*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Erla Skúladóttir
24. ágúst 2018 15:01

Súkkulaðistríð

Að undanförnu hefur umfjöllun um súkkulaði ratað óvenjuoft í íslenska fjölmiðla.

Að undanförnu hefur umfjöllun um súkkulaði ratað óvenjuoft í íslenska fjölmiðla. Á dögunum kynnti hérlendur sælgætisframleiðandi með viðhöfn forvitnilega og fágæta súkkulaðitegund, unna úr bleikri kakóbaun, og á einhverri útvarpsstöðinni var um helgina löng og ítarleg umfjöllun um kakójóga og –hugleiðslu sem ku vera hvort tveggja slakandi og endurnærandi.

Þá greindu fjölmiðlar nýlega frá dómi Evrópudómstólsins frá 25. júlí sl. þar sem leyst var úr ágreiningi sem má í raun rekja allt aftur til fjórða áratugar síðustu aldar þegar norska súkkulaðistykkið Kvikk Lunsj var sett á markað skömmu eftir að Kit Kat, sambærilegt að stærð og lögun, hafði verið markaðssett í Bretlandi. Fyrir dómstólnum lá að kveða upp úr um gildi skráningar Nestlé á þrívíddarmerki sem sýnir lögun súkkulaðisins, í öllum löndum Evrópusambandsins frá árinu 2006.

Skráningin hefur hindrað aðgang Kvikk Lunsj, sem framleitt er af norska fyrirtækinu Freiu, sem nú er í eigu alþjóðlega risans Mondelez, að markaðnum. Báðar súkkulaðitegundirnar hafa verið seldar hérlendis, enda nær vernd Evrópumerkis ekki út fyrir yfirráðasvæði Evrópusambandsins.

Þeir sem þekkja til páskahefða frænda okkar Norðmanna vita hversu ríkan sess Kvikk Lunsj skipar í norsku þjóðarsálinni, en súkkulaðistykkið, ásamt appelsínum, fjallakofa, gönguskíðatúr og páskakrimma eru órofa hluti hátíðarhaldanna. Í kjölfar niðurstöðu Evrópudómstólsins, sem hafnaði skráningu Nestlé á Evrópumerki fyrir form Kit Kat og lögun, opnast tækifæri til frekari útrásar Kvikk Lunsj.

Nestlé er hins vegar ekki á þeim buxunum að sætta sig við niðurstöðu dómsins og hefur þegar lýst því yfir að henni verði áfrýjað. Sem kemur ef til vill ekki á óvart, enda miklir hagsmunir í húfi. Auk þess hafa sömu aðilar um árabil háð aðra baráttu, ekki síður áhugaverða. Nefnilega um skráningu Cadburys, sem einnig er í eigu Mondelez, á fjólubláum lit fyrir umbúðir súkkulaðis.

Höfundur er sérfræðingur í hugverkarétti og rekstri sprotafyrirtækja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is