Með hækkandi sól má sjá mikinn fjölda af fólki af báðum kynjum á öllum aldri draga fram hlaupaskóna og reiðhjólin. Þessi vetur var okkur erfiður. Met var slegið í snjómagni á höfuðborgarsvæðinu, færðin leiðinleg og óvenju kalt. Því er engu líkara en að við séum að koma úr híði vetrarins með ógurlegum krafti og þörf fyrir útrás og súrefni.

Ég skynja það sterkt á mínum viðskiptavinum að sumarið er tíminn og fólk getur vart beðið eftir því að takast á við krefjandi og skemmtileg verkefni undir berum himni. Metskráning er í göngu- og hlaupahópa, iðkendum sem stunda þríþraut hefur fjölgað gríðarlega á síðustu misserum og nú er átakið „hjólað í vinnuna“ að hefjast en þar megum við gera ráð fyrir að þátttökumet verði slegið.

Mér finnst fátt skemmtilegra en að fara út í yndislegu veðri, fara upp á Esjuna eða draga fram hjólið og tæta um stíga borgarinnar. Við eigum einstaka náttúru sem býður upp á allt það sem hugurinn girnist og eins eru íslensku björtu sumarkvöldin frábær tími fyrir útiveru og hreyfingu. Að koma heim með súrefni í kroppnum eftir góðan dag er ólýsanleg tilfinning sem ekkert toppar.

Áskorun dagsins er að taka sig til eftir að börnin eru sofnuð, eftir erfiðan og langan vinnudag, rífa fram hjólið eða hlaupaskóna og taka 40-60 mínútna góðan hlaupahring eða hjólatúr. Frábær leið til að tæma hugann og það er ekki hægt annað en að fara sáttur að sofa eftir á. Það er líka útivera að taka til í garðinum eða bóna bílinn. Það geta því allir verið með. Ég hvet alla þá sem ekki eru komnir á bragðið að slökkva á sjónvarpinu eða tölvunni og drífa sig út. Með því eru þið öðrum hvatning. Lengi lifi sumarið!