Erindislaus maður kemst í valdamikla stöðu með stuðningi mikils minnihluta kosningabærra manna. Hann bíður ekki boðanna og virðist réttlæta erindi sitt með því að koma með sífellt digurbarkalegri yfirlýsingar í fjölmiðlum við öll tækifæri sem bjóðast. Fjölmiðlar þurfa að fylla fréttatíma á hverjum degi og því eiga lírukassaapar greiðan aðgang að þeim.

Það gildir engu um hvort yfirlýsingarnar eru rangar eða hvort þær boða aðgerðir sem stangast á við lög og reglur – valdamaðurinn forherðist við hverja aðfinnslu. Staðreyndir skipta engu máli í þessu samhengi enda snýst leikurinn um að festa sig í sessi með málflutningi sem einkennist af tilfinningaklámi og höfðar í sífellu til lægsta samnefnara þeirra sem fylgjast með. Á sama tíma á valdamaðurinn háværan hóp fylgjenda sem eru reiðubúnir til að úthúða samfélagsmiðlum og hverjum þeim sem vogar sér að benda á brestina í skoðunum vindbelgsins.

Niðurstaðan er sú að flest hugsandi fólk heldur sig til hlés á hliðarlínunni. Loks keyrir um þverbak þegar valdamaðurinn afhjúpar sig í röð viðtala í fjölmiðlum sem ekkert annað en múgæsingamaður á vályndum tímum. Þá fellur tjaldið.

Þetta er sum sé ekki búin að vera góð vika fyrir Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR. Hann hefur afhjúpað tilraunir sínar til þess að vera skuggastjórnandi lífeyrissjóða í andstöðu við lög og reglur og reynt að binda enda á lífróður eins stærsta hlutafélags landsins. Grafalvarleg staða Icelandair er einungis boðberi þess sem koma skal.

Efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins sem nú geisar eru einungis að litlu leyti komin fram. Ljóst er að erfiðir tímar eru framundan í haust og þeir kalla á ábyrga forystu á vettvangi stjórnmála og efnahagslífs. Ekkert bendir til þess að verkalýðsforystan sé í stakk búin til þess að standa undir þeirri ábyrgð.