Eins og hendi hafi væri veifað skall hér á önnur bylgja heimsfaraldursins. Upphaflega var talið að faraldurinn myndi ganga yfir á skömmum tíma, í mánuðum talið og efnahagsaðgerðir stjórnvalda sem kynntar voru fyrr á árinu í samræmi við það. Nú þegar talið er að baráttan gegn COVID-19 verði ekki talin í mánuðum heldur árum, verða efnahagsaðgerðir að taka mið af því.

Aðlögun og hagræðing er óumflýjanleg, einkum í ferðaþjónustu. Áður störfuðu hér á landi um 25 þúsund manns við ferðaþjónustu. Ekki er óvarlegt að áætla að af þeim muni rúmlega 10 þúsund skipta um starfsvettvang. Í maí voru 33 þúsund manns á skrá hjá Vinnumálastofnun, flest störf í ferðaþjónustu og tengdum greinum en varla nokkur hjá hinu opinbera.

Nú þegar atvinnuleysi nær áður óþekktum hæðum heyrast raddir víða um nauðsyn þess að hækka atvinnuleysisbætur. ASÍ hefur gengið einna lengst í málflutningi sínum og krefst svo mikillar hækkunar að stórum hluta atvinnulausra yrði nánast tryggðar fullar tekjur í hálft ár og atvinnuleysisbætur yrðu þær allra hæstu innan OECD, horft til munar á tekjum fyrir og eftir atvinnumissi.  Ljóst er að ef hugmyndir ASÍ hlytu brautargengi myndi draga verulega úr hvata til atvinnuleitar með ófyrirséðum afleiðingum fyrir ríkissjóð og það velferðarsamfélag sem við þekkjum.

Kröfur um frekari sértækar aðgerðir til fyrirtækja eru heldur ekki raunsæjar þegar farsóttin er ekki lengur þær skammtímahremmingar sem vonast var til í upphafi. Við stöndum frammi fyrir breyttum veruleika. Nú skiptir höfuðmáli að stjórnvöld skapi skilyrði svo einkaframtakið geti aukið verðmætasköpun, fjölgað störfum og unnið þannig gegn stighækkandi atvinnuleysi. Engar skyndilausnir duga í þetta sinn. Álögur þarf að minnka varanlega svo unnt sé að hleypa súrefni inn í aðþrengt atvinnulífið. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.