*

laugardagur, 25. september 2021
Huginn og muninn
11. september 2021 08:55

Stormur í vatnsglasi

Með sárasaklausum ummælum setti Egill Helgason allt á hliðina hjá sósíalistum þessa lands og Gunnar Smári snöggreiddist.

Gunnar Smári, Kristrún Frostadóttir og Egill Helgason í Silfrinu um síðustu helgi.
Skjámynd RÚV

Silfrið hóf göngu sína á ný um síðustu helgi. Í umræðum um umhverfismál sagði Gunnar Smári Egilsson, forystumaður Sósíalistaflokksins, að ekki væri hægt að leysa loftslagsmálin „með þeim sem eru valdir af þeim sem er auðvaldið“. Þá sagði Egill Helgason stjórnandi þáttarins: „En svo eru aðrir sem myndu segja, kapítalisminn býr yfir dýnamík sem þarf til að finna hinar grænu lausnir?“

Var þetta nóg til að setja allt á hliðina á meðal sósíalista þessa lands, sem margir töldu ummælin brottrekstrarsök. Er þetta einhver svakalegasti stormur í vatnsglasi sem hrafnarnir muna eftir.

Þegar Egill minnti síðan Gunnar Smára á að sósíalistaríkin í Austur-Evrópu hefðu mengað svo mikið að súrt regn hafi fallið í Vestur-Þýskalandi snöggreiddist sósíalistaforinginn og sagði þetta ekki boðlegan málflutning þáttastjórnanda. Menn sem kenna sig við sósíalisma verða að vera með breiðara bak en þetta, sérstaklega þegar þeir sjálfir eru sífellt með alhæfingar um „grimmdarveröld“ kapítalismans. Hrafnarnir viðurkenna að þeir hafa stundum leitt hugann að því hvort þetta framboð Gunnars Smára sé einhvers konar gjörningur eða kannski bara lengsta atvinnuviðtal sögunnar, sem hófst, eins margir muna en þó ekki allir, með stofnun Fésbókarhópsins „Ísland – 20. fylki Noregs.“

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.