*

mánudagur, 13. júlí 2020
Leiðari
21. apríl 2017 13:30

Stórsigur framundan

Um það verður vart deilt að staða Íhaldsflokksins er óhemju sterk um þessar mundir og þarf eitthvað stórkostlegt að breytast til að hann vinni ekki stórsigur í kosningunum í júní.

epa

Ákvörðun Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að boða til þingkosninga þar í landi í júní hefur valdið miklu fjaðrafoki þar í landi og hefur May verið sökuð um að ganga á bak orða sinna og um tækifærismennsku.

Um það verður vart deilt að staða Íhaldsflokksins er óhemju sterk um þessar mundir og þarf eitthvað stórkostlegt að breytast til að hann vinni ekki stórsigur í kosningunum í júní. Stjórnarandstaðan er margklofin og máttvana og Verkamannaflokkurinn er sérstaklega illa haldinn.

Nýjasta könnun ICM bendir einmitt til þess að Íhaldsflokkurinn muni fá 46% atkvæða í kosningunum, Verkamannaflokkurinn fái um 25% og Frjálslyndi flokkurinn um 11%. Íhaldsflokkurinn er nú með 331 þingsæti, en gæti auðveldlega náð yfir 400 sætum í kosningunum, sem myndi þýða að Íhaldsflokkurinn væri þá með álíka marga þingmenn og Verkamannaflokkurinn var með eftir kosningarnar 1997 og 2001, þegar völd Tony Blair voru sem mest.

Það er barnalegt annað en að ætla að þetta hafi ráðið miklu um ákvörðun May um að blása til kosninga nú, en fleira spilar inn í.

Eins og áður segir er Verkamannaflokkurinn svo gott sem lamaður og innanflokks- átök hafa skilið eftir sig mörg sár. Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, nýtur almennrar hylli grasrótarinnar og meirihluta almennra flokksmanna, en á fáa stuðningsmenn í þingflokki flokksins. Eins hefur honum ekki tekist að ná til kjósenda í Bretlandi, eins og niðurstöður kannana sýna.

Það hefur legið í loftinu um nokkurn tíma að Verkamannaflokkurinn myndi skipta um leiðtoga, en það verður ekki gert fyrir þessar kosningar. Með því að blása nú til kosninga hefur May tryggt að það verður Corbyn sem mun leiða flokkinn til sigurs, en ekki einhver annar kjörþokkafyllri leiðtogi.

Hófsemdarmenn innan Verkmannaflokksins geta hins vegar varpað öndinni léttar. Á landsfundi flokksins í september stóð nefnilega til að breyta reglum flokksins um tilnefningu frambjóðenda í embætti leiðtoga. Nú komast þeir einir á kjörseðil sem njóta stuðnings 15% þingmanna flokksins. Óvíst er hvort Corbyn – eða einhverjum samherja hans – tækist að afla slíks fylgis meðal þingmanna í dag. Samkvæmt breytingartillögunni átti að lækka hlutfallið í 5%.

Hófsemdarmenn meðal þingmanna Verkamannaflokksins sjá því fram á að geta jafnvel náð völdum á ný í flokknum. Corbyn verði ekki stætt á öðru en að segja af sér eftir það afhroð sem búast má við að flokkurinn bíði í kosningunum í júní og þá verði flokksmönnum bara boðið upp á að gera upp á milli mismunandi hófsamra jafnaðarmanna í leiðtogakjörinu.

Hvort almennir flokksmenn muni sætta sig við slíkt er hins vegar önnur spurning og erfiðari.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.