*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Óðinn
10. mars 2020 07:04

Stórsigur einkareksturs í heilsugæslu

Við hljótum að geta náð samkomulagi um að láta heilbrigðissjónarmið og árangur ráða för, ekki kreddur liðinnar aldar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Óðinn hefur enga trú á því að núverandi heilbrigðisherra, Svandís Svavarsdóttir, vilji annað en að heilbrigðiskerfið sé gott. Hins vegar eru engar líkur á að slíkt kerfi verði sótt úr smiðju Alþýðubandalagsins sáluga, þar sem Svandís var alin upp. Þvert á móti.

                                          ***

Svandís hefur verið svarinn andstæðingur einkareksturs í heilbrigðiskerfinu lengi og eftir að hún varð heilbrigðisráðherra hefur hún leynt og ljóst lagt stein í götu einkarekstursins. Skýrasta dæmið er vilji ráðherrans að senda heldur sjúklinga til Svíþjóðar á Saga Class, ásamt maka, heldur en upp í Ármúla með gríðarlegum tilkostnaði fyrir skattgreiðendur.

                                          ***

Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra, lét árið 2016 fara fram útboð á rekstri þriggja heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu þegar biðtími eftir heilsugæslulækni var víða kominn í fjórar vikur, en markmiðið var að biðtíminn væri sólarhringur. Að þessum fjórum viknum liðnum var sjúklingurinn einatt orðinn frískur eða kominn undir græna torfu. Sem varla er nokkur lausn nema í Excel-skjölum ráðuneytisins.

                                          ***

Um leið og rekstur heilsugæslustöðvanna var boðinn út var tekið upp nýtt rekstrarmódel fyrir heilsugæslustöðvarnar. Þær fá því greitt úr ríkissjóði eftir því hvers konar sjúklinga og verkefni heilsugæslustöðvarnar fást við. Það er því jafnræði meðal stöðvanna þó að kerfið sé vitaskuld ekki fullkomið, frekar en önnur kerfi.

                                          ***

Í febrúar voru birtar niðurstöður könnunar um þjónustu heilsugæslustöðvanna á höfuðborgarsvæðinu. Þar kom í ljós að einkareknar heilsugæslustöðvar eru í sérflokki þegar kemur að gæðum þjónustu. Þeir sem sækja þjónustu til einkareknu stöðvanna eru mun ánægðari en á ríkisreknu stöðvunum.

                                          ***

Svandís Svavarsdóttir skrifaði grein í Morgunblaðið og gerði mikinn árangur hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins að umtalsefni. En gleymdi að minnast á að árangurinn er ekki þeirri stofnun að þakka heldur einmitt þeim læknum, sem hafa þorað að fara út í sjálfstæðan rekstur og hafa náð frábærum árangri á einkareknu heilsugæslustöðvunum.

                                          ***

Að ljúga að öðrum en sér er ljótur vani, að ljúga að sjálfum sér er hvers manns bani. Óðinn efast ekki um gáfur Svandísar Svavarsdóttur. Það eru því engar líkur á því að hún viti ekki betur, en það er ekki fallegt að segja kjósendum sínum ósatt.

                                          ***

Sérstaka athygli vekur í könnuninni yfirburðir Heilsugæslunnar Höfða. Sú heilsugæslustöð, sem rekin er í miðju iðnaðarhverfi í húsnæði, sem var byggt fyrir netagerð hjá Hampiðjunni, skoraði hæst í 8 af 9 spurningum í könnuninni. Í þeirri sem Höfðaheilsugæslan var ekki hæst, heldur í þriðja sæti, var spurt hvort sjúklingnum hafi fundist hann taka mikinn eða lítinn þátt í ákvörðun um meðferð. Eins og flestum sé ekki sama um það svo lengi sem rétt meðferð verði fyrir valinu!

                                          ***

Kristján Þór Júlíusson hefur ekki gert margt gáfulegt á sínum langa stjórnmálaferli en útboðið á heilsugæslustöðvunum var það sannarlega. En um leið var tekin upp sú fáránlega regla að heilsugæslustöðvar mættu ekki greiða sér út arð. Með öðrum orðum þá mega þeir sem leggja einkareknu heilsugæslustöðvunum fé í formi hlutafjár ekki fá eðlilega ávöxtun á þeim fjármunum.

                                          ***

Með þessu kerfi verður til stöðnun. Læknarnir sem fást við vandamálin og þekkja lausnirnar þurfa fyrst að sannfæra möppudýrin í ráðuneytunum um nauðsyn þjónustunnar. Á meðan — og það geta verið ár og áratugir — geta þeir ekki fengið meðfjárfesta að stöðvunum, til dæmis til að kaupa dýr tæki, og boðið sjúklingum sínum betri þjónustu gegn greiðslu. Sem er algerlega fráleitt í ljósi þess að í fáum greinum eru jafnörar og jafnmiklar framfarir og í læknavísindunum og í engri annarri grein er jafnmikið undir að þar sé beitt nýjustu þekkingu og tækni.

                                          ***

Þar ræðir um líf og heilsu fólks, en hjá stjórnmálamönnunum virðast kreddur um rekstrarform skipta meiru máli, að í þeirri grein græðara megi enginn græða neitt. Úr sömu hornum heyrast svo kveinstafir um að greinin sé aldrei nógu vel fjármögnuð!

