*

miðvikudagur, 28. október 2020
Týr
27. september 2020 09:08

Sveitarfélög í vanda

Sveitarfélögin voru það illa rekin að ekkert mátti út af bregða til að setja reksturinn í uppnám, síðan kom heimsfaraldur.

Á Akureyri hefur verið mynduð einhvers konar samstjórn allra bæjarfulltrúa það sem eftir lifir kjörtímabilisins. Bæjarfélagið er í fjárhagsvandræðum.
Haraldur Guðjónsson

Bæjarfulltrúar á Akureyri tilkynntu í vikunni að búið væri að mynda einhvers konar samstjórn allra bæjarfulltrúa það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Það kann að hljóma sem falleg hugmynd um nútímastjórnmál, þar sem allir vinna saman og allir eru vinir.

                                                          ***

Hið rétta er þó að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks og L-listans er svo gott sem búinn að keyra bæjarfélagið í þrot (sveitarfélög geta ekki orðið gjaldþrota skv. lögum). Oddvitar minnihlutaflokkanna eru búnir að horfa á of marga sjónvarpsþætti um það hvernig stjórnmál ættu að vera – jú og svo fá þeir líka formennsku í nokkrum nefndum og samhliða því aðeins hærri laun.

                                                          ***

Akureyrarbær er þó ekki eina sveitarfélagið í fjárhagsvandræðum. Í árshlutauppgjöri stærstu sveitarfélaga landsins fyrir fyrri hluta ársins kemur fram að fjárhagsstaða þeirra hefur versnað til muna. Týr lyfti þó brúnum þegar hann heyrði Sigurð Ármann Snævarr, sviðstjóra hag- og upplýsingasviðs Samtaka íslenskra sveitarfélaga, skella skuldinni á COVID-19 faraldurinn, þar sem atvinnuleysi hefði aukist og færri væru að greiða útsvar. Það er fyrirsláttur, því atvinnuleysi jókst ekki að ráði fyrr en með haustinu. Eftir góðæri síðustu ára var ríkissjóður vel undirbúinn fyrir áfall og samdrátt í hagkerfinu. Sömu hagstjórn er ekki til að tjalda í rekstri stærstu sveitarfélaganna, þrátt fyrir að þau innheimti flest hámarksútsvar og há fasteignagjöld. Þau eru það illa rekin að það mátti í raun ekkert út af bregða til að setja rekstur þeirra í algjört uppnám.

                                                          ***

Sigurður Ármann hélt því jafnframt fram að sveitarfélögin gætu hvorki minnkað útgjöldin né aukið tekjurnar. Þannig talar aðeins sá sem starfar fyrir opinbera aðila. Tekjuskortur er ekki vandamál sveitarfélaganna heldur útgjöldin, gæluverkefnin og stjórnkerfi sveitarfélaganna.

                                                          ***

Rekstur Reykjavíkurborgar er litlu skárri en á Akureyri. Veltufé frá rekstri er um 3% og skuldir borgarinnar aukast hratt. Rekstur borgarinnar er ósjálfbær en stærstu áhyggjur borgarfulltrúa snúa þó iðulega að einhverju allt öðru en fjárhag hennar. Allt er þetta óþægileg áminning um það að einkageirinn á einn að bera þungann af samdrættinum í hagkerfinu. Á meðan þúsundir starfsmanna missa vinnuna í einkageiranum hefur ekki einn opinber starfsmaður misst vinnuna. Týr óskar engum þess að missa starf sitt, en það kemur að lokum að því að einkageirinn getur ekki haldið uppi hinu opinbera.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.