmiðum og draga úr losun og hvernig á það að koma þessu risastóra verkefni, sem felst í allsherjar orkuskiptum, í framkvæmd? Heimurinn þarf um 8.600 TWst af nýrri árlegri endurnýjanlegri raforkuvinnslu fyrir árið 2030 til að ná markmiðum í loftslagsmálum að mati Alþjóðaorkumálastofnunarinnar ( IEA ). Það er 130% aukning á rúmum áratug. Sú orka verður að koma úr endurnýjanlegum orkugjöfum svo sem vatnsorku, jarðvarma, vindorku og sólarorku.

Umgjörð

Orkumarkaðir leika lykilhlutverk í orkuskiptunum. Reglugerðir, hvatakerfi og fyrirkomulag á raforkumörkuðum hafa mikil áhrif á það hvernig og hvort endurnýjanleg orka kemur í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við Íslendingar séum aðilar að stórum raforkumarkaði, þar sem reglugerðir miða markvisst að því að auka hlut endurnýjanlegrar orku og vinna þannig að markmiðum Parísarsamningsins.

Það er gert meðal annars með því að auðvelda samþættingu endurnýjanlegrar orku inn á flutningsnetið, tryggja að markaðurinn veiti áreiðanleg merki um framtíðarfjárfestingu í endurnýjanlegum orkugjöfum, betri orkunýtingu og með dreifistýrðu orkukerfi með sjálfstæðum orkuframleiðendum í bland við stærri framleiðendur endurnýjanlegrar orku.

Hvatakerfi án þvingana

Það er líka mikilvægt að fyrir hendi sé hvatakerfi, sem ýti undir fjárfestingu í endurnýjanlegri orku. Víða um heim hefur verið komið á kerfi svokallaðra grænna skírteina, þar sem endurnýjanlegi þátturinn í orkuvinnslunni hefur verið gerður að sjálfstæðri söluvöru. Þannig eykst arðsemi grænna verkefna og þau fá þannig forskot. Þetta er ekki gert með þvingunum, heldur geta viðskiptavinir á raforkumarkaði valið um að borga sérstaklega fyrir græna þáttinn og styðja þannig við enn meiri uppbyggingu á grænni raforku. Ísland er í sérstöðu hvað þetta varðar þar sem öll orkuvinnsla á Íslandi er græn, samkvæmt skilgreiningum kerfis um upprunaábyrgðir. Öll framleiðsla Landsvirkjunar er því vottuð og fyrirtækið getur selt græna þáttinn sérstaklega.

Vitundarvakning og sóknarfæri fyrir íslensk fyrirtæki

Sem betur fer hefur orðið vitundarvakning á meðal almennings, bæði hér heima og á heimsvísu, um nauðsyn þess að beita öllum tiltækum ráðum í baráttunni við loftslagsbreytingar. Þetta þýðir að fyrirtæki geta ekki lengur setið hjá og látið sem þau hafi ekkert hlutverk – það er beinlínis orðin krafa neytenda að rekstur fyrirtækja sé bæði loftslags- og umhverfisvænn.

Í þessu breytta viðhorfi fólks felast ómæld sóknarfæri fyrir okkur Íslendinga. Samkvæmt heildsölusamningum fylgja græn skírteini með allri raforku sem Landsvirkjun selur sölufyrirtækjum rafmagns og þau selja áfram almenningi og almennum fyrirtækjum. Það þýðir að íslensk fyrirtæki geta sett vörur sínar á erlenda og innlenda markaði með vottun um að þær hafi verið framleiddar með endurnýjanlegri orku. Vonandi fara fyrirtæki hér að gera sér betur grein fyrir þessu samkeppnisforskoti og nýta það sér til hagsbóta.

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir er framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs hjá Landsvirkjun. Greinin birtist í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.