*

fimmtudagur, 24. september 2020
Leiðari
11. júlí 2020 14:05

Stórfyrirtæki þá og nú

Stærstu fyrirtæki heims í dag voru flest mjög lítil eða hreinlega ekki til fyrir 20 árum.

Apple er verðmætasta skráða fyrirtæki heims, með heildarverðmæti upp á 1.660 milljarða Bandaríkjadala, ígildi um 232 þúsund milljarða íslenskra króna.
epa

Á þeim rúma fimmtungi sem er liðinn af þessari öld hefur heimurinn breyst mikið. Internetið og farsímar voru svosem komin til sögunnar um aldamótin, og Bandaríkin raunar svo til á hápunkti tæknibólu, sem átti eftir að springa stuttu seinna og lita þróun hátæknigeirans verulega.

Sá heimur sem við þekkjum í dag, þar sem við göngum um með nettengdar ofurtölvur í vasanum, og lítum flest á þær nánast sem nýjan útlim sem við erum bjargarlaus án, hafði ekki byrjað að taka á sig mynd.

Stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna voru iðnaðarfyrirtæki. Facebook var ekki til, Apple hafði ekki gefið út iPodinn, flestir notuðu AltaVista til að leita á internetinu frekar en Google, og Netflix var lítið fyrirtæki sem sendi DVD diska í pósti.

Svipaða sögu er að segja af Amazon, sem var þá aðeins sex ára gamalt. Í dag eru þetta meðal stærstu fyrirtækja heims og tekjur hvers og eins á við þjóðríki. Amazon velti tæpum 40 þúsund milljörðum króna í fyrra. Landsframleiðsla Íslands er um 3 þúsund milljarðar.

Á sviði alþjóðastjórnmála og efnahagsstjórnar réði hinn svokallaði Washington-samhljómur (e. Washington consensus) ríkjum, eftir fall Sovétríkjanna og þar með lyktir kalda stríðsins áratug fyrr.

Bandaríkin og þeirra efnahagsstefna höfðu staðið uppi sem sigurvegari, og mikil þverpólitísk samstaða var um ágæti frjáls markaðar, alþjóðaviðskipta og alþjóðlegrar samvinnu. Evran tók við af 12 sjálfstæðum evrópskum myntum um aldamótin.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Stuðningur við alþjóðaviðskipti og alþjóðlega samvinnu er á undanhaldi, og alræði og aukin völd æðstu ráðamanna á mörgum stöðum á uppleið.

Á sama tíma hafa umsvif og ítök stóru tæknirisanna vaxið stjarnfræðilega, og flestir eru þeir nú orðnir órjúfanlegur hluti okkar daglega lífs. Margir hafa líkt starfsemi þeirra við grunninnviða- og veitustarfsemi, og sem slíkir hafa flestir skoðanir á því hvernig henni skuli háttað.

Síðustu ár hafa verið haldnar yfirheyrslur í Bandaríkjaþingi vegna uppljóstrana um ýmislegt misjafnt í starfsemi Facebook, auk þess sem forsetinn hefur nýlega staðið í stappi við Twitter vegna meðhöndlunar þess á tístum hans.

Á sama stendur víða til að setja upp 5G farsímakerfi sem hannað er af kínverska fyrirtækinu Huawei, en Bandaríkin og fleiri hafa sakað fyrirtækið um persónunjósnir í gegnum vélbúnað þess, og í mörgum löndum hefur verið hætt við eða tekið fyrir uppsetningu símakerfis Huawei.

Í ofanálag er svo spurningin um hvar og í hvaða mæli fyrirtækin skuli borga skatta af stjarnfræðilegum rekstrartölum, enda starfsemin ekki efnislega staðbundin eins og risanna um aldamótin.

Niðurstaðan hefur verið sú að lönd keppast við að bjóða stórfyrirtækjum sérstaka afslætti, svo lítið eða ekkert verður af skattlagningu þeirra, á meðan minni félög sem jafnvel hyggja á samkeppni við þau, fá ekki sömu kjör.

Hafa margir bent á stjórnendur fyrirtækjanna í þessu sambandi og sakað um siðleysi og annað. Viðskiptablaðinu þykir hins vegar til lítils að ræða innræti og mannkosti einstakra stjórnenda. Ljóst er að á meðan lögin leyfa slíka skattaferðamennsku er ansi mikill þrýstingur á að þær heimildir verði nýttar, og líklega væru viðkomandi stjórnendur ekki í sínum stöðum ef þeir væru ekki tilbúnir að fara þá leið.

Á meðan hvert ríki reynir að fara sínar eigin leiðir í að koma böndum á starfsemi tæknirisanna og sefa áhyggjur almennings, verður niðurstaðan líkast til sú að fæstir ná að koma þeim umbótum í kring sem kjósendur vilja.

Hinn möguleikinn er að regluverk alþjóðlegra tæknifyrirtækja verði svo misjafnt í mismunandi löndum að sá nýi stafræni heimur sem er orðinn óaðskiljanlegur hluti af lífi okkar flestra, og hefur fært umheiminn svo mikið nær okkur, sundrast á ný.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.