*

föstudagur, 13. desember 2019
Týr
5. apríl 2019 07:34

Stríð og friður

Í trausti þess að þetta hafi nú allt gengið eftir að lokum, þá felst í því verulegur sigur fyrir ríkisstjórnarsamstarfið.

Frá undirritun kjarasamninga.
Haraldur Guðjónsson

Allt bendir til þess - þegar þetta er ritað - að aðeins eitt kortér enn sé þar til samningar milli stóru stéttarfélaganna, VR, Eflingar og Starfsgreinasambandsins, og Samtaka atvinnulífsins verði undirritaðir. Fyrir hönd lesenda blaðsins verður að vona að þau kortér öll verði liðin, þegar þessar línur eru lesnar.

* * *

Í trausti þess að þetta hafi nú allt gengið eftir að lokum, þá felst í því verulegur sigur fyrir ríkisstjórnarsamstarfið. Óhætt virðist að fullyrða að aðrir lausir samningar verði gerðir á sömu eða svipuðum nótum, jafnt á almennum vinnumarkaði sem hjá hinu opinbera. Það er erfitt að ímynda sér að hljómgrunnur finnist fyrir öðru. Og þar með er friður á vinnumarkaði kominn í höfn hjá ríkisstjórninni út kjörtímabilið, fyrr en nokkur þorði að vona.

* * *

Það er ljóslega rós í hnappagöt þeirra Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, sem þá geta tekið til við önnur og aðkallandi verkefni á viðsjárverðum tímum.

* * *

Þau voru samt einkennilega ófriðleg ummæli Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, um að samkomulagið væri ekki „fullnaðarsigur heldur vopnahléslína milli stéttar verkafólks og stéttar auðmagnseigenda. Baráttan milli þeirra heldur áfram." Ekki síður einkennileg þegar horft er til þess dræma stuðnings, sem forysta Eflingar hefur fengið hjá verkalýðnum undanfarnar vikur. Það sást vel í hungurgöngunum, sem matgæðingurinn Gunnar Smári Egilsson boðaði til og Sólveig Anna var aðalræðumaður, en mæting var léleg og verkamenn víðs fjarri. Mætingin svo léleg raunar í síðara skiptið, að fjölmiðlar höfðu ekki einu sinni fyrir því að segja frá henni (til samanburðar var 20 manna mótmælastöðu við hvalveiðum gerð góð skil). Ekki síður á samstöðufundi í Vinabæ vegna verkfalls rútubílstjóra, en þar voru verkalýðsfrömuðir, kontóristar af skrifstofu Eflingar og fjölmiðlafólk mun fleiri en blessaðir bílstjórarnir!

* * *

Ragnar Þór Ingólfsson hjá VR var öllu ærlegri í þeim ummælum sínum að uppsagnirnar hjá WOW air hefðu hreyft við mönnum, enda fá verkalýðsfélögin lögum samkvæmt fyrst að vita af hópuppsögnum. Sem á sinn hátt er lofsvert. Enn er þó eftir að sjá hvað vopnahléið kostar atvinnulíf og vinnumarkað. Og ekki víst að allir launþegar verði sáttir við herkostnaðinn þegar upp er staðið.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.