*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Leiðari
23. október 2020 15:12

Strand „nýju stjórnarskrárinnar“

Þörfin fyrir umbyltingu stjórnskipunarinnar er engin og vart verður séð að slíkt sé æskilegt.

Úr myndbandi þar sem fólk var hvatt til þess að skrifa undir áskorunina.

Umræða um stjórnarskrármál hefur verið hávær að undanförnu en þar er helst um að kenna undirskriftasöfnun þar sem þess var krafist að Alþingi „lögfesti nýju stjórnarskrána“. Alls krotuðu rúmlega 43 þúsund manns undir listann með rafrænum hætti.

Óneitanlega er það þegnum hvers lýðræðisríkis hollt að ræða öðru hverju grunnrreglur sem ríkinu ber að tryggja og halda í heiðri í samskiptum við þá. Því er miður að umræðan nú hafi ekki náð á þann stað. Þar er helst hægt að kenna þeim um sem vilja „nýju stjórnarskrána“ – hana og aðeins hana – óháð ótal vanköntum plaggsins.

Fimm mismunandi rökum hefur verið teflt fram fyrir lögfestingu afurðar stjórnlagaráðs. Í fyrsta lagi finnast þau enn sem telja að gildandi stjórnarskrá hafi steytt á skeri í efnahagslegu aftakaveðri hrunsins. Nú, tólf árum síðar, ætti öllum að vera ljóst að sú röksemd heldur ekki vatni. Þótt grunnlögin hafi stöku tilfelli bognað þá brotnuðu þau eigi.

Í annan stað hefur verið bent á að stjórnarskráin sé að grunni til dönsk, ávallt hafi staðið til að leggjast í gagngera endurskoðun á henni og að það sé Íslendingum skömm að byggja enn á dönskum rótum. Slíkum þjóðrembingi er auðsvarað með því að benda á að frá 1944 hefur texti stjórnarskrárinnar tekið breytingum í ýmsum grundvallaratriðum. Því til viðbótar hafa myndast í meðförum handhafa ríkisvaldsins fjölmörg fordæmi, venjur og meginreglur sem ýmist skýra frekar ákvæði grunnlaganna sjálfra eða hafa jafnvel stjórnarskrárígildi.

Þriðju rökin lúta að því að þjóðin hafi samþykkt „nýju stjórnarskrána“ í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú kosning fór fram áður en hópur sérfræðinga lét hendur standa fram úr ermum við að reyna að stoppa í götin á frumvarpi stjórnlagaráðs. Enginn með sæmilega jarðtengingu myndi leggja til að sá fyrirburi yrði lögfestur í óbreyttri mynd. Engin atkvæðagreiðsla hefur síðan farið fram um stagbætt frumvarpið.

Í fjórða lagi hefur því verið haldið fram að „nýja stjórnarskráin“ sé aðeins hóflega bætt útgáfa þeirrar eldri sem „einfaldlega meika sense í nútíma lýðræðisríki“, svo vitnað sé til orða úr myndbandi undirskriftaherferðarinnar. Slík framsetning er beinlínis villandi.

Ekki þarf að þaullesa frumvarpið til að sjá að frumvarpið felur í sér talsvert aukin völd til forseta og forsætisráðherra, gjörbreytta framkvæmd kosninga og mannréttindakafla sem víkur í veigamiklum atriðum frá þeim meginreglum sem gilt hafa um árabil. Slíkt myndi glögglega hafa gífurlega réttaróvissu í för með sér um ókomin ár. Í stað hóflegrar uppfærslu væri því nær lagi að kalla þetta réttu nafni, gjörbreytta stjórnskipan lýðveldisins Íslands.

Þær röksemdir sem hingað til hafa verið reifaðar eru allar því marki brenndar að þær eru auðhrekjanlegar með því að benda á staðreyndir en svo er ekki um þau síðustu enda er þar á ferð skoðun en ekki rök. Það eru „mér finnst“ rökin og er gripið til þeirra þegar öll önnur sund eru lokuð. Sannast þar hið fornkveðna að erfitt er að breyta skoðunum og tilfinningum fólks, sama hve bagalegur málstaður þess er. Að því leyti upplifa fylgismenn hóflegra og hægfara stjórnarskárbreytinga nú sama ergelsi og þau sem standa í rökræðum við einstaklinga sem enn trúa því að jörðin sé flöt eða þau sem loka augunum fyrir því að mannkynið hafi skvett olíu á eld loftslagsbreytinga. Slík umræða er ekki líkleg til árangurs.

„Það er ekki að kenna amlóðahætti stjórnarskrárnefnda, sem starfað hafa frá lýðveldisstofnun, að árangur hefur ekki skilað sér í nýrri stjórnarskrá. Það er heldur vegna þess að þegar í harðbakkann hefur slegið hafa menn staðið frammi fyrir þeirri staðreynd að stjórnarskráin sem við höfum hefur þjónað okkur vel svo að afgerandi breytingar hafa ekki verið sjálfsagðar,“ sagði Þorvaldur Garðar Kristjánsson á þingi árið 1991 þegar verið var að ræða stjórnarskrárbreytingu um afnám deildaskiptingar þingsins.

Tæpum þremur áratugum síðar eiga þau orð enn ágætlega við. Þörfin fyrir umbyltingu stjórnskipunarinnar er engin og vart verður séð að slíkt sé æskilegt. Því væri óskandi að fylgismenn „nýju stjórnarskrárinnar“ sættu sig við það svo upphrópanir um hana og aðeins hana kaffæri umræðuna ei meir. Þá fyrst er hægt að ræða á yfirvegaðan máta um hvort og þá hvernig er unnt að bæta grunnreglur samfélagsins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.