*

fimmtudagur, 24. september 2020
Huginn og muninn
15. mars 2020 10:05

Svarað fyrir Áslaugu Örnu

Forsætisráðherra var til andsvara í máli sem hefði átt að beina til dómsmálaráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Hrafnarnir fylgdust með sérstakri umræðu um almannavarnir á Alþingi á miðvikudag í síðustu viku, enda margt sem þarf að huga að í þeim málum eftir erfiðan vetur, jarðhræringar og nú farsóttir.

Málshefjandi umræðunnar var Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna og til andsvara var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Sérstök umræða fer þannig fram að þingmenn óska eftir því að ræða tiltekin mál við ráðherra og það er undir ráðherranum komið að verða við þeirri beiðni eða ekki.

Það sem er helst áhugavert við þessa umræðu er að almannavarnir eru alls ekki á borði forsætisráðherra, heldur dómsmálaráðherra. Katrínu hefði því verið í lófa lagið að benda flokksbróður sínum á það og beina óskinni um sérstaka umræðu til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Það gerði hún hins vegar ekki.

Hrafnarnir bíða spenntir eftir því hvort þingmenn VG óski í kjölfarið eftir sérstakri umræðu við forsætisráðherra um fjármál ríkisins, menntamál, samgöngumál eða hver önnur þau mál sem forsætisráðherra vill skreyta sig með hverju sinni.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.