*

laugardagur, 15. ágúst 2020
Leiðari
15. júlí 2019 09:08

Svarthvít viðhorf í grárri sveiflu

það eru tvær hliðar á öllum málum en það virðist gleymast þegar hagsveiflan er annars vegar.

Laun sjómanna hafa hækkað mikið og afkoma útgerða batnað í niðursveiflunni.
Aðsend mynd

Íslenska hagkerfið stefnir nú í fyrstu niðursveifluna í áratug. Þó að Viðskiptablaðið fagni ekki stöðunni er vert að benda á að fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Þetta á vel við þegar hagsveiflur eru til umræðu en samt er sérstök ástæða til þess að rifja þetta ágæta spakmæli upp nú þegar hvergi glittir í endalok niðursveiflunnar.  

Hagsveiflur eru hvimleiðar og til marks um markaðsbresti að mati sumra hagfræðinga. Aðrir kenna ójafnvægi í útlánum banka um herlegheitin – í það minnsta ýki víxlverkun mikillar útlánaþenslu og samdráttar sveifluna upp og niður. Um þetta deila hagfræðingar en þeir ættu þó að geta sammælst um eitt; hagsveiflur eru flókið fyrirbæri. Undir það tekur Viðskiptablaðið heilshugar og liggur þessi skoðun til grundvallar bollalengingunum hér að neðan.  

Skýr markmið sem túlka má í tölum eru hornsteinn faglegrar hagstjórnar. Stjórnvöld einblína þannig á hagvöxt og seðlabankar á verðbólgu. Þessi sjálfsögðu vinnubrögð eru þó ekki gallalaus því það er ekki án áhættu að smætta jafnflókin fyrirbæri og hagkerfi og hagstjórn í eitt tölulegt markmið. Verðstöðugleiki er góður en ekki ef hann kostar atvinnuleysi og sviðna jörð. Einföld markmið geta líka leitt til annað-hvort-eða-hugsunar; hagvöxtur er góður og því er enginn hagvöxtur vondur. Að mati Viðskiptablaðsins hrjá slíkar rökvillur efnahagsumræðuna hér á landi. 

Hagsveiflur eru flóknar og alhæfingar um þær oft villandi. Kreppa er ekki endilega vond og þensla ekki nauðsynlega góð. Miklu nær væri að tala um hálffullt glas eða hálftómt.  Hagkerfi er fólk og hagfræði mannvísindi og spurningar um gott og vont velta á því hver spyr. Íslenska hagkerfið er lítið og niðursveiflur koma einna helst fram í veikari krónu. Fyrir vikið er auðvelt að sjá báðar hliðar sveiflunnar og ekki þarf að rýna lengi til að sjá að niðursveifla er langt í frá bara svartnætti og öfugt. Veikari króna styrkir stöðu útflutnings og framleiðslufyrirtækja sem hallað hefur á í góðæri síðustu ára. Á innlendum fiskmörkuðum fá útgerðir nú tvöfalt hærra verð fyrir aflann en í fyrra sem jafngildir 100% launahækkun sjómanna. Fáir amast yfir kreppunni á Halamiðum í dag. 

Spurningin veltur ekki bara á því hver spyr heldur líka hvar. Á Íslandi er öll þjónusta nær alfarið á einum punkti á landakortinu á meðan landsbyggðin byggir nær alfarið á framleiðslu. Þannig voru stjórnendur af landsbyggðinni mun jákvæðari en kollegar þeirra í borginni í síðustu mælingu Gallup og í fyrsta sinn í marga áratugi er fasteignaverð á Vestfjörðum á uppleið. Grátkór landsbyggðarinnar hefur líka fengið öfluga söngvara til liðs við sig þar sem veikari króna styrkir einnig stöðu ferðaþjónustunnar og hótelrekstur. Nefna má fjölmörg önnur dæmi niðursveiflunni til varnar. Nýsköpun og frumkvöðlastarf blómstrar gjarnan í efnahagslægðum og fyrirtæki leggja meiri áherslu á hagræðingu í niðursveiflu sem skilar sér í betri framleiðni síðar meir. 

Af einhverjum sökum fer lítið fyrir þessum röddum í efnahagsumræðunni og mögulega skýrir það hvers vegna hagsveiflan er almennt ýktari hér en gengur og gerist erlendis. Að sama skapi fer lítið fyrir neikvæðni og gagnrýni þegar þenslan ríður röftum, sem aftur kann að skýra lítið aðhald í fjárfestingum og útlánum á höfuðborgarsvæðinu. Mögulega stafar ójafnvægið af því að langflestir sem tjá sig um efnahagsmál horfa á hagsveifluna frá sama sjónarhóli fjármálakerfisins. Alltént er tilefni til þess að skjóta því að greinendum að gleyma ekki ljósinu í myrkrinu, nú eða skugganum í ljósinu, allt eftir því hvar í sveiflunni þeir eru staddir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.