Hafandi verið líkamsræktarþjálfari í yfir 15 ár, fengið til mín einstaklinga með litla sem enga reynslu af styrktarþjálfun upp í það að vinna með mörgum af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar - þá hef ég fullvissað mig um að styrkur er undirstaða árangurs. Flestir íþróttamenn vita hvað andlegur styrkur er mikilvægur en ekki eru allir jafn meðvitaðir um hvað líkamlegur styrkur getur skipt miklum sköpum.

Fátt er betur til þess fallið að fyrirbyggja meiðsli hjá íþróttamönnum en styrktarþjálfun. Margir íþróttamenn forðast styrktarþjálfun á þeim forsendum að styrktarþjálfun trufli reglubundnar æfingar, séu of tímafrekar og „þyngi“ þá á undirbúningstímabilinu. Sama hvaða íþróttagrein þú stundar þá er styrktarþjálfun afar mikilvæg. Þá skiptir ekki máli hvort þú et hlaupari, sundmaður, spjótkastari, knattspyrnumaður eða keiluspilari.

Ef við tökum hlaupara sem dæmi. Að hlaupa krefst styrks framan og aftan á lærum, kálfum, kvið, mjóbaki og rassvöðvum svo dæmi sé tekið. Að hlaupa styrkir úthald fóta og kálfa. Til þess að styrkja hjálparvöðvana, þ.e mjóbak og kvið, þá þurfum við að gera styrktaræfingar. Of einhæft álag setur of mikla spennu á þá vöðva sem fyrir álaginu verða.

Ef við styrkjum aðra vöðvahópa sem vinna með álagsvöðvunum þá dreifum við álaginu og fyrirbyggjum meiðsli. Því meiri styrk sem við höfum því fyrr jöfnum við okkur eftir mikil átök.

Styrktaræfingar snúast ekki alltaf um að lyfta þungum lóðum. Gera má mjög fjölbreyttar og árangursríkar styrktaræfingar með eigin líkamsþyngd hvar og hvenær sem er.

Hvort sem þú velur að gera þá skiptir styrktarþjálfun öllu máli.