*

þriðjudagur, 21. september 2021
Óðinn
17. mars 2021 07:20

Stórkaupmaðurinn og meðvirknin í OR

Getur verið að hlutverk upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar sé eitthvað annað en venjulegt fólk leggur upp úr starfinu, að veita upplýsingar?

Dagur B. Eggertsson, Bolli Kristinsson og Eiríkur Hjálmarsson.

Eiríkur Hjálmarsson, fyrrum upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar og nú sérfræðingur veitunnar í samfélagsábyrgð, gekk fremur hratt inn um gleðinnar dyr á föstudagskvöld.

Í pistli á Facebook gagnrýndi hann harðlega auglýsingu kostaða af Bolla Kristinssyni, fyrrverandi kaupmanni á Laugavegi. Óðinn hefur hlustað á auglýsinguna og finnst hún álíka ómálefnaleg og margt sem sagt er í stjórnmálunum þessi dægrin. Þar eru samflokksmenn Dags B. Eggertssonar ekki heldur saklausir.

Það er einkennilegt að Bolli skuli fara fram með þessa auglýsingu, eins þokukennd og hún er, eftir að hafa beðist afsökunar á rangfærslum í myndbandi, þar sem því var haldið fram að Dagur hefði keypt þrjú bílastæði við heimili sitt af Reykjavíkurborg.

* * *

Aðstoðarmaður borgarstjóra
Eiríkur Hjálmarsson ætti að þekkja stjórnmálin og söguna ágætlega eftir að hafa verið aðstoðarmaður tveggja borgarstóra, þeirra Þórólfs Árnasonar og Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, á árunum 2003-2006. Er þetta í fyrsta sinn sem ráðist er að borgarstjóra í Reykjavík með ómálefnalegum hætti? Svarið er nei.

En Eiríkur Hjálmarsson er engu betri en Bolli Kristinsson í pistli sínum þar sem hann ræðst á flest félög atvinnurekenda og þrjá fjölmiðla, án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt. Þetta hafði gamli upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar að segja á föstudagskvöldið:

„Fyrrverandi kaupmaðurinn átti sér undanfara og á sér nokkra bergmálara á Mogganum og núorðið líka í Fréttablaðinu. Viðskiptablaðið afritar-og-límir allt Borgartúnsbullið og er alveg sér á báti í þessu samhengi. Þannig getum við blaðalesarar fengið á tilfinninguna að það sé allt í voða í borginni.“

Nú minnir Eiríkur Hjálmarsson meira á áróðursmálaráðherra en upplýsingafulltrúa í opinberri stofnun. Hvar eru rökin fyrir þessu? Er Eiríkur virkilega að segja að þessir þrír fjölmiðlar séu sammála kaupmanninum sem fór rangt með staðreyndir? Ætli Eiríkur sé jafn stór maður og Bolli og biðjist afsökunar á þessu rakalausu ásökunum?

* * *

Hvernig væri að líta sér nær
Fyrir nokkrum vikum gagnrýndi Óðinn ýmsar athafnir Orkuveitunnar. En það sem mikilvægara er, þá voru þar spurðar áleitnar spurningar um þetta opinbera fyrirtæki sem nýtur algjörra markaðslegra yfirburða. Síðan þá hafa orkusamningar við Norðurál verið opinberaðir. Af þessum samningum að dæma hefur Orkuveitan selt orku til stórnotenda langt undir kostnaðarverði. Orkuverðið er þekkt en kostnaðarverðið er óljóst og þrátt fyrir að erlend ráðgjafarfyrirtæki haldi fram hvert kostnaðarverðið sé þá er eðlilegra að gefa Orkuveitunni kost á því að útskýra sína hlið málsins.

* * *

En þrátt fyrir alla starfsmennina sem sinna „samskiptum og samfélagi“, með öðrum almannatengslastörfum, innan samstæðu Orkuveitunnar, þá komu engin svör við spurningum Óðins. Óðinn veit hins vegar að þetta fór ekki framhjá allri almannatengsladeildinni því undan skrifunum var kvartað.

* * *

Sérhagsmunir og almannahagsmunir
Eiríkur Hjálmarsson nefndi oft í pistli sínum að þetta snerist um sérhagsmuni og almannahagsmuni. Það er einmitt það sem þetta mál snýst um. Það eru sérhagsmunir ef Orkuveitan selur álfyrirtæki raforku á undirverði og mætir tapinu með því að velta kostnaðinum yfir á Reykvíkinga og aðra á þjónustusvæði Orkuveitunnar sem kaupa af fyrirtækinu raforku, heitt vatn og vatn. Heitt vatn og kalt vatn er einokunarstarfsemi og ítrekað hefur verið kvartað undan einokunartilburðum vegna raforkunnar.

Getur verið að hlutverk upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar sé eitthvað annað en venjulegt fólk leggur upp úr starfinu, að veita upplýsingar?

* * *

Það er merkileg tilviljun að þeir tveir einstaklingar sem hafa séð um starf upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar síðustu 15 árin hafa báðir haft mikil tengsl við þann meirihluta sem ræður nú í borginni.

* * *

Eins og áður sagði kom málshefjandinn Eiríkur Hjálmarsson úr ráðhúsinu þar sem hann var aðstoðarmaður borgarstjóra. Í fréttatilkynningu þegar ráðning Eiríks sem aðstoðarmanns var kynnt árið 2003 sagði:

„Eiríkur átti sæti í miðstjórn Alþýðubandalagsins og í Stúdentaráði fyrir Félag vinstri manna á níunda áratugnum, en hefur ekki verið virkur í stjórnmálastarfi síðan.“

Eiríkur skipti um starf korteri fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 en þá höfðu skoðanakannanir sýnt að meirihluti þeirra flokka sem stóðu að Reykjavíkurlistanum var fallinn. Það varð og raunin.

* * *

Sú sem tók við Eiríki heitir Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir. Hún tók við starfi forstöðumanns Samskipta og samfélags hjá Orkuveitu árið 2020. Þegar Bryndís Ísfold var ráðin kosningastjóri Samfylkingarinnar fyrir alþingiskosningarnar 2016 var greint frá því að Bryndís hefði verið virk í Samfylkingunni frá stofnun flokksins og verið varaborgarfulltrúi flokksins í sjö ár.

* * *

Hin pólitíska blinda
Óðinn telur að þótt fólk taki þátt í stjórnmálum, líkt og Eiríkur og Bryndís, þá sé ekki sanngjarnt að dæma það úr leik og það geti ekki starfað hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum. Hins vegar má gera þá lágmarkskröfu að þau láti ekki persónulega pólitíska sýn eða flokkspólitíska hagsmuni ráða för í störfum sínum.

* * *

Óðinn veltir því fyrir sér hvort almannahagsmunir eða sérhagsmunir, flokkshagsmunir eða einkahagsmunir hafi ráðið för við ráðningu Eiríks og Bryndísar. Hver og einn verður að svara þeirri spurningu fyrir sig.

Það er hins vegar ekki vafi á því að almenningur í Reykjavík hefur bæði meiri hagsmuni og áhuga að vita hvort hann sé að niðurgreiða raforku til álfabrikku uppi á Grundartanga, og ef til vill víðar.

Er ekki lágmarkskrafa að upplýsa um það?

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.