*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Leiðari
19. maí 2016 14:12

Stormur í aðsigi

Vandi Seðlabankans er margþættari og alvarlegri en ætla mætti við fyrstu sýn.

Birgir Ísl. Gunnarsson

Í síðustu viku var á þessari síðu fjallað um þann vanda Seðlabankans, sem felst í því að hann hefur eingöngu vaxtatækið til að takast á við verðbólguna, hvenær sem hún kann að láta á sér bera á ný. Í kjölfarið fékk leiðarahöfundur ábendingu um að vandi Seðlabankans væri margþættari og alvarlegri en ætla mætti við fyrstu sýn. 

Eigið fé Seðlabankans, samkvæmt ársskýrslu bankans, var 78,8 milljarðar króna um síðustu áramót. Gjaldeyrisforðinn er hins vegar orðinn um 750 milljarðar króna, samkvæmt Peningamálum sem komu út í síðustu viku. Stærð gjaldeyrisforðans og vaxtamunurinn við útlönd er gríðarstór og illviðráðanlegur vandi fyrir bankann.

Seðlabankinn gefur út krónur sem eru skuld bankans. Bankinn selur síðan þessar skuldaviðurkenningar á gjaldeyrismarkaði til erlendra aðila í skiptum fyrir gjaldeyri. Hann selur krónur og kaupir mest evrur. Evrur eru með neikvæða vexti í dag og því fær Seðlabankinn enga vexti á evrueign sína en þarf að borga 5,75% (eða hærra þegar fram líður) vexti á krónuskuld sína.

Vaxtamunurinn sem bankinn glímir við er því um sex prósent nú og eru meiri líkur á því að hann aukist en minnki á næstu misserum og árum. Sex prósent af 750 milljörðum eru 45 milljarðar króna á ársgrundvelli. Það tæki því aðeins átján mánuði aðþurrka upp eigið fé Seðlabankans á þessum kjörum.

Mikið mun ráðast af því hvernig fjárfestar, innlendir sem erlendir, munu bregðast við því þegar gjaldeyrismúrinn fellur. Efnahagsástandið á Íslandi er miklu betra en í flestum ríkjum í kringum okkur og allt bendir til þess að næstu tvö árin hið minnsta verði tímabil myndarlegs hagvaxtar á meðan vart mælist hjartsláttur í hagkerfunum í kringum okkur, einkum í Evrópusambandinu.

Líklegt má því telja að talsvert af fjármunum muni streyma inn í landið þegar létt verður á höftunum. Ætli Seðlabankinn að sporna við ofrisi krónu mun gjaldeyrisforðinn vaxa í takt við það. Hann gæti hæglega vaxið um 500 milljarða króna en allt eins er líklegt að vöxturinn nemi 1.000 milljörðum. Þá væri forðinn orðinn á bilinu 1.300-2.000 milljarðar.

Á móti kemur útflæði fjármagns frá Íslandi. Lífeyrissjóðir hafa uppbyggða þörf fyrir erlenda fjárfestingu upp á um 400 milljarða. Jöklabréfin munu kosta í útgöngu um 250 milljarða. Þetta er það sem við vitum um, en eflaust er hér einnig að finna annað fjármagn sem vill út. Fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna og jöklabréfin eru samtals um 650 milljarðar króna. 

Ef við gerum aðeins ráð fyrir því að 500 milljarðar komi inn í landið á móti mun forðinn verða um 650 milljarðar króna og myndi eigið fé bankans þurrkast upp á tveimur árum. Fari hins vegar svo að 1.000 milljarðar komi inn við afnám hafta myndi eigið fé ekki duga nema í rétt rúma fjórtán mánuði.

Erfitt er að sjá hvernig á að koma í veg fyrir þetta nema Seðlabankinn ákveði í ljósi vaxtamunarins við útlönd að gefast upp á því að koma í veg fyrir styrkingu krónunnar. Þetta undirstrikar líka hættuna, sem fjallað var um í síðasta blaði, sem felst í því að styðjast við vaxtatækið í baráttunni við verðbólguna í litlu, opnu hagkerfi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.