*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Leiðari
10. maí 2019 16:01

Stórmenni og áhyggjur Volckers

Ef eitthvað er að marka Volcker er ástæða til að vera betur vakandi yfir stórkarlalegum lítilmönnum í ábyrgðarstöðum þessa dagana.

Paul Volcker ásamt Alan Greenspan. Báðir eru þeir fyrrverandi seðlabankastjórar Bandaríkjanna.
Aðsend mynd

Viðburðaríkur vetur er að baki og margir atburðir verða sjálfsagt lengi í minnum hafðir. Lengsta hagvaxtartímabili lýðveldissögunnar lauk í vetur – ekki með hvelli í þetta sinn, heldur var lendingin sem betur fer mun nettari og mýkri en síðast. Stéttaátök af gamla skólanum tóku sig upp að nýju og orð eins og „auðvaldssinnar“ og „kommúnistar“ gengu í endurnýjun lífdaga í fjölmiðlum eftir langt hlé. Til allrar hamingju tókst forsvarsmönnum vinnumarkaðarins að lenda þeim viðræðum stórskaðalaust. 

Ekki voru þó allar lendingar jafn giftusamlegar, því miður. Landsmenn voru með öndina í hálsinum þegar þer fylgdust með æsilegu aðflugi Wow í allan vetur. Félagið hafði flogið hátt árin á undan og opnað landið upp á gátt en áhyggjur fóru vaxandi af því að stjórnendur félagsins kynnu að hafa farið of nærri sólinni. Nær daglega birtust fréttir af forstjóra félagsins etja kapp við þröngsýna fjármagnseigendur sem skorti ímyndunarafl til að sjá framtíðarlandið sem forstjórinn sá úr mikilli hæð og boðaði af miklum sannfæringarkrafti. Allt kom fyrir ekki og niðurstaðan var brotlending. 

Það er merkileg staðreynd út af fyrir sig að heil þjóð hafi beðið í ofvæni eftir einum manni. Og ekki að ósekju. Samkvæmt hagspám greiningardeilda og opinberra stofnana valt það meira og minna á einum manni hvort kreppa og atvinnuleysi væri í aðsigi og hvort fasteignaverð og vextir myndu lækka eða hækka. Það er kannski lýsandi að kjarasamningar voru undirritaðir nánast um leið og Wow varð gjaldþrota. Forstjóri Wow er ekki eini „stóri karlinn“ sem gustað hefur af, þeir eru úti um allt í kringum okkur. 

Paul Volcker er stór maður. Bæði bókstaflega, en hann er 2,04 metrar hæð, en líka í sögulegu samhengi. Hann stýrði Seðlabanka Bandaríkjanna á árunum 1979-1987 og er stefnu hans og harðfylgni gjarnan þakkað að verðbólgudrauginn var kveðinn niður. Um það leyti sem þrautaganga Skúla hófst síðastliðið haust gaf Public Affairs út endurminningar Volckers í bókinni „Keeping at It“. 

Volcker er kominn yfir nírætt og man vel eftir Hitler, Churchill og Stalín og fleiri stórum mönnum sem hafa sett svip sinn á söguna. Það vakti athygli að í endurminningunum er litið fjallað um einstakar persónur þótt Volcker hafi persónulega þekkt helstu stórmenni veraldarsögunnar á síðari hluta tuttugustu aldar og geti án efa slegið um sig með ótal gamansögum af forsetum og auðjöfrum þegar sá gállinn er á honum. 

Eins og svo margir sem á efri árum fjalla um samtímann þá líst Volcker ekki á blikuna. Þrátt fyrir að hafa þungar áhyggjur af þróun heimsmálanna undanfarin ár eru Donald Trump og Hillary Clinton bara einu sinni nefnd á nafn í bókinni. Ólíkt kollegum sínum, Alan Greenspan og Mervin King, sem eyddu miklu púðri í að skjóta á fræðin og opinberar stofnanir í endurminningum sínum, þá staldrar Volcker lítið við þessa þætti. Það eru ekki hættuleg stórmenni, misskilin fræði eða afvegaleiddar opinberar stofnanir sem halda vöku fyrir Volcker í ellinni. Það eru einstaklingarnir sem veljast til ábyrgðar sem Volcker hefur áhyggjur af. Hann efast til að mynda um að forstjórar fjármálafyrirtækja séu í dag fimmtíufalt mikilvægari en þeir voru fyrir fjörutíu árum. Allavega bendi tölur um hagvöxt og fjármálakreppur ekki til þess að stéttin hafi skilað betra starfi og eigi skilið fimmtíuföld laun á við forvera sinna. 

Volcker hnýtir ekki eingöngu í forstjóra og bankamenn heldur eru stjórnmálamenn, stjórnendur opinberra stofnana, hagsmunaverðir o.s.frv. undir sama hatt settir. Meira að segja háskólafólk hefur að mati Volckers brugðist og ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi. Áhyggjur Volckers stafa af skorti þessara einstaklinga á borgaralegum skyldum og ábyrgð. Þeir séu þröngsýnir og ófærir um að gefa þumlung eftir í þágu samkomulags fyrir heildina. 

Ef eitthvað er að marka Volcker er ástæða til að vera betur vakandi yfir stórkarlalegum lítilmönnum í ábyrgðarstöðum þessa dagana. Þótt nútímafólk sé allajafna framsækið er allavega tilefni til að hafa varnaðarorð reynsluboltans á bak við eyrað.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.