*

laugardagur, 30. maí 2020
Þóra Þorgeirsdóttir
6. ágúst 2019 11:15

Stytting vinnuvikunnar og aukinn sveigjanleiki í starfi

Hvort sem um er að ræða styttingu vinnuvikunnar eða aðra leið til aukins sveigjanleika í starfi er engin ein töfralausn sem hentar öllum.

Undanfarin misseri hefur umræða um styttingu vinnuvikunnar orðið æ háværari í samfélaginu, sérstaklega í tengslum við lífskjarasamninginn og kjaraviðræður. Styttri vinnuvika er talin skila ánægðara starfsfólki sem líður betur í vinnunni og hjálpar starfsfólki við að finna hið gullna jafnvægi milli vinnu og einkalífs.

Stytting vinnuvikunnar er þó aðeins ein af fjölmörgum leiðum sem geta hjálpað okkur að finna það mikilvæga jafnvægi sem við leitum öll að. Erlendis hafa aðrar leiðir notið meiri vinsælda eins og fjarvinna þar sem starfsfólk getur sjálft kosið hvar og hvenær það vinnur, innan þess ramma sem vinnuveitandi setur. Fjarvinna gerir fólki kleift að vinna annarsstaðar en á vinnustað einn eða fleiri daga í viku og sleppa þannig við þann tíma sem fer í ferðalög til og frá vinnu. Einnig er algengt víða erlendis að þétta vinnuvikuna (e. compressed workweeks) þar sem starfsfólk vinnur t.d. 9 eða 10 tíma fjóra daga vikunnar og er svo í fríi fimmta daginn. Svo er það sveigjanlegi vinnutíminn sem flestir þekkja, þar sem starfsmenn geta ráðið hvenær þeir mæta og hvenær þeir hætta innan þess ramma sem fyrirtæki setur og geta skroppið frá, svo fremur sem þeir vinna þann glataða vinnutíma upp síðar.

Allar eiga þessar leiðir sína kosti og galla og engin þeirra er betri en önnur í leitinni að hinu gullna jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þegar öllu er á botninn hvolft ræðst árangur af innleiðingu styttrar vinnuviku eða aukins sveigjanleika af mörgum þáttum. Þar skiptir viðhorf stjórnenda lykilmáli, hvort þeir sýni vilja og stuðning sinn í verki, sýni fordæmi og séu tilbúnir að treysta starfsmönnum sínum til að skila góðu verki þótt þeir vinni styttri vinnuviku eða nýti sér annan sveigjanleika í starfi. Að sama skapi hefur menningin á vinnustaðnum mikil áhrif, hvort hún endurspegli skilning á sveigjanleika eða hvort starfsfólk sem mætir með seinna fallinu sé litið hornauga, árangur sé mældur í löngum setum við skrifborð eða fjarvera litin grunsamlegum augum. Svo er einnig mikilvægt að huga að hönnun starfa og endurhugsa verkefni og verkefnaskiptingu þannig að innleiðing aukins sveigjanleika – eða styttrar vinnuviku – heppnist sem best.

Það sem er þó allra mikilvægast, hvort sem fyrirtæki ætlar að stytta vinnuviku eða innleiða annan sveigjanleika, er að hafa starfsfólk með í ráðum. Það hefur oft bestu innsýnina í það hvernig hægt er að aðlaga störf og verkefni þannig að það komi ekki niður á þjónustu, afköstum eða rekstri. Við þurfum líka að muna að það sem virkar fyrir einn virkar ekki nauðsynlega fyrir annan og það sem virkar á einum stað eða í einni deild virkar kannski ekki annars staðar. Hvort sem um er að ræða styttingu vinnuvikunnar eða aðra leið til aukins sveigjanleika í starfi er engin ein töfralausn sem hentar öllum.

Höfundur er viðskiptastjóri hjá Maskínu, lektor við Háskólann á Bifröst og með doktorsgráðu í mannauðsstjórnun frá Cranfield háskóla í Bretlandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.