*

sunnudagur, 23. janúar 2022
Huginn og muninn
20. október 2018 10:02

„Sveit sérfræðinga að sunnan"

Mál laxeldisfyrirtækjanna er gott dæmi um það hvað hreppapólitíkin á sér djúpar rætur í íslenskri pólitík.

Haraldur Guðjónsson

Hreppapólitíkin á sér djúpar rætur í íslenskum stjórnmálum. Varla var búið að birta úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þegar stjórnmálamenn byrjuðu að tala um að Vestfirðingum væri haldið í „herkví“ þegar augljóst var af lestri úrskurðanna að þeir væru fyrst og síðast áfellisdómur yfir stjórnsýslunni og þá sérstaklega vinnulagi Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stökk á vagninn. „Það er einhver ss-sveit, sveit sérfræðinga að sunnan, sem kemur alltaf í veg fyrir að eitthvað gerist á Vestfjörðum,“ sagði Ásmundur í þingsal þegar verið var að ræða frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum um fiskeldi. Tilgangur frumvarpsins var að veita fiskeldisfyrirtækjunum á Vestfjörðum bráðabirgðaleyfi til tíu mánaða. Skammstöfunin, sem Ásmundur notaði í ræðu sinni, var í besta falli afar óheppileg enda viðurkenndi hann það í andsvari að þetta hafi verið „ósæmilegt“. Eftir stendur kjarni málsins en hann er sá að stjórnmálamenn tali niður til úrskurðarnefnda, sem einhverja „sveit sérfræðinga að sunnan“ sem reyni að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Hvert er umræðan eiginlega komin?

Hverjir eru þessir sérfræðingar?

Það er ágætt að benda á að við meðferð málanna sem snertu laxeldisfyrirtækin sátu fimm fulltrúar úrskurðarnefndarinnar. Nanna Magnúsdóttir, sem starfað hefur fyrir umboðsmann Alþingis, Eystrasaltsráðið og Evrópuráðið, Ómar Stefánsson, yfirlögfræðingur nefndarinnar, Ásgeir Magnússon, dómstjóri héraðsdóms Vesturlands, Aðalheiður Jóhannsdóttir, prófessor og doktor í umhverfisrétti og Geir Oddsson, doktor í umhverfis- og auðlindafræðum og ráðgjafi Norrænu ráðherranefndarinnar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Við eigum auðvitað að fagna því að okkar hæfustu sérfræðingar sitji í mikilvægum úrskurðarnefndum á stjórnsýslustiginu.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Stikkorð: laxeldi
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.