Starfshópur sem ég skipaði undir forystu Eyjólfs Árna Rafnssonar verkfræðings mun á næstu vikum skila tillögum um hvernig ráðast megi í stórframkvæmdir í samgöngum út frá höfuðborgarsvæðinu. Í framhaldinu verða tillögur starfshópsins kynntar á opinberum vettvangi.

Hugmyndin sem hópnum var falið að skoða er hvernig greiða megi leiðir út frá Reykjavík; til suðurs til Keflavíkurflugvallar, til austurs með nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss og til vesturs til Borgarness með Sundabraut og nýjum göngum undir Hvalfjörð. Hugmyndin er m.a. að tvöfalda þessa vegi eða notast við 2+1 vegi eftir því sem við á.

Allt eru þetta brýnar samgöngubætur sem nauðsynlegt er að ráðast í fyrr en síðar. Miðað við það fjármagn sem veitt er til nýframkvæmda í vegagerð sem er um 11 milljarðar króna á þessu ári, er ljóst að það mun taka áratugi að koma þessum samgöngubótum á, jafnvel þótt fjárframlög til vegagerðar yrðu aukin verulega frá því sem er á þessu ári – sem þó var umtalsverð aukning frá síðasta ári.

Ljóst er að brýn þörf er fyrir samgöngubætur víða um land og hvarvetna er kallað eftir auknu fé til þessa málaflokks. Ekki er að undra það, enda hefur álag á vegakerfið stóraukist á undanförnum árum og á vaxandi ferðamannastraumur til landsins þar drýgstan þátt.

Það er t.a.m. brýnt að ráðast í stórfelldar endurbætur á vegakerfinu á helstu ferðamannaleiðum, ekki síst í uppsveitum Árnessýslu, svo sem á Gullna hringnum. Fjölmarga aðra staði mætti nefna, svo sem Dettifossveg, en þar verður tekið myndarlega til hendinni á þessu ári.

Samfjármögnun

Það var með þessa sviðsmynd í huga sem ég skipaði áðurnefndan starfshóp sem hefur annars vegar það hlutverk að gera tillögur að ofangreindum framkvæmdum, en hins vegar um hvernig fjármagna megi þessar framkvæmdir án þess að þær komi við ríkissjóð. Þar lít ég til mögulegrar samfjármögnunar, þ.e. aðkomu einkaaðila að verkefninu með lánsfé. Það er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í samgöngumálum.

Samfjármögnunin yrði þannig útfærð að dregið yrði á lán til framkvæmdanna eftir því sem verkinu yndi fram, en lánið yrði síðan endurgreitt með veggjöldum sem innheimt yrðu á þessum leiðum. Áskorunin í þeim efnum felst m.a. í því að stilla saman endurgreiðslutímann og upphæð veggjaldanna. Ég sé fyrir mér að þeirri fjárhæð sem innheimt yrði í formi veggjalda yrði stillt mjög í hóf gagnvart fjölnotendum, þ.e. þeim sem oft eiga leið um umrædda vegi vegna atvinnu sinnar eða skólasóknar svo dæmi séu nefnd.

Eðlilega myndu flutningabílar, rútur og aðrir bílar sem auka vegslit að mun m.v. einkabíla, greiða hærra gjald. Sama myndi eiga við um fáskiptisnotendur, eins og erlenda ferðamenn, en hið mikla álag sem nú er á þjóðvegakerfinu er ekki síst af þeirra völdum. Þar erum við komin með stórnotanda sem sjálfsagt er að fá til að aðstoða okkur við uppbyggingu samgöngumannvirkja. Útlendingar þekkja veggjöld vel af eigin raun, enda innheimt víða um heim.

Forgangsraðað í þágu umferðaröryggis

Út um allt land er kallað eftir endurbótum á vegakerfinu. Með því að taka áðurnefndar stórframkvæmdir út fyrir sviga, ef þannig má að orði komast, mun skapast rými til að ráðast hraðar og fyrr í brýn verkefni um land allt sem mörg hver hafa beðið allt of lengi og goldið þess að fjármunir til vegagerðar eru af skornum skammti – þótt reyndar hafi verið bætt vel í á þessu ári miðað við síðustu ár.

Ég hef áður lýst því yfir að ég vil horfa til aukins umferðaröryggis þegar forgangsraðað er í vegagerð. Með því að ráðast í áðurnefndar framkvæmdir mun umferðaröryggi aukast að stórum mun, leiðir verða greiðari og styttri í einhverjum tilvikum. Þar mun sparast eldsneyti, ferðatími og útblástur minnka.

Þetta mun ekki bara eiga við um leiðirnar út frá höfuðborginni, heldur líka um aðrar þær leiðir víða um land sem njóta munu aukinna fjárframlaga til vegagerðar – einmitt vegna þess að framkvæmdir í nágrenni höfuðborgarinnar verða fjármagnaðar með öðrum hætti.

Höfundur er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.