                                          ***

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu hinn 13. ágúst 2018 sagði Svandís: Jafn aðgangur að heilbrigðisþjónustu er lykilatriði. Því markmiði má ná með félagslega reknu heilbrigðiskerfi. Það skiptir máli að heilbrigðiskerfið sé rekið á félagslegum forsendum því aðeins með þess konar rekstrarformi getum við boðið upp á sterkt heilbrigðiskerfi sem býður góða þjónustu, án þess að mismuna á grundvelli efnahags. Efnahagur fólks á ekki að hafa áhrif á það hvers kyns heilbrigðisþjónustu það hefur kost á.

                                          ***

Það er gríðarlegur misskilningur hjá stjórnmálamönnum eins og Svandísi að fólk vilji ekki greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Að sjálfsögðu vill fólk síður greiða fyrir hana á sama tíma og tekjuskattar eru í hæstu hæðum. En meðalJóninn vill miklu heldur greiða eitthvað til að þess að þurfa ekki að lifa í ótta og óvissu, kvalinn og heilsuveill á biðstofum kerfisins.

                                          ***

Þeir sem eru efnameiri, hvað þá efnamiklir, munu ætíð geta keypt sér auknar tryggingar og þjónustu heilbrigðisstofnana. Bæði hér á landi og erlendis. Það getur ekki verið markmiðið með ríkisreknu heilbrigðiskerfi á Íslandi að þykjast koma í veg fyrir það. Það mun aðeins bitna á þeim sem minnst mega sín.

                                          ***

En kerfið sem Svandís og skoðanasystkini hennar á vinstri vængnum vilja er ávísun á biðraðir. Það er einkennilegt, og ekki líklegt til árangurs í næstu alþingiskosningum, að Sjálfstæðisflokkurinn liggur í þessu máli, sem svo mörgum öðrum, í sóttkví með alvarleg einkenni af Kínakvefinu og kemur ekki upp orði. Það er ekki heldur eins og hann reyni að lina þrautirnar, hvað þá leita sér lækninga, heldur er engu líkara en að í heilbrigðismálum sé metnaður flokksins að koma sér fyrir á líknardeildinni.

                                          ***

Þetta er þeim mun furðulegra fyrir það að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í sögulegu samhengi ævinlega verið með heilsteypta stefnu í heilbrigðismálum og átti raunar mikinn þátt í að móta heilbrigðis-kerfið á sínum tíma, einmitt þegar hann var öflugastur og átti mestan hljómgrunn hjá kjósendum.

                                          ***

Enn grátlegra er það auðvitað fyrir hitt, að það er ekki svo að innan Sjálfstæðisflokksins hugsi menn ekki um heilbrigðismál lengur. Öðru nær, eins og sjá má af öflugum umræðum og ályktunum landsfunda um þau, líflegum opnum fundi um heilbrigðismál sem verkalýðsarmur flokksins gekkst fyrir í liðinni viku, eða ýmsu því sem hægrimenn (utan sem innan þess flokks) hafa haft til málanna að leggja um þau á opinberum vettvangi. Stofnandi þessa blaðs, Óli Björn Kárason, hefur margt mælt og skynsamlega um heilbrigðismál í mörg undanfarin ár, en samt er eins og flokksforystan hafi bara ákveðið að gefa málaflokkinn frá sér og eftirláta sértrúarsöfnuði vinstri grænna að fara sínu fram um hann í takt við trúarsetningar, sem koma heilbrigði ekki neitt við. En veika fólkið í landinu, það er bara afgangsstærð.

                                          ***

Ábyrgðin er auðvitað Svandísar, en meðan sjálfstæðismenn láta sér þetta bara lynda og standa þöglir hjá, þá eru þeir auðvitað ekki ábyrgðarlausir. Eða svo við um orðum Edmund Burke, þá er hið eina, sem sem fáfræðin þarf til að sigra, það að þeir sem vita betur segi ekki neitt.

                                          ***

Þetta lýtur ekki einungis að hugmyndum um rekstrarform eða greiðslufyrirkomulag í heilbrigðisgeiranum, því eins og vanalega eru hreinsanir gömlum kommum alltaf ofarlega í huga. Það sást vel þegar Svandís lét það verða eitt sitt fyrsta verk að losa sig við Steingrím Ara Arason, forstjóra Sjúkratrygginga. Allir þeir sem þekkja til Steingríms Ara vita að þar fer vandaður maður, en áratugarlöng störf hans hjá Sjúkratryggingum voru óaðfinnanleg. En hann vann það sér til óhelgi að vera bæði hægrimaður og ófús til þess að taka við órökstuddum geðþóttafyrirmælum af skrifstofu ráðherra. Hann var rekinn fyrir góða stjórnsýslu. Í stað Steingríms Ara var ráðin fjármálastjóri Landspítalans, en sá ágæti spítali hafði þá verið rekinn með halla í nokkur ár. Það var einmitt það sem Svandísi fannst vanta.

                                          ***

Heilbrigðismálin hætta seint að vera pólitískt bitbein. Til þess eru þau of snar þáttur í lífi hvers manns, hverrar fjölskyldu, en meðan við erum dauðleg finnst okkur sjálfsagt seint vera nóg gert þegar það snertir okkur sjálf og okkar nánustu. Sömuleiðis ræðir þar um einstaklega kostnaðarsama þjónustu, þar sem draga verður einhverjar línur um sameiginlega kostnaðarþátttöku, hvaða heilbrigðisþjónustu skattborgarar eigi að axla sameiginlega og hversu langt hún eigi að ganga; hvaða þjónustu fólk eigi sjálft að greiða fyrir. En við hljótum að geta náð skynsamlegu, almennu samkomulagi um að láta heilbrigðissjónarmið og árangur ráða ferðinni, ekki kreddur og kerlingabækur liðinnar aldar.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu þann 5. mars 2020. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.